02.04.1984
Sameinað þing: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4318 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur kannað kjörbréf fyrir Svanfríði Jónasdóttur kennara á Dalvík, sem er 1. varamaður Alþb. í Norðurl. e., en það er óskað eftir því að hún taki sæti á Alþingi í forföllum Steingríms J. Sigfússonar, 4. þm. Norðurl. e. Kjörbréfanefnd hefur ekkert fundið athugavert við þetta kjörbréf og leggur til að það sé samþykkt.

Í öðru lagi hefur kjörbréfanefnd kannað kjörbréf fyrir Böðvar Bragason, sem er 1. varamaður Framsfl. í Suðurlandskjördæmi, en það er óskað eftir því að hann taki sæti á Alþingi í forföllum Þórarins Sigurjónssonar, 2. þm. Suðurl. Kjörbréfanefnd hefur ekki séð neitt athugavert við þetta kjörbréf og leggur til að það verði samþykkt.

Í þriðja lagi hefur kjörbréfanefnd athugað kjörbréf fyrir Jón Magnússon, sem er 3. varaþm. Sjálfstfl. í Reykjavík, en þess er óskað að hann taki sæti á Alþingi í forföllum Friðriks Sophussonar, 2. þm. Reykv. Fyrir liggur bréf frá 2. varamanni þar sem hann lýsir því að hann geti ekki tekið sæti á Alþingi og 1. varamaður á þegar sæti á Alþingi. Kjörbréfanefnd hefur ekki fundið neitt athugavert við þetta kjörbréf og leggur til að það verði samþykkt.