02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mun reyna að svara þeim tveim spurningum sem hv. 11. þm. Reykv. beindi til mín.

Fyrsta spurningin er um það hvort ekki sé óhæfileg bjartsýni að ætta að fólk kaupi þessi ríkisskuldabréf við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Ég skal viðurkenna að það er alveg rétt. Það er ákveðin bjartsýni sem felst í því, og bjartsýnin er réttlætanleg með því að einmitt á þessu komandi ári fellur í gjalddaga sá skyldusparnaður sem lagður var á 1978, kemur til útborgunar. Og það er von okkar að verulegur hluti af þessu fé, sem hefur hingað til verið sparifé bundið í ríkisskuldabréfum, verði áfram bundið af þeim sem ekki þurfa á því fé að halda til annarra hluta. Nú er það svo að fólk sem keypti bréf 1978 er kannske komið á eftirlaun eða ellilaun og þarf á þessum peningum að halda, svo að ætla má að það geti verulega dregið úr þeim vonum sem við bindum við þessa sölu. En þetta er það svar sem ég hef á takteinum við þessari spurningu.

Spurning númer tvö var um það hvort fjmrh. hefði aðrar lausnir til að afla fjár til húsbyggjenda ef þessar aðferðir bregðast. Það hef ég ekki. Ef samtakamáttur þjóðarinnar í skyldusparnaði bregst, ef þjóðin veit til hvers á að nota hann, þá eru engar aðrar lausnir vegna þess að ég mun ekki stuðla að því að frekar verði farið í erlendar lántökur. Ég mun ekki heldur stuðla að því að frekari yfirdráttur verði í Seðlabanka Íslands og ég mun ekki taka þátt í að auka skattbyrði á fólkinu í landinu. Þá er lítið annað eftir en samdráttur í ríkiskerfinu frekar en þegar er búið að gera tillögur um. Og í öðru lagi þá, ef sá samdráttur er ekki framkvæmanlegur í ríkisgeiranum sjálfum sem þarf til að hlaupa undir bagga með húsbyggjendum, þá er ekki um neitt annað að ræða en samdrátt við bygginguna sjálfa. Þetta svar er það eina sem ég get gefið. Ég vildi gjarnan hafa annað svar sem fellur betur inn í þann farveg sem ég veit að fyrirspyrjandi er með í huga, það eru áhyggjurnar af fjárhagsstöðu húsbyggjenda.