04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4425 í B-deild Alþingistíðinda. (3762)

276. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 46 frá 25. apríl 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 35 frá 1976, lög nr. 23 frá 1977, lög nr. 58 frá 1977, lög nr. 61 frá 1977 og lög nr. 22 frá 1981, á þskj. 527.

Með frv. þessu er lagt til að fjölgað verði þeim embættismönnum sem kjaradómur ákveður laun. Hér er annars vegar um að ræða sendiherra og forstöðumenn stórra ríkisstofnana sem nú eru í hæsta launaflokki ríkisstarfsmanna og hins vegar héraðsdómara. Telja verður að eðli starfa þessara embættismanna sé með þeim hætti að eðlilegt sé að kjaradómur ákveði kjör þeirra en þau séu ekki samningsatriði við stéttarfélög.

Að því er héraðsdómara varðar skal tekið fram að sú breyting er í frv. felst um ákvörðun á kjörum þeirra er gerð að höfðu samráði við dómsmrh. og með samþykki Sýslumannafélags Íslands, en Dómarafélagi Reykjavíkur hefur lengi verið umhugað að breyting í þessa átt næði fram að ganga.

Gert er ráð fyrir því að um leið og launakjör sýslumanna og bæjarfógeta svo og annarra uppboðshaldara yrðu ákveðin af kjaradómi yrðu uppboðslaun til þeirra afnumin strax eða í áföngum. Með ákvæði til bráðabirgða I er þeim sýslumönnum og bæjarfógetum er þess kynnu að óska veittur frestur allt til ársins 1990 til að gangast undir kjaraákvarðanir kjaradóms og fá þá á meðan að halda óbreyttum lögkjörum, enda sitji þeir áfram í þeirri stöðu sem þeir eru nú skipaðir til. Þeir menn sem skipaðir verða í þessar stöður eftir gildistöku laganna mundu hins vegar ekki eiga slíkt val.

Í sambandi við nýgerðan aðalkjarasamning fjmrh. við launamálaráð ríkisstarfsmanna innan BHM var undirritað eftirfarandi samkomulag:

„Fjmrh. mun á.því Alþingi er nú.situr beita sér fyrir þeirri breytingu á lögum um samningsrétt háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins að gildistími samninga verði samningsatriði aðila hverju sinni, en komi til kasta kjaradóms gildi úrskurður hans í eitt ár. Með lagasetningu yrði gildistími núgildandi kjarasamninga styttur í eitt ár.“

Tillaga um breytingu á lögunum skv. 3. og 4. gr. frv. er gerð til að fullnægja ofangreindu samkomulagi. Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.