02.04.1984
Efri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4327 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Stjórnarskrárnefnd hefur fjallað um frv. þetta til stjórnarskipunarlaga. Nefndin hefur ekki orðið sammála. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt. Einn nm., Stefán Benediktsson, skilar séráliti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. n., sem sex nm. standa að.

Frv. þetta er shlj. frv. til stjórnarskipunarlaga sem flutt var af Geir Hallgrímssyni, Steingrími Hermannssyni, Svavari Gestssyni og Magnúsi H. Magnússyni og samþykkt var á síðasta þingi. Það er lagt fyrir Alþingi nú skv. ákvæðum 79. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá 17. júní 1944.

Frv. þetta fjallar um kosningar til Alþingis. Frá því er breyting var síðast gerð á kjördæmaskipun og kosningarreglum árið 1959 hefur misvægi atkv. eftir búsetu kjósenda aukist allmikið. Jafnframt hefur skort á að jöfnuður milli stjórnmálaflokka hafi náðst. Þykir því nauðsynlegt að gera breytingar sem bæta úr þessum annmörkum. Fram fóru viðræður milli stjórnmálaflokkanna um úrlausn þessara mála. Niðurstaða þeirra viðræðna varð sú, að samkomulag náðist um að flytja frv. til stjórnarskipunarlaga á síðasta Alþingi. Með því að það frv. var samþykkt á síðasta þingi hefur það nú verið flutt óbreytt á þessu þingi skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar um breytingar á stjórnarskránni.

Í 1. gr. þess frv. sem við ræðum er lagt til að breyta 31. gr. stjórnarskrárinnar. Helstu breytingar eru þær, að þingsæti verða 63 í stað 60. Kjördæmin eru jafnmörg og óbreytt frá því sem verið hefur. Gert er ráð fyrir að bundin verði í stjórnarskrá lágmarkstala þingsæta í hverju kjördæmi, en kosningalög kveði á um skiptingu þingsæta milli kjördæma að öðru leyti. Með ákvæðum í síðustu mgr. 31. gr. er að því stefnt að hver stjórnmálasamtök, sem þm. fá, skuli fá þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína á landinu öllu. Er heimilað að setja ákvæði í kosningalög þess efnis að við úthlutun á allt að fjórðungi þingsæta hvers kjördæmis sé tekið tillit til kosningaúrslita í landinu öllu.

Í 2. gr. frv. er lagt til að breyta 33. gr. stjórnarskrárinnar. Aðalbreytingar eru tvær. Kosningaraldur er lækkaður úr 20 árum í 18 ár og er miðað við aldur á kjördegi eins og nú. Þessi breyting er í samræmi við það sem gert hefur verið í allmörgum nágrannalöndum. Hin aðalbreytingin er sú, að óflekkað mannorð er fellt niður sem kosningarréttarskilyrði. Hins vegar er því haldið sem kjörgengisskilyrði, sbr. 3. gr. frv. Enn fremur er nú rýmkað um búsetuskilyrði kosningarréttarins og komið til móts við hagsmuni þeirra sem ráða sig til vinnu eða eru við nám erlendis.

Á síðasta þingi urðu þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. ásáttir um yfirlýsingu um að annars vegar skyldi fylgja sem sérprentað fskj. með stjórnarskrárfrv. skýrsla stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar og hins vegar um að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Yfirlýsingu þessa er að sjá á fskj. með nál. meiri hl.

Í frv. þessu er að finna málamiðlun í viðkvæmu deiluefni. Þegar leitast er við að ná samkomulagi í svo viðkvæmu deilumáli, sem hér er um að ræða, má ætla að allir geti ekki orðið fullkomlega ánægðir eða jafnvel fæstir telji sig hafa fengið það sem þeir hefðu helst kosið. Samt sem áður verður að telja ákaflega mikilvægt að það skuli nú hafa tekist að ná þessu samkomulagi, sem frv. byggir á. Og það er fagnaðarefni í sjálfu sér að nú hefur tekist víðtækara samkomulag stjórnmálaflokkanna í landinu um þetta viðkvæma deilumál en áður hefur þekkst.

Menn deila um kosningar og kjördæmaskipan og þær deilur hér á landi hafa snúist um hlut stjórnmálaflokka og byggðarlaga. Við Íslendingar erum ekki einir um ágreining í þessum efnum. Engin algild fyrirmynd er fyrir hendi, sem gefið væri að ætti að nota í öllum lýðræðislöndum, heldur hefur þróunin orðið sú, að þessi mál hafa mótast með ýmsum hætti í hinum einstöku löndum, þannig að á hverjum stað væri tekið tillit til aðstæðna og þjóðarhags.

Annars ráðast niðurstöður manna í þessu máli af því hvaða markmið þeir setja sér. Ef keppikeflið er að tryggja fullkomlega jafnt vægi atkv. fer ekki á milli mála að hagkvæmasta leiðin er að gera landið allt að einu kjördæmi eins og fram kom í skoðanakönnun Samtaka áhugamanna um jafnan kosningarrétt sem Alþingi var afhent grg. um nú á dögunum.

Í fæstum tilfellum hefur samt sú leið verið farin, en leitast við að ná sem jöfnustu vægi atkv. með öðrum hætti. Eitt kunnasta dæmið um fullkomleika stjórnskipunarlaga til tryggingar jöfnu vægi atkv. er Weimarstjórnarskráin þýska. Á sínum tíma þótti ekki lengra jafnað um fullkomleika í þessu efni. Samt sem áður náði ógnarstjórn nasista tökum á þýsku þjóðinni eftir leiðum sem voru formlega löglegar skv. þessari stjórnarskrá. Þetta sýnir að ekki þarf að vera einhlítt að lýðræðinu sé þeim mun betur borgið sem vægi atkv. er jafnara. Heldur er ekki fokið í flest skjól þótt misjafnt sé vægi atkvæða eða jafnvel mjög misjafnt, svo sem heita má einkenni á stjórnarskipun Breta, sem þó dugði til að verja lýðræðið og bjarga heiminum frá ógnum nasismans. Þetta kemur til af því að lýðræðið er ekki af einum og sama toga spunnið, heldur samtvinnað af hinum ýmsu þáttum stjórnskipunarinnar og framkvæmd hennar. Lýðræðið stendur því ekki og fellur með því sem fram gengur í einstökum greinum, hvort sem það varðar vægi atkvæða eða annað. Það sem ræður sköpum er samvirkni þeirra eiginda sem þjóna þjóðarhag og aðstæðum í viðkomandi landi og gefa þannig lýðræðinu lífsmagn.

Setning stjórnarskrár er ekki markmið í sjálfu sér, heldur eru stjórnarskipunarlögin til þess að móta þá starfshætti eða vísa veginn sem við förum til þess að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur með þjóðfélagi okkar og þjóðlífi. Eitt af mikilvægustu markmiðum okkar er að byggja land okkar, halda við byggðinni og efla. Við viljum halda uppi nútíma þjóðlífi á grundvelli fornrar menningar og sögu. Það er skylda okkar við landið að tryggja að markmiðum þessum sé náð. Hér er ekki einungis að tefla um hagsmuni þeirra sem í strjálbýlinu búa, heldur allra Íslendinga. Við verðum að halda við byggð eftir því sem þarf til þess að nýta með sem hagkvæmustum hætti auðlindir okkar, sem er að finna vítt og breitt um landið. Með því tryggjum við sem best efnahagslegar framfarir og velmegun þjóðarinnar. Auk þess er í húfi að þjóðinni haldist til langframa á hinum miklu auðlindum sínum, ef miklir landkostir standa ónýttir í þurfandi heimi. Sjálf tilvera hinnar íslensku þjóðar gæti þá jafnvel verið í húfi.

Af þessum ástæðum má einskis láta ófreistað til þess að halda nauðsynlegu byggðajafnvægi í almannaþágu. Í þeim tilgangi þarf að styrkja stöðu strjálbýlisins. Það verður gert með margslungnum aðgerðum. Mikilvægt atriði er að staða strjálbýlisins sé styrkt með stjórnskipulegum hætti. Það er best gert með því að strjálbýlið hafi hlutfallslega fleiri þm. en þéttbýlið. Af þessari ástæðu er ekki aðfinnsluvert að vægi atkvæða sé misjafnt milli kjördæma án þess að ofgert sé í þeim efnum.

Í ræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem Bjarni Benediktsson fyrrum formaður Sjálfstfl. og forsrh. flutti 21. janúar 1953 og birt var í Morgunblaðinu ræddi hann þetta mát. Eftir að hafa gert grein fyrir misrétti í vægi atkvæða milli stjórnmálaflokkanna, sem aukið væri á með því að strjálbýlið hefði hlutfallslega miklu fleiri þm. en þéttbýlið, hélt hann áfram, með leyfi virðulegs forseta:

„Að mínu viti er það raunar sanngjarnt, að strjálbýlið hafi hlutfallslega fleiri þm. en þéttbýlið. Því verður sem sé ekki neitað, að menn í strjálbýli eiga erfiðara með að fylgja málum sínum eftir og beita samtakamætti á margvíslega vegu heldur en þeir sem í þéttbýlinu búa. Ísland hættir að vera hið forna Ísland, heimkynni sérstakrar strjálbýlismenningar, ef allir þjappast saman á einn eða fáa staði í landinu. Það er þess vegna þjóðarnauðsyn að búa þannig að þeim, sem í strjálbýlinu búa, að byggð geti haldist sem víðast um landið. Slíkt er ekki síður nauðsyn fyrir þéttbýlið en þá, sem búa í dreifðum sveitum landsins. Öruggasta tryggingin fyrir því er sú að láta þessa landshluta halda hæfilegri fulltrúatölu á Alþingi. En í þessu verður að vera hóf. Það verður að laga sig eftir atvikum, og ekki dugir að láta strjálbýlið bera fjöldann í þéttbýlinu slíku ofurliði, að hagsmunir fjöldans séu fyrir borð bornir.“

Bjarni Benediktsson tók fram að samkvæmt þessu skyldi, eins og hann orðaði það, kosningarréttur vera svo jafn sem þjóðarhagir og staðhættir leyfa. Þessi orð Bjarna Benediktssonar eru í fullu gildi enn. Í þessum anda var stjórnarskrárbreytingin gerð 1959. Slík viðhorf mótuðu kjördæmabreytinguna þá. Með slíkt að leiðarljósi hefur nú tekist að ná hinu víðtæka samkomulagi um breytingu þá á stjórnarskránni sem frv. það, sem við nú ræðum, fjallar um. Viðfangsefnið hefur verið að endurskoða og aðlaga kosningafyrirkomulagið frá 1959 ástandinu nú og þörfum dagsins í dag.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að meiri hl. stjórnarskrárnefndar leggur til að frv. þetta verði samþykkt.