02.04.1984
Efri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4322 í B-deild Alþingistíðinda. (3688)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umr., um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, er nauðsynjamál sem ég styð mjög eindregið og af heilum hug. Ég held að því verði ekki á móti mælt, að staða bænda er víða mjög erfið um þessar mundir. Skýringin á því er ekki ein. Skýringarnar eru margar.

Í fyrsta lagi er það óvefengjanlegt að árferði hefur verið mjög óhagstætt á undanförnum árum. Árin 1979, 1981 og 1983 eru vafalaust einhver óhagstæðustu ár fyrir landbúnaðinn frá veðurfarslegu sjónarmiði sem komið hafa um margra áratuga skeið. Ég hygg að í sögu landbúnaðar á þessari öld hafi ekki oft komið þrjú svo vond ár með svo stuttu millibili.

Annað sem veldur vandræðum í landbúnaði er að sjálfsögðu það að fyrir fáum árum var tekin upp verðtrygging allra lána og fjárskuldbindinga sem tengjast landbúnaði. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var. Má það vera ljóst öllum sem til þekkja í sveitum landsins að þeir sem voru búnir að byggja upp og framkvæma áður en verðtryggingarstefnan var tekin upp eru nokkuð á þurru með fjárhag sinn og rekstur, en þeir sem hafa staðið í verulegum framkvæmdum eftir að ekki fengust önnur lán en verðtryggð eiga í mesta basli. Það basl er tvímælalaust meira nú en oft hefur áður verið.

Ég veit að t. d. á Norðurlandi vestra, í Húnavatnssýslum og í Skagafirði, er skuldastaða bænda tvímælalaust erfiðari en verið hefur um mjög langt skeið. Við þær tvær meginástæður sem ég hef hér nefnt bætist svo þriðja ástæðan sem ekki er veigaminnst, en það er stjórnarstefnan. (EgJ: Fráfarandi ríkisstjórnar.) Ekki þó stjórnarstefna fráfarandi ríkisstjórnar sem, eins og hv. 11. landsk. þm. veit, var mjög hagstæð bændum, heldur núverandi stjórnarstefna þar sem skipt hefur mjög um til hins verra og lífskjör hafa orðið allverulega miklu lakari en áður var. Þetta á auðvitað ekki bara við launafólk í þéttbýlinu. Það á engu síður við bændur sem fá laun sín greidd í gegnum landbúnaðarverðið að nokkru leyti með viðmiðun við kaup annarra stétta með lágar tekjur og meðaltekjur. Kjör bænda hafa því skerst ekki minna seinasta árið en kjör fólksins í þéttbýlinu. Þar við bætist að víða hafa menn ekki einu sinni náð því grundvallarverði sem gert er þó ráð fyrir í verðlagningunni. Vantar töluvert mikið upp á það á ýmsum verðlagssvæðum. Nefndar eru tölurnar 8–12% ef miðað er við heildarkostnað búanna, sem aftur verður þá upp undir tvöfalt hærri prósentutala ef miðað er við launalið og launatekjur bóndans.

Ekki ætla ég að taka hér upp almennar umr. um stefnu ríkisstj. En það fer ekki milli mála að hún hefur haldið uppi býsna harðvítugri leiftursókn í efnahagsmálum sem hefur komið harðast niður á fólki með meðaltekjur og lágar tekjur. Menn geta vissulega deilt um það hvort þarna hafi ekki verið gengið allt of langt, hvort kaupmáttur hafi ekki verið felldur miklu, miklu meira en nokkur rök eru fyrir. Á það ekkert síður við um bændur en launamenn. Aðalatriðið er að kaupmáttarskerðingin er staðreynd og hún á jafnt við bændur sem launafólk í þéttbýli.

Þessar þrjár ástæður, þegar þær allar koma saman, valda því að staða bænda er nú erfiðari en verið hefur um mjög langt skeið. Ég tel því að það mál sem hér er flutt af hæstv. landbrh. og fjallar um breytingu á lausaskuldum bænda sé algert nauðsynjamál sem beri að hraða og megi ekki draga öllu lengur að komi til framkvæmda. Vissulega má velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið ástæða til fyrir hæstv. landbrh. að flytja þetta mál hér á þingi fyrr og hraða afgreiðslu málsins í heild. Úr því sem komið er sé ég þó ekki ástæðu til að upphefja rökræður um það hvers vegna þetta mál hefur tafist svo mjög sem raun ber vitni. Hitt hlýtur að vera aðalatriðið að við tryggjum í sameiningu eins hraða afgreiðslu málsins og unnt er í gegnum þessa deild. Á því stendur svo sannarlega ekki hjá okkur, sem erum í stjórnarandstöðu eða stjórnarminnihluta, eins og hv. 11. landsk. þm. komst svo ágætlega að orði áðan.

Eitt af þeim atriðum sem orðið hafa mönnum umræðuefni í þessu sambandi er hvort bændum tekst að fá lán til að gera upp verulegan hluta af þessum lausaskuldum sínum eða hvort enn eru einhverjir þröskuldar í bankakerfinu sem verða þess valdandi að þessi skuldbreytingaheimild Alþingis nýtist ekki með eðlilegum hætti. Af því fer tvennum sögum. Ég held að full ástæða sé til að óttast að margur bóndinn muni eiga erfitt með að nýta sér heimildina til fulls nema gerðar séu frekari ráðstafanir til þess að við bréfunum verði tekið í bankakerfinu. Af þeirri ástæðu flutti hv. þm. Steingrímur Sigfússon í Nd. till. þess efnis að innlánsstofnunum væri skylt að taka við bankavaxtabréfum er gefin væru út skv. lögum þessum. Og til þess að það skapaði ekki veruleg vandræði í vissum innlánsstofnunum, sem sumar eru smáar, þótt aðrar séu stórar, var þar ákvæði sem gerði ráð fyrir því að Seðlabankinn endurkeypti síðan þessi bréf. Þannig væri þetta ósköp einfaldlega þjóðfélagsleg aðstoð sem veitt væri með hjálp Seðlabankans í gegnum þær innlánsstofnanir sem hlut eiga að máli. Ekki hefur orðið samkomulag um það við afgreiðslu málsins hér í deild að taka þessa till. upp. Hún hlaut ekki stuðning í hv. landbn. Ed. og er ekki heldur flutt af þeim sem þó flytja hér brtt. á vegum stjórnarandstöðunnar, þ. e. hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Helga Seljan. Höfum við því ákveðið, þrír þm. Alþb., auk mín Helgi Seljan og Skúli Alexandersson, að endurflytja þessa till. hér við 2. umr. Till. hefur þegar verið dreift, en hún er samhljóða till. sem flutt var í Nd.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, en óska eftir því að þessi till. komi til atkv. nú við 2. umr.