04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (3773)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir vekur upp margar spurningar.

Í fyrsta lagi er frv. þáttur í samningum um fiskverð. Þykir mér það mjög slæm afstaða hæstv. Alþingis ef það ætlar að samþykkja þetta frv. þar sem það gengur á rétt sjómanna og veitir útgerðarmönnum fé úr sameiginlegum sjóði útgerðarmanna og sjómanna. En það hefur komið skýrt fram áður og ég ætla ekki að ítreka það neitt frekar.

Mig langar til að beina spurningum til hæstv. sjútvrh. Í I. kafla frv. stendur: „Á árinu 1984 skal þó í stað bótagreiðslna úr hinni almennu deild sjóðsins, skv. l. kafla laganna, greiða sérstakar bætur“ o. s. frv. — Ég spyr um orðalagið „í stað bótagreiðslna.“ Nú kom það fram á nefndarfundi að hin almenna deild sjóðsins á um 340 millj. kr., en í frv. er áætlað að varið sé um 210 millj. til þessara greiðslna. Hvað er áættað að gera við afganginn? Á að geyma hann og ráðstafa honum á næsta ári? Á að ráðstafa honum, eins og gert hefur verið, með því að hlaupa undir bagga með nýjungum, styrkja skip sem hafa farið á úthafsrækju? Það kom fram hjá nefndarmönnum að slíkir styrkir hafa verið greiddir og bætur til grásleppuveiðimanna. Ég held að það sé ansi mikilvægt að fá upplýsingar um hvað verður gert við þær milljónir sem þarna eiga að liggja inni ef farið er eftir orðanna hljóðan.

Mig langar að spyrja um annað atriði. Ef eftir þessu er farið verður greitt hærra verð til þeirra sem leggja upp í höfnum erlendis. Eiga þeir einhvern meiri rétt á fjármagni úr þessum sjóði? Hér stendur: „sem nemi 4% af öllu verðmæti afla, sem landað er innanlands, miðað við lágmarksverð skv. ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins, en af skiptaverðmæti við landanir erlendis.“ Það á sem sé ekki að vera sama bótagreiðslan. Það er ekki miðað við lágmarksverð bæði á afla sem landað er innanlands og erlendis.

Það kom líka fram í máli sjómanna að það eru í kringum 60–70 millj. kr. sem þeir telja sig eiga af þeim 200 millj. sem þarna er verið að úthluta. Síðan fá þeir dúsu, 18.6 millj. Þeir mótmæltu því eindregið því að með þessu liti út fyrir að þeir væru komnir á ríkisstyrk á meðan tekin væri af þeim mun stærri upphæð. Ég vil líka að það komi fram að þeir voru ekkert sérstaklega áfram um að fá þennan styrk.

Það var líka athyglisvert að formaður nefndarinnar nefndi hérna áðan að aðeins einn af þeim fulltrúum sem við fengum til viðræðna mælti með samþykkt þessa frv. Segir það sína sögu og væri gagnlegt að fá nánari útlistun á því hvaðan hugmyndin um frv. hafi komið í upphafi. Er það LÍÚ, einhverjir aðrir eða ráðh. sem eru höfundar að þessu frv.?