02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. benti mér á það hér á fyrstu dögum þingsins að ég ætti margt eftir ólært. Það er sjálfsagt alveg satt. Og ég vona að það sé líka hrós, hann geri ráð fyrir að ég geti það. En ég verð sannast sagna að lýsa dálítilli undran sem yfir mig koma núna við að hlusta á þá umr. sem fram hefur farið um þetta frv. Ég átti eiginlega ekki von á því að þetta mál væri jafnóundirbúið og það virðist koma hér inn í sali Alþingis.

Þegar stórfyrirtæki ætla sér að selja nýja vöru, þá er yfirleitt eitt það fyrsta sem þau gera að kanna hver markaðurinn er fyrir viðkomandi vöru. Ég trúi því ekki að óreyndu að ekki hafi verið kannað hvaða markaður var fyrir þau skuldabréf og spariskírteini sem hér er talað um að selja á frjálsum markaði, að ekki hafi verið gerð nein könnun á því fyrir fram hvaða árangurs mætti vænta af þeirri sölu. Tilgangurinn er tvímælalaust gagnlegur, í því er ég sammála öðrum sem hér hafa talað. En það er náttúrlega til lítils að vera að fjalla um svona mál í sölum Alþingis ef það er algerlega undir happa- og glappaaðferðinni komið hvort með þessu næst einhver árangur. Það væri vingjarnlegt af hæstv. fjmrh. ef hann vildi svara mér því hvað í raun og veru hafi verið kannað í þessum málum, hvað markað snertir, áður en þetta frv. var undirbúið.