03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4360 í B-deild Alþingistíðinda. (3731)

241. mál, rekstur grunnskóla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vildi í tengslum við þessa fsp. koma því sjónarmiði á framfæri að vissulega er æskilegt að tengsl séu á milli skóla og hins starfandi lífs utan veggja hans, þar á meðal atvinnuvega og stofnana, opinberra stofnana einnig. Hitt tel ég hæpið að framkvæmanlegt sé með skynsamlegum hætti að reikna þátttöku skólanema í venjulegum störfum í atvinnulífi sem beinan hluta af verklegu námi. Skilyrði fyrir því að unnt sé með skynsamlegum hætti að tengja slíkt saman er að mínu mati að slík þátttaka sé undir stjórn skóla og vel skipulögð af hálfu skólans sem liður í námi sem beinist að ákveðnum skilgreindum markmiðum. Það má vel vera að vakað hafi fyrir hv. fyrirspyrjanda að þannig mætti á málum taka.

Hæstv. menntmrh. nefndi það í máli sínu að tilraunir hefðu verið gerðar um þátttöku skóla í atvinnulífi á starfstíma skólans. Mér er kunnugt um, m. a. úr minni heimabyggð, Neskaupstað, góða reynslu af slíku þar sem á því máli hefur verið tekið af grunnskóla og framhaldsskóla sem þar starfar í tengslum og samvinnu við atvinnufyrirtæki og stofnanir í bænum og raunar verið farið út fyrir bæjarmörkin í því efni.

Þetta vildi ég að hér kæmi fram. Ég er síður en svo andvígur því að leitast sé við að tengja skólastarfið hinu starfandi lífi. Það er þvert á móti mjög æskilegt markmið, en forsenda þess að það geti tekist með skynsamlegum hætti er að það sé skipulegur þáttur í skólastarfi og skólinn hafi forustu um þátttökuna.