02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 64 er að finna frv. til l. um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs. Ríkisstj. hefur eins og kunnugt er gripið til ýmissa aðgerða til stuðnings við húsbyggjendur. Meðal þessara aðgerða er 50% hækkun lána úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra sem slík lán hafa fengið á árinu 1981 eða síðar. Reiknað er með að þessi viðbótarlán muni auka fjármagnsþörf húsnæðislánakerfisins um 200–250 millj. kr. á þessu ári. Er nauðsynlegt að mæta þessum útgjöldum með auknum lántökum innanlands og er því lagt til að heimiluð verði 200 millj. kr. aukin lántaka innanlands á árinu.

Í fjárlögum fyrir árið 1983, 6. gr. lið 2.1, er fjmrh. heimilað að gefa út til sölu innanlands spariskírteini og/ eða ríkisskuldabréf að fjárhæð allt að 200 millj. kr. Þá er til viðbótar heimild í lánsfjárlögum fyrir árið 1983 til lántöku á innlendum lánsfjármarkaði að fjárhæð allt að 188 millj. kr., sem skiptist þannig að 85 millj. kr. var fyrirhuguð lántaka hjá lífeyrissjóðum og 103 millj. kr. var fyrirhuguð sala verðtryggðra bréfa til lánastofnana.

Þegar er búið að selja spariskírteini að nafnverði 64 millj. kr. Markaður fyrir spariskírteini ríkissjóðs hefur verið fremur erfiður. Kaup lánastofnana á verðtryggðum bréfum ríkissjóðs hafa heldur ekki skilað því sem vonast var til. Það sem af er árinu hafa aðeins selst slík verðbréf að andvirði 17 millj. kr. Samkvæmt framansögðu eru því ónýttar eldri heimildir til öflunar ríflega 200 millj. kr. innlends lánsfjár.

Í ljósi minnkandi eftirspurnar eftir þeim verðbréfum sem til sölu hafa verið og brýnnar lánsfjárþarfar, m.a. vegna aðgerða í húsnæðismálum, sýnist nauðsynlegt að örva markað fyrir þessi bréf með því að auka fjölbreytni í formi þeirra og kjörum.

Fyrirhugað er að bjóða til sölu þrjár tegundir skuldaviðurkenninga ríkissjóðs. Í fyrsta lagi spariskírteini verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu í svipuðu formi og verið hefur. Í öðru lagi verðbréf bundin gengisskráningu erlends gjaldeyris og myndi í því sambandi miðað við gildi þeirra gjaldmiðla og vægi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar við lánaákvarðanir sínar (SDR). Í þriðja lagi ríkisvíxlar til 2–12 mánaða sem héldu óbreyttu nafnverði allan lánstímann en bæru forvexti sem væru ívið hærri en almennir forvextir af víxlum eða yrðu boðnir til sölu og seldir þannig að forvextir réðust af markaðslögmálum.

Það er brýn nauðsyn að efla innlendan sparnað og tryggja að landsmenn geti komið þaki yfir höfuð sér fyrir innlent fé.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.