04.04.1984
Efri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (3777)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að aðeins ein undantekning hefði verið gerð varðandi Aflatryggingasjóð og þar kæmi til skipta vegna þess að verið hefðu sérstakar aðstæður. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það séu sérstakar aðstæður í landinu í dag hvað varðar kjör sjómanna og það séu sérstakar ástæður til þess að menn fái það til skipta sem nú er verið að taka af. Og ég vil leyfa mér að halda því fram að þeir stjórnarmenn í Fiskifélagi Íslands, sem vitnað var í áðan, viti hvað þeir eru að tala um. Það er fráleitt að halda því fram að allir þessir menn, sem gerst þekkja, misskilji þessa hluti.

Í umr. sem vitnað var til áðan heyrist sú rödd að með þessu háttalagi sé verið að ganga af hlutaskiptunum dauðum. Ég tek undir þá skoðun og tel jafnframt að við búum hér við sérstakar aðstæður og sérstök ástæða sé til að þetta sé ekki af sjómönnum tekið. Það er búið að taka nóg. Sjómannastéttin á annað og betra skilið en að sífellt sé þar höggvið í sama knérunn og kjörin rýrð endalaust.