03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4357 í B-deild Alþingistíðinda. (3727)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Ragnar Arnalds:

Hæstv. forseti. Mér var satt best að segja alls ekki ljóst hvað hæstv. menntmrh. átti við þegar hún var að reyna að gefa það í skyn áðan að ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens hefði ekki staðið við sínar skuldbindingar gagnvart námsmönnum skv. lögum né heldur sú ríkisstj. sem ég átti áður sæti í og var undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, þótt ég sæti að vísu ekki í henni í fjögur ár, því miður, heldur bara í liðlega eitt ár.

Staðreyndin var sú að báðar þessar ríkisstjórnir stóðu alveg fullkomlega við sínar skuldbindingar skv. lögum gagnvart námsmönnum. Þegar þannig stóð á að verðbólga var meiri en fjárlög höfðu ráð fyrir gert — eins og reyndar var öll árin og ekki bara þessi ár heldur er búið að vera seinustu 10–20 árin — þá var útvegað viðbótarfé til Lánasjóðs ísl. námsmanna í fullu samræmi við það hvaða mismunur varð þar á áætlun fjárlaga annars vegar og hins vegar raunverulegri verðbólgu.

Ég gat ekki vitað það þegar fjárlagafrv. var samið haustið 1982 hver yrði verðbólga á árinu 1983 og auðvitað fullyrti ég ekkert um það að tölurnar í þáverandi fjárlagafrv. mundu nægja. Ég gat hins vegar sagt það og staðið við það að ef á vantaði yrði það fé útvegað. Það var gert öll árin, 1979–1982, og það hefði verið gert árið 1983 ef sú stjórn sem ég sat þá í hefði setið áfram.

Nú er spurning hvort hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. ætli að hafa sama hátt á og standa við ákvæði laga sem nú munu miða við 95% af umframfjárþörf námsmanna skv. nýlega samþykktri lánsfjáráætlun. Ætla þeir að standa við þetta mark eða ekki? Það er það sem ég spyr um og það er það sem ég hlýt að vænta svars við frá hæstv. menntmrh. En því miður sá ráðh. sér ekki fært að svara þessari spurningu og sagði eitthvað á þá leið: Den tid, den sorg. Það verður þá að vera svo. En okkur vantar svar við þessari spurningu.