03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4365 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu hér fram í ræðu fyrirspyrjanda, hv. 4. þm. Reykv. Birgis Ísi. Gunnarssonar. Það hefur verið skoðun okkar Alþfl.-manna að ekki væri stætt á því að skattleggja þjóðina stórlega til þess að standa undir útflutningi á varningi með þeim hætti sem gert hefur verið að undanförnu. En það er auðvitað ekki síður athyglisvert í þessu sambandi að líta á ýmis þau fyrirbæri sem birtast okkur í daglega lífinu varðandi dilkakjötið. Við upplifum það aftur og aftur að okkur er sagt að það séu stórkostlegar birgðir í landinu. Síðan er efnt til útsölu og þá er ekkert kjöt til. Sama gerist þegar einhver tekur sig til og ætlar að flytja kjöt úr landi. Þó að nýlega hafi borist fréttir af kjötfjöllum þá er ekkert kjöt til til þessa útflutnings, til þess aðila sem hefur þetta framtak í frammi.

Mér býður í grun að hluti af vandamálinu liggi í því, eins og kom reyndar fram í orðum Birgis Ísleifs, að það sé orðinn meiri gróðavegur að geyma kjöt en selja það á Íslandi. Þetta svokallaða geymslugjald sé svo ríflegt að menn hafi af því sérstakan hag að vera með kjötið í geymslum sínum eða jafnvel þykjast vera með það í geymslum sínum öllu lengur en það í rauninni er.

Hinn þátturinn sem manni sárnar er sá hversu lítið hefur verið unnið að því að ganga frá þessari útflutningsvöru með aðgengilegum hætti svo að líklegt væri að hún væri seljanleg í öðrum löndum. Hér hefur það til skamms tíma verið aðalreglan, og er enn, að selja kindakjötið í heilum skrokkum í grisjum. Ég held að slík sölumennska sé ákaflega frumstæð og sumum þessum ágætu kaupendum, sem hugsanlega gætu annars verið í grannlöndum okkar vestanhafs og austan, lítist ekki alls kostar á vöru sem svona er frá gengið. Einu sinni heyrði ég evrópska húsmóður segja þar sem ég var staddur að það mætti eins reyna að bjóða Evrópumönnum bílatvist, tvist sem er notaður til að þvo bíla með, eins og að bjóða upp á kjötið í svona umbúðum. Í þessu felst nokkur sannleikur og áeggjan um að gera nú betur í sölumennskunni.