03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4353 í B-deild Alþingistíðinda. (3724)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka menntmrh. fyrir svör hennar sem að vísu, því miður, eru ekki líkleg til að draga úr kvíða námsmanna og aðstandenda þeirra vegna frétta um breytta tilhögun á námslánakerfinu. Það sem hún nefndi um rýmri rétt til tekna og um lán til námsmanna erlendis, sem yrðu greidd mánaðarlega, þetta eru hvort tveggja ágæt atriði, sem ég er samþykk, en ég sé ekki hvernig það getur þýtt sparnað fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna. Hins vegar sagði menntmrh. að ætlunin væri að láta það fé duga sem ætlað er á fjárlögum. Og spurningin er einmitt hvernig það má verða. Það er opinberlega viðurkennt að 100 millj. kr. vanti í sjóðinn og ég reyndi að skýra það rækilega í framsögu fyrir brtt. okkar Kvennalistakvenna við umr. um fjárlögin með tölum sem ég hafði unnið upp hvers vegna við töldum að þetta vantaði. Og það var miðað við allra þrengstu útreikninga, 95%. Ég saknaði þess að menntmrh. minntist ekki á till. sem ég hef heyrt talað um og eru í skýrslunni. Það hefur t. d. verið talað um að herða kröfur um námsafköst. Að margra dómi er það ákaflega óraunhæft og nánast óframkvæmanlegt. Nefna má sem dæmi að það mun vera lánað til fjögurra ára vegna B.A.-náms og sjaldgæft að því námi sé lokið á skemmri tíma. Það eru ákaflega strangar reglur hjá Lánasjóðnum. Umsækjendur þurfa að sanna rétt sinn til lána með alls konar plöggum, innritunarvottorðum fyrir hvert misseri, ástundunarvottorði eftir á, skýrslu um árstekjur, tekjur maka o. fl. o. fl. Og þetta þarf að útvega fyrir hvert einasta misseri.

Hæstv. menntmrh. talaði áðan um afnám víxillána á fyrsta ári. Skv. reglum sjóðsins mun þarna ekki vera um neinn sparnað að ræða í rauninni, þar sem námsmaður á eftir sem áður rétt á láninu þegar hann hefur sýnt nægan námsárangur. Þar af leiðandi færist kostnaður sjóðsins þá aðeins til en minnkar ekki. Þá minntist hæstv. ráðh. á hækkun tekjuviðmiðunar. Mér finnst sjálfsagt að hækka það mark en eins og ég segi, ég sé ekki að það hafi neinn sparnað í för með sér fyrir sjóðinn, nema þá kannske mjög óverulegan. Eins hefur verið talað um að upphæð láns miðist frekar við ákveðið tekjumark í þjóðfélaginu en reiknaðan framfærslukostnað. Þetta finnst mér ákaflega varhugaverð till. Lögin kveða á um að lánin eigi að duga hverjum námsmanni til námskostnaðar og framfærslu. Nú eru aðstæður námsmanna mjög mismunandi og tilgangur sjóðsins einmitt að jafna þær aðstæður. Það væri því mjög erfitt að finna rétta tekjuviðmiðun ef ætti að tryggja það að allir fengju það sem dygði fyrir námskostnaði og framfærslu. Þá bendir nú allt til að við það mundi hreinlega aukast útstreymi úr sjóðnum.

Eins var með ferðastyrkina. Ég hef a. m. k. heyrt þá röksemd að hert eftirlit með notkun ferðastyrkja muni aðeins auka pappírsvinnu og eftirlit í sjóðnum þar sem fyrir eru allt of fáir og yfirhlaðnir starfsmenn. Eins hefur heyrst talað um að hætt yrði að lána fyrir skólagjöldum. Menntmrh. minntist ekki á þá till. Ég held að ég muni rétt að hún sé í skýrslunni þarna. Sumir hafa látið í ljós miklar áhyggjur út af þeirri till., því að þá mundu ýmsir hrökklast frá námi, sérstaklega í Bandaríkjunum og Bretlandi, þar sem námsmenn eru svo hundruðum skiptir.

Við 2. umr. um lánsfjárlög gerði ég 27. gr. þeirra að umtalsefni og átaldi þá hringlandaháttinn með ákvæðið um 100% lánveitingar, sem setti stjórn Lánasjóðsins og lántakendur í mikinn vanda. En við því er náttúrlega ekki lengur neitt að gera. Það er búið að setja það í lög.

En ég vil leggja áherslu á það að ég sé ekki af þessum svörum ráðh. hvernig á að láta þá upphæð duga, sem ætluð er í Lánasjóðinn. Eftir standa því sömu áhyggjurnar og við létum í ljósi hér við 2. umr. fjárlaga að þarna vanti fé.