03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4358 í B-deild Alþingistíðinda. (3729)

241. mál, rekstur grunnskóla

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 426 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um rekstur grunnskóla. Fsp. er í fjórum töluliðum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hvað er kostnaður ríkissjóðs talinn vera mikill við rekstur allra grunnskóla landsins í einn mánuð á þessu skólaári og hve mikill hluti þess kostnaðar er vegna fastra launa þeirra starfsmanna sem taka árslaun?

2. Hver er heildarkostnaður sveitarfélaga við rekstur grunnskóla á sama tíma?

3. Hefur þátttaka grunnskólanema í atvinnulífinu á skólaári verið metin til jafns við verklegt nám, samkvæmt 42. gr. grunnskólalaga, og ef svo er, í hve ríkum mæli?

4. Hver var kostnaður ríkissjóðs við rekstur forskóla, samkvæmt 74. gr. grunnskólalaga, árið 1983 og hvað er áætlað að hann verði mikill á þessu ári?“

Fyrstu tveir töluliðir þessarar fsp. lúta að því að fá leitt í ljós hver kostnaðarauki er af rekstri grunnskóla við lengingu skólatíma. Í grunnskólalögum er kveðið svo á að grunnskóli skuli starfa í 7–9 mánuði. Framkvæmd þessa ákvæðis er breytileg frá einu skólahverfi til annars og getur það verið á valdi skólayfirvalda og sveitarstjórnarmanna að ákveða hversu lengi grunnskóli starfi. Ég tel að það sé mjög forvitnilegt að leitt sé í ljós hvaða áhrif framkvæmd á þessu ákvæði hefur á heildarkostnað við grunnskólarekstur yfir landið í heild, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Getið var um í fsp. að það þyrfti að taka fram sérstaklega hver væri kostnaður vegna fastra launa þeirra starfsmanna sem taka árslaun. Það er vegna þess að sá kostnaður breytist ekki hvað sem skólatímanum líður.

Þriðji töluliður í þessari fsp. lýtur að því að í grunnskólalögum, 42. gr., er fjallað um verklegt nám sem þátt í skólanámi. Það segir í upphafi 42. gr., með leyfi forseta:

„Í samræmi við markmið grunnskóla skal að því stefnt, að nám í öllum bekkjum skólans tengist sem best raunhæfum athugunum og þroskandi störfum utan skólaveggjanna. Í 7.–9. bekk verði val námsgreina frjálst að hluta, og skal það við það miðað, að verklegt skyldu- og valnám geti samanlagt numið helmingi námstímans að hámarki, en fimmtungi hans að lágmarki“.

Miðað við þetta er gert ráð fyrir í efri bekkjum grunnskóla að verklegt nám geti numið allt að helmingi námstímans að hámarki, en fimmtungi að lágmarki.

Síðar í þessari grein grunnskólalaga er upptalning á kennsluefni, þar sem j-liður fjallar um verklegt nám. En því næst segir svo, með leyfi forseta:

„Þar sem nemendur eru þátttakendur í atvinnulífinu um takmarkaðan tíma á skólaárinu skal heimilt að meta það að nokkru til jafns við verklegt nám, sbr. j-lið.“

Ég minnist þess að þegar grunnskólafrv. var til meðferðar hér á hv. Alþingi á sínum tíma urðu um þetta efni mjög miklar umr., þ. e. á hvern hátt það yrði metið til jafns við skólanám að nemendur á grunnskólastigi tækju þátt í atvinnulífinu. Ég tel mjög forvitnilegt að fá upplýst á hvern hátt þetta ákvæði grunnskólalaga hefur verið framkvæmt og hversu mikið hefur verið eftir þessu starfað.

Í fjórða lagi er spurt hver verið hafi kostnaður ríkissjóðs við forskóla á síðasta ári og hver hann sé áætlaður á þessu ári. Í grunnskólalögum, 74. gr., eru heimildir til sveitarfélaga að reka forskóla fyrir börn sem ekki eru komin á skólaskyldualdur, þó með staðfestingu eða samþykki menntmrn. Það er þó ekki nein skylda að reka slíkan forskóla. Ég tel rétt að fá upplýsingar um hver kostnaður við forskóla var á síðasta ári og hvað áætlað er að hann verði mikill á því ári sem nú stendur yfir.

Ég legg þessar fsp. einnig fram til þess að sýna fram á að f grunnskólalögum eru heimildir um breytilegan skólatíma, um að meta þátttöku í atvinnulífi til jafns við nám og um forskóla, en það veltur töluvert á því hvernig þessar heimildir eru nýttar hversu mikill kostnaður af heildarrekstri skólans verður.