04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4437 í B-deild Alþingistíðinda. (3770)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv. til l., sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð, fékk allmikla umfjöllun í hv. sjútvn. Þar urðu nm. ekki sammála um afgreiðslu þess og er því skilað tveim nál. Mun ég fara nokkrum orðum um nál. meiri hl. í þessu máli. Nál. meiri hl. hljóðar þannig:

„Nefndin hefur fjallað um málið á nokkrum fundum og leggur meiri hl. hennar til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Sú breyting, sem frv. þetta gerir ráð fyrir að gerð verði á lögum um Aflatryggingasjóð, er ákvæði til bráðabirgða á þann veg að árið 1984 verði greiddar sérstakar bætur úr hinni almennu deild sjóðsins er nemi 4% af öllu verðmæti afla miðað við lágmarksverð skv. ákvörðun verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Frv. þetta er komið fram vegna ákvörðunar um fiskverð 1. febr. s. l. og var þessi 4% greiðsla liður í þeirri fiskverðsákvörðun.

Nefndin leitaði álits Sjómannasambandsins, Farmannasambandsins og Landssambands ísl. útvegsmanna. Einnig komu á fund nefndarinnar fiskimálastjóri, sem jafnframt er formaður Aflatryggingasjóðs, og Þórarinn Árnason framkvæmdastjóri sjóðsins.“

Eins og kunnugt er er Aflatryggingasjóður í þrem deildum sem eru hin almenna deild, áhafnadeild og verðjöfnunardeild. Aðaltekjur Aflatryggingasjóðs og einu tekjur fyrir utan ríkisframlag eru tekjur af útflutningsgjaldi sjávarafurða, fob-verðmæti þess, sem er í flestum tilvikum 5.5%. Af þessum 5.5% fær Aflatryggingasjóður samtals um 56%, eða atmenna deildin fær 15%, verðjöfnunardeildin 20% og áhafnadeildin 21%. Það sem greindi á í þessu máli og nefndin klofnaði um var það hvort réttlætanlegt væri að taka þessa upphæð, þessi 4%, úr almennu deildinni til þess að færa hana í Stofnfjársjóð fiskiskipa, eins og gert er ráð fyrir í frv. Þetta væri deild sem hefði frá upphafi þjónað ákveðnu markmiði, sem væri það að styðja við útgerð sem einhverra hluta vegna yrði fyrir áföllum eða aflatregðu þannig að ekki væri hægt að greiða hlut eða í þeim tilvikum kauptryggingu til sjómanna.

Ljóst er að þetta hefur verið gert í nokkuð mörgum tilvikum. Það hefur verið mismunandi eftir árferði hvað greitt hefur verið úr þessari almennu deild til slíkra þarfa. Frv. gerir ráð fyrir að þetta sé gert til bráðabirgða í eitt ár, að þessi almenna deild verði ekki við bótagreiðslum eins og verið hefur heldur renni þessi 4% beint til útgerðar í gegnum stofnfjársjóð. Aftur á móti gerir frv. ráð fyrir því að ríkisframlagið, sem er 18.6 millj. kr. á fjárlögum og hefur runnið í flestum tilfellum til almennu deildarinnar, renni nú til áhafnadeildar og verði þar notað eins og segir í grg. frv., með leyfi forseta, að frv. gerir ráð fyrir „að áhafnadeild Aflatryggingasjóðs fái til ráðstöfunar á árinu 1984 ríkisframlagið til Aflatryggingasjóðs, 18.6 millj. kr., auk síns venjulega tekjustofns af útflutningsgjaldi“ — sem var, eins og ég sagði áðan, um 21 % — „Þetta er gert til þess að deildin geti aukið greiðslur fæðispeninga til sjómanna, og einnig til þess að hún geti greitt úr fjárhagsörðugleikum sjómanna, sem upp kynnu að koma vegna þess að útgerð skipa er hætt vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984. Sjútvrn. mun setja um þetta nánari reglur í samráði við hagsmunasamtök og stjórn Aflatryggingasjóðs.“

Eins og kemur hér fram er þarna lagt til að áhafnadeildin verði efld. Ég skal taka það fram, eins og ég gerði við 1. umr. um þetta mál, að þetta er of lítið til þess að muna þar nokkru sem nemur. En það er sama, það er þó í þá áttina.

Við kölluðum fyrir okkur í n., eins og kemur fram í nál., aðila hinna ýmsu hagsmunasamtaka og rétt er að fram komi að þar mættu fulltrúar frá Sjómannasambandinu, Farmannasambandinu og stjórn LÍÚ ásamt formanni Aflatryggingasjóðs, fiskimálastjóra og framkvæmdastjóra sjóðsins. Allir þessir aðilar nema landssambandsfulltrúarnir voru mótfallnir þessu frv.

Þau rök sem fulltrúar sjómanna og Farmannasambandsins höfðu fyrir sér í því máli voru að þeir gerðu nánast kröfu til að þeir fengju 33% af þeirri upphæð sem tekin væri úr almennu deildinni, það yrði tekið inn til hlutaskipta.

Persónulega er ég ekki sammála þeim í þessum efnum. Það hefur aldrei tíðkast að tekið væri til skipta það sem greitt væri úr hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs. Hún hefur verið til þess að mæta, eins og ég sagði áðan, þeim áföllum sem koma upp þegar ekki fiskast fyrir tryggingu þannig að sjómönnum séu tryggðar sínar kaupgreiðslur á þann hátt í gegnum Aflatryggingasjóð en ekki það að þessu hafi verið skipt upp sem venjulegum tekjum til hlutaskipta. (KSG: Þetta var framlag sjómanna.) Það er rétt, hv. þm. Karl Steinar, að þetta er framlag sjómanna, að þeir eiga auðvitað sinn hlut í útflutningsgjaldinu sem sjóðurinn lifir af og þeim hluta sem fer í almennu deildina og þeir meta sjálfir að séu 33% og vilja fá. Ég ætla ekki að fara út í þann reikning, en þeir hafa aldrei fengið mér vitanlega til hlutaskipta það sem greitt hefur verið úr áhafnadeild. Það er misskilningur sem kemur einnig fram hjá sjómönnum, bæði í skeyti frá þeim og öðrum, að þeir hafi fengið greitt til hlutaskipta sem þaðan er greitt. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það mál hér. Þetta er aðeins mín persónulega skoðun, þetta er ekki sérstaklega afgreitt í n. En mér finnst rétt að það komi fram við þessa umr. Þetta er liður í því fiskverði sem menn geta deilt um hvort var rétt eða rangt framkvæmt 1. febr. s. l. Þá var gengið frá þessum málum á þann veg að 4% skulu greidd úr þessari deild til stofnfjársjóðs. Það er orðið mjög brýnt að þetta mál verði afgreitt vegna þeirra aðila sem þarna eiga hlut að máli og ekki síður — ég undirstrika það — gagnvart áhafnadeildinni þar sem framkvæmdastjóri sjóðsins segir mér — sem er rétt hjá honum — að hann geti ekki reiknað út fæði sem á að fara til skipverja fyrr en á það reynir hvernig þessi lög fara í gegn. Hann veit ekki eftir hverju á að fara. Það er orðið mjög brýnt fyrir bæði sjómenn og útvegsmenn, enda komið fram á miðja vertíð, að þetta mál verði sem fyrst frá gengið.

Ég legg aðeins áherslu á það að við getum hraðað þessu máli sem mest en ætla ekki að hafa fleiri orð um það að sinni.