03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

241. mál, rekstur grunnskóla

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Um þessa fsp. vil ég segja þetta:

1. Kostnaður ríkisins er af hálfu menntmrn. áætlaður um 970 millj. kr. á yfirstandandi skólaári. Af þessum kostnaði eru um 555 millj. kr. föst laun starfsmanna á árslaunum. Kostnaður ríkisins dreifist misjafnt á mánuði ársins, en áætla má að um 80 millj. kr. séu greiddar til jafnaðar á starfsmánuði skólanna.

2. Kostnaður sveitarfélaganna. Ekki liggja fyrir nýlegar upplýsingar um hlut sveitarfélaga í rekstri grunnskóla. Kostnaður sveitarfélaga hefur hins vegar reynst vera um 25–30% af heildarkostnaði við rekstur grunnskóla eða um 250–300 millj. kr. á þessu skólaári.

4. Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna forskóla hafi verið um 25 millj. kr. árið 1983 miðað við verðlag í des. s. l. Áætlað er að kostnaður 1984 verði 31 millj. kr. miðað við sömu verðlagsforsendur.

Þá er ósvarað 3. lið fyrirspurnarinnar um þátttöku grunnskólanema í atvinnulífinu, sbr. 42. gr. grunnskólalaganna. Spurningin vísar til þess ákvæðis sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem nemendur eru þátttakendur í atvinnulífinu um takmarkaðan tíma á skólaárinu skal heimilt að meta það að nokkru til jafns við verklegt nám, sbr. j-lið. Fræðsluráð skal í samráði við launþega- og atvinnurekendasamtök og hlutaðeigandi skólastjórn skipuleggja atvinnuþátttöku nemenda, þar sem slíkrar skipulagningar er þörf, og skal metið að nokkru sem verklegt nám.“

Þetta ákvæði grunnskólalaganna hefur ekki komið til framkvæmda og er sennilega óframkvæmanlegt í því formi sem það er og við ríkjandi aðstæður í fræðsluskrifstofum.

Dæmi um beina atvinnuþátttöku nemenda á starfstíma skóla eru fá. slík dæmi er einkum að finna í sjávarþorpum, en þegar mikill afli berst á land og vinnuafl skortir er nemendum gjarnan gefið frí úr skóla til að aðstoða við frágang aflans. Slíkar leyfisveitingar eru í hendi skólastjóra.

Þá eru dæmi um að nemendur fái svokölluð réttarfrí á meðan réttir standa yfir. Víða er tekið tillit til vorstarfa í sveitum og reynt að ljúka skóla tiltölulega snemma, svona 10.–12. maí. Í þeim tilvikum, sem hér hafa verið nefnd, er ekki um að ræða skipulega þátttöku nemenda í atvinnulífinu eins og segir í greininni, heldur ákveðinn sveigjanleika í skólastarfinu til þess að mæta tímabundnum þörfum atvinnulífsins.

Ekki er kunnugt um að þátttaka nemenda í atvinnulífinu af því tagi sem hér hefur verið lýst hafi leitt til þess að nemendur fengju afslátt frá reglulegu námi í skóla, en ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að tengja skóla og atvinnulíf á einstökum stöðum og náðst af því góður árangur sums staðar þegar það hefur verið skipulagt sameiginlega af fulltrúum skólans og hlutaðeigandi atvinnufyrirtæki.

Þá má nefna ýmsar hugmyndir um þetta efni, sem sérstaklega hafa verið til umfjöllunar nú í vetur og haust í nefnd sem skipuð var af hálfu menntmrn. og gerir tillögur um tengsl skóla og atvinnulífs. Halldór Guðjónsson stýrir nefndinni. Í þessari nefnd er einmitt eitt af verkefnunum að fjalla sérstaklega um þátttöku atvinnulífsins í fræðslu og þátttöku skólans og skólanemenda í atvinnulífinu, hvernig þau verkefni geti skarast með skynsamlegum hætti, þannig að samstarf milli þessara aðila verði sem best í þágu beggja.