03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4358 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

438. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. er furðu hress eftir veru sína í síðustu ríkisstjórn. Hv. þm. segir ósköp rólega: Ja, ef fé dugði ekki á fjárlögum þá varð bara að útvega það. — En hvernig var komið hag þjóðarbúsins þegar hv. þm. fór úr stjórnarstóli? Hér var allt mjög illa statt. Hv. þm. sagði að auðvitað hefði verið útvegað fé ef ríkisstjórnin hefði setið áfram. Hv. þm. hefði eins getað sagt: Það hefði auðvitað verið útvegað fé í alla hluti sem vantaði fé í skv. fjárlögum ef ekki hefði tekið við ríkisstj. sem ákvað að reyna að rétta við fjárhag þjóðarinnar og tókst það.