03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Fsp. sú sem hér er til umr. er borin upp af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími Sigfússyni. Þar sem hann er nú ekki hér nærstaddur, er erlendis, vil ég segja nokkur orð um þetta mál, úr því að það er hér til umr.

Ég hygg að þessar fsp. séu fyrst og fremst fram bornar vegna þess að legið hefur ljóst fyrir að verulega mundi vanta upp á að séð væri fyrir fjárþörf Lánasjóðsins, jafnvel þótt búið sé að skera lánveitingar hans á þessu ári niður í 95% frá hinni fyrirhuguðu 100% lánveitingu til umframfjárþarfa námsmanna. Það virðist sem sagt vanta enn 100 millj. kr. eða rúmlega það til að endar nái saman. Auðvitað er fsp. ekki síst borin fram af þessari ástæðu. Hún er líka borin fram af þeirri ástæðu að lögð hefur verið fram skýrsla, sem menntmrn. hefur látið undirbúa, þar sem gert er ráð fyrir ýmiss konar skerðingu á lánum til námsmanna. Ég held að það væri mjög æskilegt að hæstv. menntmrh. svaraði því hér hvort þessar 100 millj. kr. verða örugglega útvegaðar, þannig að 95% markinu verði náð. Hins vegar svaraði hæstv. menntmrh. því til um skýrsluna og till. sem í henni eru að ekki væri von á frv. á þessum vetri. Þykir mér það satt best að segja nokkuð ánægjulegt að heyra.

Þegar lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna voru sett var samstaða allra flokka um það markmið sem þar var sett fram. Kemur námsmönnum því heldur betur spánskt fyrir sjónir að nú, svo skömmu eftir að þau lög voru samþykkt hér á Alþingi, skuli það vera uppi að ekki verði við þau staðið. (Forseti hringir.) Við skulum minnast þess að lánin frá Lánasjóði ísl. námsmanna eru ekki gjöf, þau eru ekki styrkur. Þar er um lán að ræða, verðtryggð lán. Þessi fyrirgreiðsla ríkisvaldsins er til þess ætluð að tryggja jafnrétti allra námsmanna í námi. Ég vil mjög eindregið gera það að lokaorðum mínum hér að skora á hæstv. ráðh. að ljá ekki máls þeim hugmyndum sem fram hafa verið bornar um skerðingu á þeim stuðningi sem námsmenn hafa notið.