03.04.1984
Sameinað þing: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4386 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki hlustað á upphaf þessara umr. þar sem ég hafði fyrir löngu lofað því að mæta á stjórnarfund í Fiskveiðasjóði, sem hafði áður verið frestað, og gat ég ekki komið því við að fresta því nú. Ég var því bundinn þar kl. 4 og gat ekki losnað fyrr en ég kom hingað í salinn. Ég hef því því miður ekki fylgst með umr., sem hér hafa farið fram, að öllu leyti.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að efna til umræðna um skipulag og stjórnun fiskveiðanna. Sú umræða hefur hér farið fram. Þó er ekkert athugavert við að rifja ýmislegt af því sem þá var sagt upp og athuga hver reynslan hefur verið. Það liggur alveg fyrir að slíkri stjórnun fylgja ýmiss konar vandamál, margvíslegir gallar og erfiðleikar. Hitt er svo annað mál að ekki er rétt að nota þessa stund fyrst og fremst til að draga upp þá annmarka.

Ég segi fyrir mig, eftir að ég hef hlýtt á hv. 4. þm. Vesturl., að ég heyrði ekki betur en hann vildi nánast að við í sjútvrn. værum eins konar útgerðarstjórar á hverju einstöku skipi, jafnvel á Snæfellsnesi, að við ættum að segja þeim til um hvenær þeir ættu að draga upp netin og hvenær ekki. Við teljum að það kerfi sem hefur verið byggt upp gefi mönnum ákveðið sjálfsvald og það sé enginn færari um það en sjómennirnir og útgerðarmennirnir að reyna að gera eins mikil verðmæti úr aflanum og hægt er innan þess ramma. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það væri betur að stundum væru netin dregin upp í stærri stíl, en ég treysti mér ekki til að gefa slíkar fyrirskipanir almennt vegna þess að aðstæður eru svo misjafnar. Það má vel vera að hafnarskilyrði séu víða þannig, að sama sé hvað vont er veður og bátar það góðir að menn geti farið með öll sín net í land, en víða háttar þannig til að það verður að vera mál þeirra manna sem um borð í skipi eru hvernig að skuli staðið því að lítill bátur með öll sín veiðarfæri á dekki getur orðið ansi hættuleg fleyta. Ég tel því að mat þeirra manna sem þar stjórna verði að gilda.

E. t. v. hefur margt ekki gengið vel í vetur, eins og hv. þm. sagði, og e. t. v. hefur orðið eitthvað ónýtt af fiski í þeirri verstöð sem tekur á móti 300 tonnum í dag eða gær, en ég býst við því að þessi 300 tonn hefðu getað verið 500 eða 600 tonn og hvað hefði þá orðið um það sem bættist þar við? Ég er helst á því að það hefði ansi mikið af því farið upp í hjalla og jafnvel eitthvað í gúanó, eins og oft hefur nú orðið þegar miklar aflahrotur hafa komið.

Ég held að sannleikurinn sé sá, að það hafi aldrei, þrátt fyrir allt, orðið meira úr þeim fiski, sem á land hefur komið, en á vertíðinni í vetur. Ég kom í margar saltfiskverkunarstöðvar á Suðurnesjum s. l. föstudag og ég spurði á hverjum einasta stað sömu spurningar: Er ekki fiskurinn, sem þið eruð að verka núna, betri en í fyrra? Ég fékk alls staðar sama svarið, að það væri mikill munur á. Hversu mikill gat enginn fullyrt, en alls staðar var mér sagt að hráefnið væri miklu betra, meðferðin betri, færri net og meira af lifandi blóðguðum fiski sem kæmi á land. Um það hvað verður úr aflanum höfum við ekki enn tölulegar upplýsingar eða verðmætamat, það munum við fá síðar, en þær upplýsingar sem ég hef fengið benda til betri nýtingar en áður. Ég leyfi mér því að fullyrða að þjóðartekjur okkar verði allmiklu meiri vegna þeirrar fiskveiðistjórnunar sem var tekin upp en þær hefðu ella orðið. En um þetta má sjálfsagt lengi deila. Ég fullyrði einnig að aflinn dreifist meira yfir tímabilið og skapar þess vegna meiri atvinnutryggingu en óbreytt kerfi, þótt vissulega sé sú hætta fyrir hendi að til atvinnuleysis geti komið, ég hef aldrei dregið úr því.

Aðalatriðið í þessu máli er: Erum við að tala hér um sókn í ótakmarkaða auðlind eða ekki og ætlum við að byggja okkar fiskstofna upp? Um það fjallar þetta mál. Það eru allir sammála um að okkur beri að umgangast þorskstofninn af varúð eins og nú standa sakir. Það er vissulega rétt að það hafa nokkrar aflahrotur komið, en víða er einnig dauður sjór. Mér er ekki kunnugt um að það sé mikill afli fyrir Suðurlandi þessa dagana. Mér er ekki kunnugt um að afli sé mikill fyrir Norðurlandi eða Austurlandi. Það hefur því komið ágætur afli á land á takmörkuðum svæðum. Við skulum vona að það viti á gott.

Það hefur verið lögð á það sérstök áhersla við Hafrannsóknastofnunina að öllum rannsóknum verði flýtt til að hafa um það sem bestar upplýsingar hvernig ástandið sé eftir þeim aðferðum sem við best þekkjum.

Auðvitað eru allar þær aðferðir bundnar óvissu og þar verður aldrei nein fullnaðarvitneskja. Bjarni Sæmundsson er nýlega kominn úr leiðangri. Það urðu nokkrar úrtökur vegna veðurs og hann gat ekki komist yfir allt það svæði sem til stóð. Hann þurfti því að fara út aftur s. l. laugardag, hefur að vísu lent í mjög slæmu veðri hluta af tímanum, en það er gert ráð fyrir að hann komi inn — trúlega til Þorlákshafnar — á fimmtudag. Þá hefur verið lokið þeirri yfirferð sem var fyrirhuguð um hafsvæði okkar. Það er einnig verið að draga saman upplýsingar eftir fyrstu þrjá mánuði ársins og útilokað að meta stöðuna öðruvísi en að hafa reynslu þriggja mánaða.

Menn tala hér um að nú eigi að taka pólitíska ákvörðun. Vissulega verða allar ákvarðanir í þessum efnum pólitískar. En ég tel það í reynd út í hött, miðað við þá miklu áherslu sem hefur verið lögð á að flýta rannsóknum, að taka slíka ákvörðun fyrr en upplýsingar þessar liggja fyrir. Það gæti jafnvel orðið seint í næstu viku eða um aðra helgi. Ég hef lagt á það mikla áherslu að unnið verði eins hratt úr þessum upplýsingum og nokkur kostur er. Það er ekki hægt að draga enn þá miklar ályktanir af þeim rannsóknum sem hafa farið fram. Fiskifræðingar eru að safna öllum þeim gögnum saman og eru varkárir um að gefa miklar vonir. Ég tel rétt af þeim að vera varkárir vegna þess að stofninn var mjög illa á sig kominn miðað við þær upplýsingar sem við höfðum. En það er þó eitt gleðilegt, sem gerst hefur, að það virðist vera sem klakið í fyrra hafi tekist bærilega og það sé allverulega mikið af seiðum úr klakinu 1983. Og nú hafa skilyrðin í sjónum batnað mjög verulega. Við skulum vonast til þess að þau skilyrði geti haldist næstu árin. Þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli að klak takist vel og hrygningarstofninn sé bærilega á sig kominn til þess að afli geti aukist hér í næstu framtíð.

Ég segi fyrir mig að mér finnst að menn gleymi því ansi oft að til stendur að búa í þessu landi um ókomna tíð og menn ætli að lifa lengur en þetta ár. Það skyldi nú ekki vera að það væri betur gert við þá ungu menn, sem vilja stunda sjósókn í framtíðinni, sem hér hefur verið rætt um, ef haldið væri þannig á málum að stofninn næði sér vel upp aftur. Ég held að það sé meira um vert fyrir þá en að veiða óheft á þessum dögum.

Ég vil aðeins segja að að sjálfsögðu verða þessi mál tekin til endurskoðunar, eins og alltaf hefur verið talað um. Það var rætt að gera það fyrir 15. apríl. Það verður því vel fyrir páska. Ef þorskkvótinn verður aukinn, — ég segi ef, ég vil ekkert um það fullyrða, — mun það verða gert fyrir páska eins og um var talað. Ég geri mér grein fyrir að það er mjög mikilvægt að upplýsingar liggi fyrir hið fyrsta, en ég mun ekki standa að slíkri ákvörðun fyrr en þær hafa mér borist.

Það er of snemmt að ætla að hér komi til mikils atvinnuleysis, eins og hér hefur komið fram. Það er sem betur fer ekki til þess komið enn, en því miður hefur á nokkrum bátum verið sagt upp áhöfnum og þeir menn misst vinnu sína. Það er mjög miður. En það eru ýmsar aðrar veiðar sem standa til, eins og dragnótaveiði á skarkola, grálúðuveiði, rækjuveiði, humarveiði og e. t. v. eitthvað fleira. Ég tel því að það sé of snemmt að kvíða því að til mikils atvinnuleysis muni koma. Ég er svo bjartsýnn að ég tel að það muni ekki verða í miklum mæli og ég er sannfærður um að sú stjórnun sem við höfum upp tekið í fiskveiðunum hefur dregið verulega úr þeirri hættu.