02.04.1984
Neðri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Svavar Gestsson:

Um þær breytingar sem hér eru lagðar til á lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit mætti ýmislegt segja, en ég ætla ekki að fara um þær mörgum orðum.

Eins og fram kemur í grg. frv. var með lögunum nr. 50/1981 með vissum hætti brotið í blað sögu heilbrigðiseftirlits hér á landi. Lögin leggja miklu ríkari skyldur á sveitarfélögin til að sinna þessu eftirliti en áður og öll sveitarfélög landsins eru nú eftirlitsskyld og sett undir eftirlit heilbrigðisfulltrúa.

Enn fremur gerðu lögin ráð fyrir því, eins og kunnugt er, að þar rynnu saman í eina stofnun þrjár stofnanir, þ. e. Heilbrigðiseftirlit ríkisins, Matvælarannsóknir ríkisins og Geislavarnir ríkisins. Með þessu móti var ætlunin að stuðla að betri samræmingu þessara eftirlitsstofnana en verið hafði. Í umr. um málið hér á hv. Alþingi kom einnig fram að til þess var ætlast að í framhaldi af þeirri reynslu, sem fengist af starfsemi þessarar stofnunar, yrði könnuð samræming á starfsemi hennar við aðrar stofnanir í þjóðfélaginu, eins og t. d. Vinnueftirlit ríkisins og fleiri slíka aðila. Ég tel að þarna hafi verið mörkuð mjög skynsamleg stefna í þá átt að samræma eftirlit á þessum sviðum því að það er dýrt fyrir þjóðfélagið að vera með margverknað og tvíverknað í þessum efnum. Það safnast þegar saman kemur þó að upphæðirnar séu kannske litlar í hverju einstöku tilviki.

Varðandi efnisatriði þessa frv. verð ég að segja það sem mína skoðun að mér finnst það orka mjög tvímælis að taka Geislavarnir ríkisins út úr í stofnuninni, eins og hér er gert ráð fyrir, og að geislavarnirnar verði sjálfstæð deild í stað þess að heyra áfram undir mengunarvarnadeildina eins og verið hefur. Ég held að með þessu móti sé verið að stíga skref í þá átt að sundra þessari stofnun og e. t. v. að gera hana aftur dýrari en þurft hefði að vera.

Ég tel í sambandi við annað meginefnisatriði þessa frv. ekki óeðlilegt að það sé gripið til aðgerða til að tryggja fjárhag Matvælarannsóknanna og það sé um að ræða einhverja gjaldtöku í því skyni, enda eru þeir aðilar sem eiga að greiða þetta gjald þannig staddir að eðlilegt er að þeir séu látnir standa undir þeim kostnaði sem fellur til. En í þessu sambandi minni ég á að auðvitað er verið að afla ríkissjóði aukatekna og reyna að hala upp í þann vanda sem þar er um að ræða. Hér er því um að ræða nýja gjaldtöku fyrir ríkissjóð skv. því frv. sem hér liggur fyrir, þ. e. í stað þess að þetta sé kostað með beinum framlögum úr ríkissjóði verði kostnaðurinn af starfsemi Matvælaeftirlitsins greiddur við sýnatöku hverju sinni.

Ég verð hins vegar að segja varðandi 7. gr. frv. að mér finnst hún orka mjög tvímælis. Í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er gert ráð fyrir að Áfengisvarnaráði verði sköpuð aðstaða innan Hollustuverndar ríkisins og þessar stofnanir vinni í nánu samstarfi. Í upphaflegu stjfrv. um þetta mál var gert ráð fyrir því í ákvæðum til bráðabirgða að stefnt skyldi að því á næstu árum að fella starfsemi ráðsins undir Hollustuvernd ríkisins með breytingum á þeim lögum sem um áfengisvarnir fjalla. Þetta var fellt út að beiðni Áfengisvarnaráðs og það er ályktun rn. og hæstv. heilbr.- og trmrh. að þetta ákvæði þjóni engum tilgangi og því sé í rauninni ástæðulaust að halda því inni í lögunum. Ég held að það hefði verið miklu eðlilegra að stíga skref þarna fram á við í þá átt að Áfengisvarnaráð hefði tengst þessari stofnun jafnvel enn frekar en gert er ráð fyrir í gildandi lögum og ég tel að hið sama ætti í rauninni að gilda um tóbaksvarnir sem er verið að fjalla um hér í einni nefnd þingsins eftir að stjfrv. er komið fram um það efni. — Og ég vil nota tækifærið að gefnu tilefni til að láta í ljós eindreginn stuðning við það frv. sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram í sambandi við tóbaksvarnir.

Herra forseti. Ég vildi koma þessum aths. mínum á framfæri, sem eru sumpart tæknilegs eðlis, en ég tel að eigi erindi þegar við þessa umr.