03.04.1984
Sameinað þing: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4377 í B-deild Alþingistíðinda. (3757)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Hér er fjallað um mál sem er eitthvert brýnasta viðfangsefni sem við er að glíma í íslenskum þjóðmálum í dag. Mér finnst ástæðulaust, eins og hv. þm. Karvel Pálmason fjallaði um sitt mál, að gera kvótann tortryggilegri en hann er. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru eins skiptar skoðanir um kvótann eins og menn eru hér margir inni. Og við skulum gera okkur grein fyrir því að kvótinn gekk fram vegna þess fyrst og fremst að búið var til ákveðið líkan, byggt á ákveðnum forsendum, sem átti að nota sem stjórntæki við ákveðnar aðstæður sem spáð var. Nær allir hagsmunaaðilar lögðust á eitt um að velja þessa leið. Þess vegna eigum við að fjalla um þetta mál á þann veg að meta hvort þetta tæki hefur orðið að því gagni sem reiknað var með, hvort þær forsendur sem það var byggt á hafi staðist.

Það er mikill vandi sem blasir við. Eins og fram kom í máli hv. þm. Karvels Pálmasonar blasir við stöðvun og er þegar orðin staðreynd á bátum í ýmsum verstöðvum. Þetta vandamál er í verstöðvum allt frá Hornafirði suður um og að Húnaflóa. Þetta er mismikið vandamál enn í dag og þegar grannt er skoðað hefur verið missótt af mönnum á þessum tíma til veiða. Ég hef rætt við sjómenn í allmörgum verstöðvum víða um landið og mun aðeins koma inn á það í mínu máli. En ég vil undirstrika það að þegar haft er á orði að miðað sé við 220 þús. tonna aflamark í þorski er það rangt, það er þegar búið að leyfa mun hærra aflamark og ég mun færa rök fyrir því í máli mínu á eftir.

Það er skynsamlegt að taka nýjar ákvarðanir. Ég segi nýjar ákvarðanir vegna þess að ég tel að nú sé komið að tímamótum varðandi framkvæmd kvóta og fiskveiðistefnu í landinu. Ef fram hefðu gengið spár um það að fiskveiði yrði mun minni á þessu ári en reyndin er hefði ekki þurft á þessu stigi málsins að kvarta yfir framkvæmd kvótans. Staðreyndin er hins vegar sú að aflinn er ekki minni þegar á heildina er litið. Ég trúi því að koma muni í ljós skv. skýrslum Fiskifélags Íslands á næstu dögum að meðalaflinn er u. þ. b. svipaður og á s. l. ári. Það segir mikla sögu þegar tekið er tillit til aðstæðna, þegar tekið er tillit til þess að sóknin á miðin er mun minni en á s. l. ári og margt sem spilar inn í sem veldur því að í rauninni hefði verið hægt að sækja talsvert meiri afla í fang sjávar.

Tekið er tillit til sjónarmiða sérfræðinga, sjómanna og stjórnmálamanna sem eiga að taka af skarið, sem eigi að meta dæmið í heild og brúa ákveðið bil til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það hefur ekki alltaf staðist allt sem Hafrannsóknastofnun hefur látið frá sér fara og er ekki von því að margt er þar byggt á líkum og spám. Gleggsta dæmið er loðnuaflinn og þannig undirstrikast að það er hættulegt ef við ætlum okkur til lengri tíma að skipuleggja afla eins og við gerum með kvótafyrirkomulaginu með því að skipuleggja í rauninni mögulegan afla liðlega eitt ár fram í tímann. Við höfum gert það með þessu fyrirkomulagi vegna þess að í haust var ákveðið að þessi stjórnun yrði tekin upp og hún á að gilda sem tilraun a. m. k. eins og reiknað var með út árið.

Þá er komið að spurningunni: Er hægt að færa rök fyrir því að tilraunin hafi gengið á annan veg en ætlað var, áð aðrar forsendur, aðrar staðreyndir blasi við? Ég tel að þær staðreyndir, sem við getum haldið í, sýni að skynsamlegra sé í okkar fiskveiðum að endurmeta þessa stöðu nú þegar. Við eigum að endurmeta hana og miða við það að hér er um mismunandi stöðu að ræða eftir vertíðum. Ég tel að reynslan hafi sýnt okkur á þessum tíma sem liðinn er að við eigum að meta á hverjum tíma, kannske 3–4 sinnum á ári, hvort það eigi að stöðva og hvað lengi. Það eru svo mörg vandkvæði sem hafa komið upp í framkvæmd kvótakerfisins að miðað við það að við erum ekki að tala um mikið minni heildarafla s. l. ár í kvótanum hefur kvótinn ekki þau rök að baki sér eins og við reiknuðum með.

Segja má að ef valin er sú leið að meta stöðuna á ársfjórðungsfresti muni það eitthvað koma niður á stöðugleika vinnslu í landi. En fyrst og fremst hljótum við að verða að meta eftir staðreyndum, eftir stöðu sjávar og sjávarafla, eftir þessum staðreyndum sem eru borðliggjandi, hvort við eigum að halda sömu stefnu eða hvort eðlilegt er að breyta til. Ef við hefðum veitt 290 þús. tonna afla ársins 1983 fyrir 5 árum hefði sá þorskafjöldi miðað við meðalþyngd þá þýtt 380 þús. tonn miðað við hitastig, ætisskilyrði og vaxtarskilyrði í sjónum. Sá kvóti, sem Hafrannsókn byggði sínar tillögur og niðurstöður á, byggðist á fjölda fiska, ekki meðalþyngd. Þá spilar strax inn í að nú eru mun hagstæðari skilyrði til sjávar. Það er heitari sjór, það er fiskur fullur af átu hvar sem dregið er úr sjó. Þetta þýðir — án þess að fræðingar þurfi til að koma og eru þeir þó alls góðs maklegir — þyngri fiska, meiri afla, hærri aflamörk miðað við fjölda fiska sem gengið var út frá. Þannig þarf að horfa til margra átta í þessu efni.

Það er ekki af neinni tilviljun að sjómenn halda því fram að með auknum hita í sjónum aukist átuskilyrði og fiskurinn þyngist. Þegar við búum við þær aðstæður að allt er tíundað sem upp úr sjó kemur getum við fylgst með þessu frá viku til viku, frá degi til dags. Þegar svo horfir að verulegur fjöldi báta mun þurfa að binda á næstu dögum og vikum og vera bundinn út allt árið hljótum við að verða að meta stöðuna að nýju og kanna til hins ýtrasta hvað sé skynsamlegt.

Ég vil nefna dæmi að í Ólafsvík er búið að landa á þessu ári 5611 tonnum af fiski. Í fyrra var landað þar á sama tíma 4492 tonnum af fiski. Þarna munar u. þ. b. 20% hvað aflinn er meiri. Ég held einnig af samtölum mínum við sjómenn í ýmsum verstöðvum að verulega mismikil sókn sé frá ýmsum plássum á landinu, t. d. mikil frá Ólafsvík, enda hafa skilyrði verið góð þar til sóknar umfram ýmsa aðra staði. Stærsti hluti af þessum afla er þorskur, af þessum 5611 tonnum, sem nú hafa veiðst í Ólafsvík, eru 5383 tonn þorskur. Af aflanum á s. l. ári í Ólafsvík, 4492 tonnum, var þorskur 4356 tonn. Hlutfallið er svipað, aflinn er þetta mikið meiri og segir ákveðna sögu.

Það er athyglisvert í sambandi við framkvæmd kvótans að vandamálið kemur fyrst upp hjá bátaflotanum. Það minnir á athugasemdir, sem gerðar voru í umr. um þessi mál, að hugsanlega væri skynsamlegra að gera þessa kvótatilraun á togaraflotanum. Þar er vandamálið ekki komið upp í dag a. m. k. Bent var á og ég hef bent á það í mínu máli í Sameinuðu þingi að ég teldi ógerlegt að framkvæma kvótann miðað við að afli væri skikkanlegur. Það var afsakanlegt stjórntæki með mun minni afla, enda hefði þá ekki komið til þess nú á þessu stigi að binda þyrfti bátaflotann, en reyndin er önnur.

Ég vil nefna fleiri staði til viðmiðunar. Bátaaflinn sem nú er búið að landa í Vestmannaeyjum er 7232 tonn á móti 10 765 tonnum á sama tíma í fyrra. Þarna er talsvert minni afli, um 30% minni afli, en þess ber að geta að það er 8 bátum færra á netum, 6 bátum færra á trolli og það hefur verið mun minni sókn frá Vestmannaeyjum vegna kvótareglna á þessari vertíð en var í fyrra og er hefðbundin sókn á þeim miðum. Einnig hafa veður verið þannig á Suðurlandsveiðisvæðinu að það hefur verið hvað verst um langt árabil að stunda þar sjósókn í vetur. Þegar á heildina er litið og við könnum hver er meðalafli netabáta í Vestmannaeyjum á þessari vertíð og síðustu vertíð þá er hann mjög svipaður. Meðalafli á netabát 1983 var 12.7 tonn. Í 531 róðri var meðalaflinn á netabát 12.9 tonn 1973, hann var 12.7 tonn nú í 417 róðrum. Þetta sýnir að einnig á Suðurlandsmiðum er mun meiri afli en við var búist og í rauninni ekki minni afli en kemur í ljós hjá Ólafsvíkurbátum vegna þess að ég hygg að það sé staðreynd að sóknarþunginn hafi verið minni frá Vestmannaeyjum á þessari vertíð en frá Ólafsvík þegar á heildina er litið.

Á Rifi var aflinn s. l. ár, fyrstu þrjá mánuði ársins, 2340 tonn, svo til allt þorskur. Nú er búið að landa þar 2865 tonnum. Þannig helst þetta í hendur og undirstrikar að meira kemur úr fangi sjávar af afla en reiknað var með.

Á Akranesi hafa bátar landað 1128 tonnum á þessari vertíð. Þar af er þorskur 1054 tonn. Á árinu 1983 lönduðu bátar þar á sama tíma 1180 tonnum, þorskur var þar af 1047 tonn. Þetta eru svo til nákvæmlega sömu hlutföll með mun minni sókn sem hefur átt sér stað frá Akranesi á þessu ári. Þannig tel ég að þessar upplýsingar, sem eru borðliggjandi, gefi ákveðna vísbendingu.

Við skulum þó umfram allt gera okkur grein fyrir því að kvótamiðstýringin drepur og dregur úr allri veiðivon fiskimannsins. Við erum með í landinu á annað þúsund fiskiskip og reikna má með að þörfin fyrir nýja, menntaða yfirmenn á ári sé um það bil 100 menn. Ef við ætlum að keyra á þessu kerfi án þess að hafa haldbær rök, án þess að hafa líkan sem stenst miðað við þær forsendur sem þær hafa byggt á, erum við komin í vanda vegna þess að hvernig eigum við að ætlast til þess að ungir menn fara til mennta í sjómennsku í dag ef þeir eiga ekki að fá neitt tækifæri til þess í framtíðinni að láta á sig reyna? Víst getum við verið sammála um að hyggilegast er að gera út á fiskimennina, þá sem eru fisknastir og mestu afburðamennirnir í þeim efnum og skila mestum arði fyrir minnsta vinnu, ná mestri nýtingu á tæki og mannafla. Það hlýtur að vera okkur kappsmál þegar á heildina er litið.

Ég sagði fyrr í máli mínu að þær reglur sem við búum við í dag gerðu ráð fyrir mun meiri afla en 220 þús. tonna hámarksafla í þorski, eins og hv. þm. Karvel Pálmason minntist á áðan. Um er að ræða úthlutun á 531 þús. tonni af fiski, u. þ. b. 400 þús. tonnum af þorskígildum. Líkanið sem við byggjum á gerir ráð fyrir 42% niðurskurði á fiski fyrir það tímabil sem miðað er við, frá 378 þús. tonna meðalafla s. l. 3 ár í 220 þús. tonn. Þessi aflarýrnun kemur að sjálfsögðu mest niður þar sem þorskur vegur hvað mest í afla. Miðað við veiði þriggja ára þýðir þessi rýrnun þorskafla eftirfarandi lækkun á botnfiskafla eftirtalinna svæða: Á Suðurlandi 26.8% rýrnun, á Reykjanesi 19.9% rýrnun, á Vesturlandi 26.8% rýrnun, á Vestfjörðum 26.4% rýrnun, á Norðurlandi vestra 28.8% rýrnun, á Norðurlandi eystra 29.4% rýrnun og á Austfjörðum 27.1% rýrnun.

Nýlega er lokið leiðréttingu á kvörtunum yfir 300 skipa í flota landsins. Þessi leiðrétting þýddi aukningu á þorskkvótanum úr 220 þús. tonnum í liðlega 226 þús. tonn. Miðað við aðrar leiðréttingar smærri báta hækkar þessi tala eitthvað. Síðan verður að taka inn í myndina að gert er ráð fyrir 10% aukningu á þorskafla miðað við ígildi afla. Það þýðir sem sagt að þar er gert ráð fyrir að þorskaflinn geti orðið allt að u. þ. b. 40 þús. tonnum hærri en 220 þús. tonn, í þessu tilviki 226 þús. tonn eftir leiðréttingar. Þá hækkar talan allsnarlega.

Síðan verðum við að gera okkur grein fyrir því að það eru veruleg brögð að því að fiski sé hent í sjóinn. Þegar ég segi verulega á ég við að strax og það fer að verða bitastætt hlutfall í afla báta er það verulegt hvað hent er í sjóinn af slæmum fiski. Komið hefur fram í samtölum við sjómenn hér og þar í verstöðvum að þeir hendi þriggja og fjögurra nátta fiski. Þeim er vorkunn því að þeir eru með hálfónýtt og verðlítið hráefni bundið inn í þann kvóta sem þetta fyrirkomulag gefur þeim. Það hefur verið nefnt og staðfest að allt að 40% af afla í veiðiferð, þegar um er að ræða nokkurra nátta fisk, hafi verið hent í sjóinn. Þarna er um að ræða háa tölu í heild og allt leiðir þetta að sama marki, að við áætlum að veiða ekki minni afla en á s. l. ári.

Þá undirstrika ég enn þá að meðalafli fiskjar er skv. upplýsingum sjómanna og mun væntanlega koma í ljós skv. upplýsingum Hafrannsóknastofnunar talsvert meiri en í fyrra. Þar sem líkanið var byggt á fjölda fiska, ekki meðalþyngd, hlýtur það einnig að mæla með því að við breytum nú starfsaðferðinni og tökum afstöðu til þess að það þarf að stjórna þessu á annan hátt en gert hefur verið. Þetta getum við þó ekki gert endanlega að mínu mati fyrr en þessar staðreyndir liggja fyrir. Ég veit að hæstv. sjútvrh. fylgist grannt með þessum tölum, þessum staðreyndum, en þar sem málið er komið upp í hæstv. Alþingi þykir mér rétt að þessar upplýsingar komi fram.

Ég sé ekki annað en að það þurfi að taka og sé hægt að taka mjög fljótlega pólitíska ákvörðun um að hækka kvótann. Við skulum gera okkur grein fyrir því að á Austurlandi og Norðurlandi eru ekki óeðlileg aflabrögð á þessu. ári, þau eru ekki mikil, og þetta er mjög misjafnt á öllu suður- og vestursvæðinu. Það hefur, held ég, meira verið gert úr þeim mikla afla sem einstakir bátar hafa fengið. Það er ekki eins gott yfir heildina, vil ég meina. En að meðaltali er um að ræða, skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið bæði hjá sjómönnum og Fiskifélagi, mjög svipaðan afla og á s. l. ári með mun minni sókn, fyrir utan óvissar fölur, t. d. í afla sem hent er.

Þess vegna held ég að ástæða sé til þess að íhuga mjög alvarlega hvort ekki séu tímamót í þessu máli, hvort ekki beri að taka af skarið, að hækka a. m. k. að hluta kvótann í prósentutölu á meðan verið er að ganga úr skugga um hvort hér séu staðreyndir sem hægt er að byggja á og ég tel í rauninni borðliggjandi.