03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4350 í B-deild Alþingistíðinda. (3722)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Við 2. umr. um fjárlög fyrir þetta ár bárum við fulltrúar Kvennalistans fram brtt. um 100 millj. kr. aukið framlag ríkisins til Lánasjóðs ísl. námsmanna, eða nákvæmlega þá upphæð sem nú er opinberlega viðurkennt að muni vanta í sjóðinn. Rök okkar fyrir þeirri brtt. voru þau að kæmi ekki til aukið framlag ríkisins til sjóðsins hlyti grundvöllur hans að raskast alvarlega. Með tilliti til laga og reglugerðar sjóðsins hefði framlag ríkisins raunar þurft að vera meira, eins og ég gerði ítarlega grein fyrir þegar ég mælti fyrir brtt. okkar. Vegna takmarkaðs ræðutíma endurtek ég ekki þá röksemdafærslu nú en vísa til ræðu minnar sem skráð er í 10. hefti Alþingistíðinda 1983. Þm. stjórnarflokkanna felldu till. okkar við afgreiðslu fjárlaga í des. en nú, þremur mánuðum síðar, hefur fjmrh. viðurkennt að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna hafi verið vanáætlað um einmitt 100 millj. kr.

Skv. lögum um námslán og námsstyrki, nr. 72/1982, hækkaði hlutfallstala lána af reiknaðri fjárþörf námsmanna úr 95% í 100% 1. jan. s. l. Nú hafa stjórnvöld ákveðið að fresta gildistöku þessa ákvæðis laganna, sbr. 27. gr. lánsfjárlaga. Ekki bætir það stöðu námsmanna en minnkar að sjálfsögðu fjárþörf sjóðsins. Samt vantar enn margnefndar 100 millj. skv. þrengstu útreikningum og spurningin er hvort sú lagabreyting sem felst í 27. gr. lánsfjárlaga verður látin nægja eða hvort áformað er að breyta úthlutunarreglum Lánasjóðsins til að minnka fjárþörf hans.

Óneitanlega setti kvíða að mörgum námsmönnum og aðstandendum þeirra þegar fréttir bárust nýlega af tillögum um breyttar úthlutunarreglur námslána og endurskipulagningu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Samdægurs og fyrstu fréttir af þessum tillögum birtust í dagblaðinu Tímanum lagði ég fram fsp. til menntmrh. ásamt Steingrími J. Sigfússyni alþm. Fsp. er á þskj. 419. Hún er í fjórum liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvernig hyggst ríkisstj. mæta þeim halla sem fyrirsjáanlegur er á Lánasjóði ísl. námsmanna á þessu ári?

2. Hefur menntmrh. í hyggju breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna?

3. Hafa verið mótaðar einhverjar tillögur til breytinga á úthlutunarreglum Lánasjóðsins?

4. Ef svo er, hverjar eru þær og hverjir unnu þær tillögur?“

Síðan þessi fsp. var lögð fram hefur það svo gerst að við höfum fengið svör við a. m. k. sumum liðum hennar. Skýrslu Könnunarstofunnar hf. hefur verið dreift til allra þm. og helstu niðurstöður hennar hafa verið kynntar í fjölmiðlum og orðið um þær töluverðar umr., þó svo til eingöngu frá annarri hliðinni. Er ljóst af viðbrögðum ýmissa sem um tillögurnar hafa fjallað að verulega yrði þrengt að rétti námsmanna ef eftir þeim yrði farið. Vafalaust eru hugsanlegar einhverjar breytingar til bóta á starfsemi og úthlutunarreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna, en þær breytingar mega þó fyrir hvern mun ekki ganga í berhögg við megintilgang sjóðsins, sem er að tryggja námsmönnum jafnrétti til framhaldsmenntunar óháð efnahag. Nú á tímum versnandi lífskjara er þetta brýnna en nokkru sinni. Ég vænti þess að í svörum menntmrh. komi fram afdráttarlaus afstaða hennar til þessarar skýrslu og þeirra tillagna sem hún greinir frá.