03.04.1984
Sameinað þing: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4381 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. 3 þm. Vestf. um að það ástand sem er að skapast nú í íslenskum sjávarútvegi sé bein afleiðing þess valdaafsals og þeirrar kvótasetningar sem í framhaldi af því valdaafsali, sem átti sér stað hér fyrir áramótin, kom.

Það er sem sagt að koma í ljós að sá kvóti sem við nú búum við er það gallaður að í sumum byggðarlögum blasir nú við atvinnuleysi, við því má búast eftir að kemur fram á mitt ár. Jafnvel þó að útgerðarmenn og fiskimenn sýni hina ýtrustu forsjálni, eins og hæstv. forsrh. nefndi áðan að þyrfti að gera við þær aðstæður sem við búum nú við, virðist mikill fiskur vera á miðum, t. d. við Snæfellsnes. Jafnvel þó að menn fækki netum og bátum fækki á sjó heldur áfram að berast mikill afli að landi. Eftir að bátum hefur fækkað gerist það, eins og gerðist í gærkvöldi, að það kemur metafladagur miðað við mörg undanfarin ár. Við þessar aðstæður er sumum útgerðum, sumum sjómönnum skipað að fara í land, sagt að binda báta sína og sækja ekki fisk í sjó. Slíkar aðstæður á Íslandsmiðum held ég að enginn hafi getað ímyndað sér fyrir ári síðan eða svo.

Ástandið er þannig í Ólafsvík í dag t. d. að þar hefur 13 bátum verið lagt af líkast til um 30 bátum sem stunda þar sjó. Það hafa 9 heimabátar og 4 aðkomubátar af Norðurlandi þegar fyllt kvóta sinn og fara nú til Norðurlands til að leggjast þar og hafa ekki möguleika til þess að skapa þeim svæðum atvinnu.

Sama er að gerast á Snæfellsnesi. Eftir u. þ. b. hálfan mánuð miðað við líklegt aflamagn verður meginhluti flotans við Breiðafjörð bundinn við bryggju vegna þess að hann er búinn með kvótann sinn, jafnvel þó hann hafi sýnt hina ýtrustu forsjálni við að sækja eins lítinn afla og eðlilegt mátti teljast.

Sumir bátar við Breiðafjörð hafa á undanförnum vikum fækkað netum sínum í sjó og — það sem ég held að ekki hafi skeð almennt við fiskveiðar undanfarandi ár — hafa tekið upp net fyrir helgar. Ég veit t. d. um bát sem fyrir síðustu helgi tók upp hluta af trossum sínum og var ekki nema með 7 trossur í sjó, en kom með 32 tonn að landi í gær. Hann gat ekki forðast það, jafnvel þó hann sýndi hina ýtrustu forsjálni, að fiska þetta rösklega upp í kvóta sinn.

Við þessar aðstæður mundu sjálfsagt sumir segja það sé heppni fyrir Snæfellsnes að fá svona mikinn afla að landi. En nú eru hlutirnir orðnir þannig að þetta er orðið óheppni. Það er mjög mikil óheppni fyrir Snæfellsnes og Breiðafjarðarhafnir að svona mikill afli skuli vera þar vegna þess að við það að aflinn berst í land á svo stuttum tíma verður hann að vinnast og það þýðir að við höfum ekki atvinnu fyrir okkar fiskverkunarfólk og sjómenn þegar fram á árið líður, þ. e. eftir að búið er að vinna úr því hráefni sem að landi berst.

Ég tel því að sú spurning sem hv. þm. Karvel Pálmason lagði fyrir hæstv. forsrh. hafi verið nauðsynleg. Við þurfum að fá svar við því hvað ríkisstj. hefur hugsað til þess að leysa úr þeim vandamálum sem hljóta að koma upp og eru fyrirsjáanleg á þessum svæðum. Við vitum að það hafa verið að koma viss vandamál upp í þjóðfélaginu og það gerist árlega. Þá hefur það verið hlutverk ríkisstj. í hvert skipti að reyna að bæta þar úr.

Í haust varð kartöfluskaði í Þykkvabæ og á Svalbarðsströnd. Hæstv. ríkisstj. hljóp þar vitaskuld undir bagga og gerði ráðstafanir til þess að það kæmi ekki þungt niður á atvinnulífi þeirra byggða. En ekkert hefur verið rætt um það sem við blasir í sambandi við íslenskan sjávarútveg og menn máttu vita að hlyti að koma um leið og þessi kvóti var settur á. Ekki hefur verið rætt um það að byggðir, sem eins er ástatt fyrir og byggðunum á Snæfellsnesi hljóta að eiga kröfu til þess að gerðar verði einhverjar ráðstafanir þegar það blasir við að þar verði ekki fyrir hendi nem atvinna. Þessir menn eiga ekki aðeins þá kröfu að þeir hafi möguleika til þess að geta sótt peninga til Atvinnuleysistryggingasjóðs, heldur á þetta fólk fullan rétt á því, þegar því er skipað að hætta að stunda sína hefðbundnu atvinnugrein, að fá betri kjör en þær lágu bætur sem úr Atvinnuleysistryggingasjóði koma.

Ekki er nóg með að þetta blasi við í sambandi við fiskverkunarfólk og reyndar allt fólk á stöðum eins og nokkrum stöðum á Snæfellsnesi sem byggja alla sína afkomu á sjávarútvegi, heldur blasir það við í mörgum tilfellum að þær útgerðir, sem eru nú að hætta veiðiskap, standast það ekki að leggja þessum atvinnutækjum út árið eða svo. Margar þeirra hafa ekki möguleika á að leita fanga t. d. við djúprækjuveiðar eða að nýta sér aðra möguleika sem á hefur verið bent. Þessar útgerðir verða jafnvel ekki til taks að ári liðnu þegar horfið verður frá þessum kvóta ef þetta er, eins og nefnt hefur verið, aðeins tilraunakvóti til eins árs.

Með þessu vil ég undirstrika að ég tel að sá kvóti sem við búum nú við sé mjög óhagstæður sem tilraunakvóti. Hann er mjög óhagstæður sem tilraunakvóti af því að hann getur haft það í för með sér að bátur sem ekki fær venjulegan kvóta getur ekki haldið uppi rekstri nema hluta ársins. Hann getur gert það að verkum með annars hæfa útgerð að öllu leyti að hún hafi ekki rekstrargrundvöll framar. Ég held að þarna hljóti að vera vandamál sem ríkisstj. hlýtur að líta á og huga að.

Vestur á Snæfellsnesi, á þessum stöðum þar sem aflinn hrúgast nú í land og hver metdagurinn kemur á fætur öðrum, fóru ungir menn út í það ævintýri í haust að kaupa sér smábáta. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að upp úr áramótum yrði settur kvóti sem yrði miðaður við það að ef þeir væru með bát sem væri stærri en tíu tonn mundi þeim verða skammtaður ákveðinn afli. Þarna eru um fjóra aðila að ræða á heimastöðvum mínum, þ. e. á Hellissandi og Ólafsvík. Þeir eru allir búnir með kvótann sinn, þeir fengu 54,5 tonn af þorski. Þeir bundu sig á haustdögum í skuldabagga og treystu því að íslenskt þjóðfélag og íslensk ríkisstj. tæki ekki af þeim möguleikann til þess að standa undir þessum rekstri sínum. Þetta gekk m. a. s. það langt núna með þeim leiðréttingum, sem komu síðast og áttu m. a. að lagfæra aðstöðu þessara bátastærða, að einn af þessum bátum var skertur. Það var minnkaður afli hans frá því að hann hafði 65 tonn, en hann varð endilega ð komast í hópinn og vera jafn og fá 54,5 tonn. Þetta er nú allt réttlætið með þeim leiðréttingum sem áttu sér stað núna síðustu daga hjá kvótanefndinni.

Mín skoðun er sú að þeir þrír þættir sem nefndir voru til ágætis þessa kvóta, þ. e. að með þessum kvóta mundi útgerðin geta sparað í rekstri, hún mundi koma með betri afla og hægt væri að takmarka aflasóknina, séu núna allt að því rökleysa.

Hv. þm. Árni Johnsen benti á hvernig komið væri fyrir aflatakmarkinu. Í útreikningnum sjálfum virðist aflatakmarkið hreinlega hafa farið úr 220 þús. tonnum upp í 250–260 þús. tonn ef við er bætt 10% aflaígildi og þeim viðbótarkvóta sem er leiðrétting og átti sér stað núna á síðustu dögum. Til viðbótar kemur svo sá þáttur, sem við vitum um að hefur átt sér stað og hv. þm. benti á og er kannske einn af mestu ókostum þessa kvóta, það er að afla er kastað. Í öðru lagi hlýtur að vera miklu meiri tilhneiging til þess við þessar aðstæður að reyna að komast fram hjá vigt en áður. Eitt af því sem kom fram í umr. um kvótann og leiðréttingarkvótann var að ýmsir hefðu bent á að þeir hefðu landað fram hjá vigt áður og vildu þar af leiðandi fá hækkaðan kvótann sinn. Það er voðalega hætt við því að ýmsir aðrir reyni nú að leika þennan leik einmitt af því að það er ákveðinn kvóti bundinn á hvert skip þannig að hver sem kemur einum bíl fram hjá vigt fær hann í auknum afla. Aftur á móti á það sér ekki beint stað þegar heildarkvóta er úthlutað. Þannig er aflatakmörkun nokkuð vafasöm.

Ég tek alveg undir með þm. Árna Johnsen að allar líkur eru fyrir því að ekki verði sóttur minni þorskur á íslensk fiskimið í ár með þessum kvóta en var gert á síðasta ári. Og til hvers var þá verið að setja þennan kvóta? Af hverju gátum við ekki bara notað gamla fyrirkomulagið?

Ég get svo sem viðurkennt það að sóknarþungi hefur minnkað. Af þeim ástæðum má reikna með því að betri afli hafi komið, menn hafi verið með færri net en áður. Hægt er að reikna með því að komið hafi betri afli. En ekki hefur verið mikið gert af hálfu opinberra aðila til að fylgjast með því hvort þarna ætti sér stað jákvæð þróun. Eitthvað hefur verið gert, litið á hvernig afli hefur borist að landi, en það hefur ekki verið mjög mikið eftir leitað og það hefði þurft að vera meira og hefði verið mikið eðlilegri aðferð til þess að draga úr afla en þessi kvótaregla sem í gildi er.

Því miður held ég að sú aflahrota sem yfir Snæfellsnes dynur hafi ekki boðið upp á góða nýtingu úr þeim afla sem þar hefur borist í land. Ég hef ekki trú á því að mínir ágætu heimamenn, Sandararnir, hafi haft mikinn möguleika til þess að vinna úr þeim 300 tonnum sem þeir fengu í gær. Ég er ansi hræddur um að það séu ýmiss konar vinnubrögð sem eiga sér stað í kringum það og sumt af þeim afla fari beint í úrkast, kannske engin önnur leið til, því miður. Það tókst ekki vel þegar 500 tonn komu til Ólafsvíkur og á milli hafa verið að berast 100–150 tonn á þessa staði.

En ekki er nokkur tilraun gerð til þess af opinberri hálfu að reyna að draga úr aflaþunganum. Það litla sem gert var var gert af mönnunum sjálfum. Það sem ég tel að ætti að gera fyrst og fremst til að draga úr aflasókn væri t. d. að skipa mönnum að draga upp net sín á laugardögum. En þeir gerðu það ekki, þeir háu herrar sem höfðu valdið í sjútvrn., heldur skömmtuðu þeir kg á hvert skip. Það hefðu engin 300 tonn borist á Rif í gærkvöldi ef það hefði verið regla um það að ákveðinn hluti af netunum skyldi vera dreginn í skipin á laugardagskvöldi. Hægt hefði verið að minnka þann afla um allt að því helming. Það voru líkur á því að borist hefði að landi verðmætur og góður afli. Hann hefur sjálfsagt verið góður sem barst í land í gær en möguleikinn til að vinna hann er ansi lítill.

Það hefur verið frekar á annan veg sem hlutirnir hafa verið gerðir af hendi stjórnvalda heldur en að skipulagt hafi verið að betri afli bærist að landi og við fengjum verðmætara hráefni.

Í fyrravor var samþykkt að minnka möskva þannig að við gætum sótt frekar í smáfisk. Núna er kenningin sú að við skulum nota hvaða veiðarfæri sem er til að sækja í þennan kvóta. Það blasir sem sagt við að þeir sem eiga eftir einhvern þorskkvóta geti dundað við það í sumar eins og þeir fengu að gera í fyrrasumar að sækja fiskinn með þorskanetum yfir sumartímann. Allir sem eitthvað hafa stundað sjósókn vita hvaða hráefni berst þá að landi. En kenning þeirra sem bjuggu til þennan kvóta er fyrst og fremst sú að lofa mönnum að velja sjálfum hvernig þeir sækja fiskinn í sjóinn. Útkoman er þessi sem við blasir fyrir vestan hjá okkur að við höldum áfram að sækja fisk í sjó og minnkum möskvann jafnvel.

Kvótinn er að öllu leyti ranglátur. Hann er þó mismunandi ranglátur bæði gagnvart sjómönnum og útgerðum, en þó sérstaklega er hann óréttlátur gagnvart byggðarlögum. Enn skal ég vitna í Árna Johnsen. Hann nefndi tölur um það hvernig skerðingin kæmi út á landshluta. Ég tók svo eftir að þar voru ekki nefndar hærri tölur en 27% í aflamagni ef miðað var við heitan landshluta — (Gripið fram í.) — eða jafnvel 29%. Ef við aftur á móti tökum byggðarlög getur þessi skerðing farið allt niður í 50%, slíkt er réttlætið. Byggðarlögin á Snæfellsnesi, sem núna eru svo heppin eða óheppin að vera að fiska svo mikið og klára þar með kvótann, eru flest skert um 50% vegna þess að þessi byggðarlög hafa fyrst og fremst fiskað þorsk og að er fyrst og fremst verið að skammta þorskveiði á Íslandi með þessum kvóta. Það gefur augaleið miðað við þær prósentur sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi áðan að önnur byggðarlög eru þar af leiðandi mörg hver aðeins með 10% skerðingu á aflasókn. Sum eru kannske þarna einhvers staðar á milli. En það eru nokkuð mörg byggðarlög á Íslandi sem standa frammi fyrir þessari skerðingu. Það eru, eins og ég nefndi, byggðarlögin á Snæfellsnesi, byggðarlögin á sunnanverðum Vestfjörðum, Grímsey, Bakkafjörður og ýmsir svoleiðis staðir. Sjálfsagt má telja marga slíka upp. Engin tilraun hefur verið gerð og það er engin leið í kvótanum til þess að lagfæra þessa stöðu. Ekki eru nein fyrirheit um að þessi byggðarlög fái neinn sérstakan stuðning eða neina sérstaka fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera þegar að því kemur, sem hlýtur að koma fyrr en seinna, að atvinnuleysi komi yfir byggðirnar og að útgerðirnar stöðvist og fjárhagslegur grundvöllur þeirra hrynji þar af Íeiðandi.

Menn hafa gert mikið úr því fiskiríi sem er vestur á Snæfellsnesi, fyrst og fremst í fjölmiðlum. En sem betur fer er afli að berast að landi víðar en á Snæfellsnesi. Enn vitna ég til þm. Árna Johnsen, en hann benti á að staðir eins og Vestmannaeyjar eru með svipaðan afla, ef litið er til aðstæðna og aflasóknar, og var á síðasta ári. Vestmannaeyjar voru þá með betri veiðistöðum. Sömu sögu er sem betur fer að segja víðar á Suðurlandi. En nota bene, aðalaflatíminn á Selvogsbanka og við Reykjanes er ekki kominn enn þá. Oft hefur svo sem vel fiskast á þessum tíma og betur en nú, en páskahrotutímabilið hefur vanalega sett allt á annan endann í Vestmannaeyjum vegna þess hve mikill afli hefur borist þar að landi og víðast við Suðurland — (Gripið fram í.) Þú hefur ekki heyrt nefnda páskahrotu í Vestmannaeyjum. (GSig: Ég er búinn að róa þar margar vertíðir.) Sá tími er ekki kominn. Mér finnst allar líkur benda til þess að þorskgengdin við Ísland sé varla afmörkuð við Breiðafjarðareyjar og hún eigi eftir að ganga á önnur svæði hér sunnanlands. Þess vegna tel ég að nauðsynlegt sé að bætt verði við þann kvóta sem við búum við til þess að fleiri og fleiri skip þurfi ekki að stöðvast og útgerðir að missa frá sér mannskap þannig að þær geti ekki hafið róðra aftur ef gripið verður til þess ráðs einhvern tíma síðar í vor. Ákvarðanataka, sem kæmi eftir páskafrí um aukningu á kvóta, kemur ekki að gagni nema að hluti þeirra skipa sem eru að sækja sjó í dag geri það áfram. Ef ekkert verður gert verða margir búnir með kvótann sinn, segja upp sínu fólki. Í öðru lagi munu þeir sem verða við það að klára kvótann varla gera ráð fyrir því að halda áfram útgerð eftir páska ef ekki verður komið eitthvert grænt ljós um það að þeir megi fiska meira eftir páska.

Ég vil því leggja mikla áherslu á það að ef hæstv. sjútvrh. hefur ekki stöðu til þess að fá þessa tæknilegu undirstöðu til þess að taka ákvörðun þá taki hann um þetta pólitíska ákvörðun. Hæstv. forsrh. undirstrikaði það áðan að ekki væri eðlilegt að sjútvrh. tæki ákvörðun fyrr en hann væri kominn með umsögn fiskifræðinga um hvort þetta væri þorandi eða hvort hann mætti bæta við kvótann. Ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi gripið til þess ráðs og bætt stundum við ákvörðun aflamagns umfram það sem fiskifræðingar lögðu til meðan hann var sjálfur stjórnsamur — (Gripið fram í: Oftar en einu sinni.) þannig að við þær aðstæður sem eru í dag held ég að pólitísk ákvörðun í þessu máli væri ekki svo mjög vond. Það er kannske ekki. Og þessi umr. var reyndar ekki hafin til þess að ræða beinlínis um kvóta, þó að hún hafi snúist í þá átt, og þess vegna kannske ekki ástæða til að fara að ræða um hvaða leiðir hefði átt að fara frekar en þá leið sem valin var, umfram það sem ég sagði áðan, að ég tel að það hefði mátt takmarka mjög veiðisókn í íslenska fiskstofna, sérstaklega þorskinn, bara hreinlega með mjög hertu eftirliti með sókn og með því að fylgjast með því að sá afli sem á land bærist væri góður og að hægt væri að vinna úr honum sem hagkvæmasta framleiðsluvöru. Ég hef sagt það áður og segi enn að ég held að flestar aðrar leiðir til aflatakmörkunar hefðu verið betri en sú leið sem nú hefur verið valin.

Við erum jafnvel í þann veginn að stoppa menn við veiðar sem gætu haldið áfram að fiska og færa afla í þjóðarbúið. Eftir stuttan tíma gæti sú sönnun legið á borðinu að þetta hefði verið rangt. Ég held að það sé miklu óráðlegra að standa við slíka ákvörðun þar til í óefni er komið en að slaka til og gefa möguleika til aukinnar aflasóknar næstu vikur. Ég held að það hafi verið rangt t. d. að leyfa ekki loðnuveiði hér fyrir Vesturlandi á síðasta ári. Það er ótrúlega lítið talað um það að fyrir Vesturlandi var mjög mikil loðna á árinu 1983. En hún var látin deyja drottni sínum. Hún var ekki veidd, heldur er loðnukvótinn færður yfir á þorsk og minnkar þorskstofninn okkar. Þá er það sú leið sem var talin heppilegust. Við skulum ekki láta það endurtaka sig sem skeði í fyrra, að fiskur gangi á miðin og við megum ekki sækja hann og gera hann að verðmæti fyrir okkur. Ég held að við eigum ekki að láta það ske að bátar stoppi nú hver af öðrum heldur gefa þeim tækifæri til þess að halda áfram, a. m. k. þangað til sú staða er komin upp að sjútvrh. geti tekið fullnaðarákvörðun, byggða á þeim vísindalega grundvelli sem hann býst við að fá frá fiskifræðingum.