02.04.1984
Efri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4329 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. stjórnarskrárnefndar. Eins og fram kemur í því áliti legg ég til að frv. verði fellt. Skv. stjórnarskipan íslenska ríkisins eru þm. aðeins kjörnir til þess að setja landinu almenn lagafyrirmæli. Þeir eru ekki, skv. reglum stjórnarskipunarinnar, kjörnir til þess að bæta aðstöðu ákveðinna hópa með hagsmunapoti. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu einni geta misjafnir eiginleikar eða búseta aldrei verið grundvöllur misjafns atkvæðisréttar. Verkefni alþm. er að takast á um skoðanir og löggjöf um rétt og rangt. Annað er í verkahring borgaranna.

Á Alþingi hafa fulltrúar gömlu flokkanna gert samkomulag um áframhaldandi atkvæðamisvægi. Þeir eru að versla með grundvallarmannréttindi. Enn þá skal meiri hl. eftirláta minni hl. að ákveða leikreglurnar. Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna meiri hl. þjóðarinnar er ekki treystandi fyrir meiri hl. á þingi, hvaða skoðanir meiri hl. eru svo óheilbrigðar og vitlausar að þær megi ekki verða að lögum. Við þessari spurningu er hægt að krefjast undanbragðalausra svara. Misvægi atkvæða er mannréttindabrot og mannréttindabrot má ekki binda í stjórnarskrá.

Í 21. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á allsherjarþinginu 1948 — ég endurtek, 1948 — segir svo orðrétt:

„Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstj. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.“

Til þessarar skýru og tæpitungulausu yfirlýsingar er enn fremur vísað í inngangi að Mannréttindasáttmála Evrópu sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 29. júní 1953. Okkur ber því siðferðileg skylda til að haga löggjöf okkar í samræmi við þennan sáttmála. Fulltrúar gömlu flokkanna vilja málamiðlun um mannréttindi. Af persónulegum og pólitískum hagsmunaástæðum vilja þeir ekki taka afstöðu með þeim grundvallarmannréttindum að sérhver íslenskur kjósandi hafi jafnan kosningarrétt. Ójafn kosningarréttur gengur þvert á allar heilbrigðar hugmyndir um jafnrétti og lýðræði. Þetta misrétti er einnig í æpandi mótsögn við algengustu hugmyndir manna um valddreifingu. Með valddreifingu hljóta menn að eiga við það að völdum sé dreift til fólks en ekki í holt og hæðir. Við hljótum að krefjast þess að þm. séu fulltrúar fyrir fólk en ekki fyrir landsvæði. Það er lágmarkskrafa að allir borgarar ríkisins hafi jafnan rétt gagnvart lögum og leikreglum. Við megum ekki lengur láta fulltrúa landsvæða eða fermetra þvælast fyrir lýðræði á Íslandi.

Nú hefur mikið verið um þetta mál rætt. Menn spyrja sig þeirrar spurningar: Getur málamiðlun um mannréttindi verið réttlætanleg? Þessari spurningu hefur mikill meiri hl. alþm. svarað játandi og ætlar að svara henni játandi aftur fljótlega. Röksemd þeirra er — a. m. k. opinberlega — fyrst og fremst sú að fleira sé mannréttindi en jafn kosningarréttur, t. d. jafn aðgangur allra landsmanna að þjónustu ýmiss konar og auk þess eigi misvægi atkvæða að koma í veg fyrir meiri búferlaflutninga en þegar hafa átt sér stað á þessari öld. Þessa fullyrðingu verður dálítið erfitt að sanna.

Auðvitað er það rétt að fleira er mannréttindi en jafn kosningarréttur. Því hefur enginn mælt í mót. En það má ekki rugla saman mannréttindum einstaklinga annars vegar og sjálfstjórnarmálum byggðarlaga hins vegar. En ef taka á tillit til þess réttindamáls, þ. e. sjálfstjórnarmála byggðarlaga, er þetta frv. ekki rétta leiðin. Jöfnun aðgangs allra landsmann að opinberri eða einkaþjónustu verður ekki fengin með atkvæðamisvægi heldur með því að auka einfaldlega sjálfsforræði byggðarlaganna yfir þeim fjármunum sem þau skapa og auka vald þeirra til þess að ráða sínum hagsmunamálum sjálf. Sjálfstæði eða sjálfsforræði byggðarlaga verður aldrei leyst með þingmannakvóta á Alþingi. Sjálfstæði byggðarlaga fæst einungis með því að dregið verði úr íhlutun ríkisvalds um málefni byggðarlaga eða samtaka þeirra.

Þessi mál, þ. e. sjálfstæðismál byggðarlaganna, eru mjög brýn. En þau eru reyndar ekki hér á dagskrá nema óbeint. Óbeint eru þau þannig á dagskrá að yfir vötnunum svífur sú hugsun að atkvæðamisvægið sé réttlætanlegt tæki til að jafna aðstöðumisvægi. Þessi hugsun er í sjálfu sér óvitlaus. En niðurstaða hennar, sem fram kemur í þessu frv. og reyndar í þeim lögum sem nú eru í gildi, er ógáfuleg því að ef þessi röksemdafærsla væri tekin á leiðarenda hlýtur lokaniðurstaða hennar að vera sú, að því verr sem menn eru settir í þjóðfélaginu því meira vægi ættu atkvæði þeirra að hafa og því fleiri fulltrúa ættu þeir að hafa á þingi.

Vægi atkvæða þess fólks sem verst væri sett í þjóðfélaginu ætti þá að vera margfalt á við vægi þeirra sem best eru settir. Litli maðurinn ætti að hafa fimm atkvæði og Albert ekki nema eitt. Ég veit að hæstv. fjmrh. vildi hafa þetta þannig, en þá er hann náttúrlega að greiða atkvæði hér með vitlausu frv. Kjarni málsins er og verður að þm. eru fulltrúar fyrir fólk en ekki fyrir holt og hæðir. Allir borgarar eiga skýlausan rétt á jafnri þátttöku í stjórn ríkisins. Ég endurtek: á jafnri þátttöku í stjórn ríkisins. Því legg ég til, herra forseti, eins og ég sagði áður, að þetta frv. verði fellt og menn athugi ráð sitt og hefji úrlausn mála á þeim enda sem virkilega er brýnastur, þ. e. í sjálfsforræðismálum sveitarfélaga.