04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

269. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um erfðafjárskatt á þskj. 515. Gildandi lög um erfðafjárskatt eru frá árinu 1921. Litlar breytingar hafa verið á þeim gerðar. Í þeim lögum var svo kveðið á að erfðafjárskattur skyldi greiddur í ríkissjóð eins og verið hafði skv. fyrri lögum um sama efni. Hélst sú skipan til ársins 1952 en þá voru sett lög um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila. Skv. þeim lögum skyldi þetta fé renna í sérstakan sjóð og tekjum hans varið til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum og öðrum stofnunum fyrir öryrkja og gamalmenni í því skyni að starfsgeta þeirra kæmi að sem drýgstum notum eins og þar stendur.

Lögunum nr. 30/1921 um erfðafjárskatt var síðan breytt 1972 og 1978. Aðalefni þeirrar breytingar var fólgið í breytingu á skattstigum til samræmis við þróun í verðlagsmálum. Það má því segja að gildandi reglur um álagningu erfðafjárskatts hafi verið óbreyttar í aðalatriðum um rúmlega 60 ára skeið. Á þessum tíma hafa að sjálfsögðu orðið miklar og margvíslegar breytingar í þjóðfélaginu og skoðanir manna og viðhorf nú að ýmsu leyti með öðrum hætti en var fyrir rúmum 60 árum. Það þótti því full ástæða og þörf til þess að endurskoða löggjöfina um erfðafjárskatt þó fyrr hefði verið.

Það varð að ráði að fela Ragnari Halldóri Hall borgarfógeta að semja drög að frv. til nýrra laga um þetta efni. Þau drög voru síðan send ýmsum aðilum til umsagnar. Að þeim umsögnum fengnum endurskoðaði Ragnar Halldór Hall þessi drög og hafði þá m. a. samráð við 1. flm. frv. til l. um breytingu á lögum um erfðafjárskatt sem lagt var fram í Nd. Alþingis 1983. Árangur þessarar endurskoðunar er frv. það sem hér liggur fyrir með nokkrum breytingum sem rn. hefur lagt til.

Í þessu frv. er að finna nokkur veigamikil nýmæli og skal ég aðeins geta hinna helstu þeirra. Í 4. gr. frv. er svo kveðið á að langlífari maki arfleiðanda sé undanþeginn erfðafjárskatti. Sama gildir um sambýlismann arfleiðanda, hafi verið um óvígða sambúð að ræða. En sambýlismaður telst sá sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar með persónu af gagnstæðu kyni og sem tekur arf eftir hann skv. arfleiðsluskrá þar sem stöðu hans sem sambýlismanns arfleiðandans er ótvírætt getið. Hér er um að ræða mikla réttarbót til handa eftirlifandi maka og þá ekki síður til handa þeim sem verið hafa í óvígðri sambúð, en það sambúðarform hefur orðið algengara hin síðari ár.

Þá er og kveðið svo á að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af arfi sem fellur til kirkna, opinberra sjóða, líknar- og menningarstofnana eða félaga. Þessar undanþágur frá greiðslu erfðafjárskatts til eftirlifandi maka eða sambýlismanns eða annarra aðila sem nefndir voru gilda þó ekki um arf sem aðrir erfingjar kunna að hafa afsalað til þeirra.

Viðmiðunarfjárhæðir við álagningu skattsins eru verulega hækkaðar frá því sem nú er eða úr 12 þús. kr. í 140 þús. kr. og skulu þær breytast hinn 1. des. ár hvert til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Hingað til hefur þurft að gera slíkar breytingar með lögum hverju sinni.

Í frv. eru sérstakar reglur um greiðslu erfingja fyrir fram upp í arf og arf sem maður afsalar sér til annars aðila. Einnig hefur frv. að geyma ákveðnar reglur um ákvörðum um gjaldstofna, en ráðh. getur sett nánari reglur um það efni og einnig getur hann með reglugerð kveðið nánar á um önnur ákvæði frv. sem að lögum verða.

Frv. þetta hefur og að geyma einfaldari og skýrari reglur en nú gilda um réttarfar í málum sem varða álagningu og innheimtu erfðafjárskatts, upplýsingaskyldu, skýrslugerð o. fl.

Ég hef hér í stuttu máli vakið athygli á veigamestu nýmælum sem í þessu frv. felast, en til frekari skýringa vísa ég að sinni til athugasemda sem með frv. fylgja. Ég vil þó geta hér athugasemda sem komu fram frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, en að sjálfsögðu sendi rn. frv. til þeirrar stofnunar lögum skv. til að meta frv. í sambandi við tekjur og kostnað. Í umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar kemur fram að frv. hafi í för með sér lækkun skattbyrði frá því sem nú er og þar af leiðandi tekjuminnkun fyrir ríkissjóð.

Í fyrsta lagi verða eftirlifandi makar og sambýlismenn skv. frv. undanþegnir erfðafjárskatti og á sama við ýmsa aðra aðila eins og líknarstofnanir og opinbera sjóði. Í öðru lagi hafa verið gerðar breytingar innan skattflokka sem munu leiða til lækkunar á skattinum. Hér er fyrst og fremst um nánari skilgreiningar á hugtökum að ræða. Í þriðja lagi lækkar hámarksskattur úr 50% í 75% þar sem hlutfallshækkanir innan skattflokks C eru hægari í þessum drögum en í núgildandi lögum.

Þá er einnig í fjórða lagi nefnd til viðmiðunar fjárhæð skattsins, sem hækkar eins og áður segir úr 12 þús. kr. í 140 þús. kr. en það er sú breyting sem hefur mest áhrif til lækkunar á skattinum, enda hefur þessi fjárhæð verið óbreytt frá árinu 1978.

Aftur á móti segir fjárlaga- og hagsýslustofnun að komi hér breytingar fram á móti þessum breytingum til lækkunar á skattinum þá komi nokkur atriði sem gætu leitt til hækkunar á þessum skatti.

Í fyrsta lagi skal greiða erfðafjárskatt af leigulóðaréttindum skv. frv., en svo er ekki skv. núgildandi lögum. Í öðru lagi: Nú deyr maður sem tæmst hefur arfur áður en hann hefur greitt erfðaskatt. Skv. frv. greiða erfingjar hans fyrst skatt af þeim arfi sem honum tæmist en síðan af því sem telst arfur eftir hann, þar með talið sú eign eða eignir sem var arfur til hans sjálfs. Skv. núgildandi lögum er einungis greiddur skattur í eitt skipti af arfi sem þessum.

Í þriðja lagi er í frv.-drögunum að finna ákvæði um vanskilavexti sem er nýmæli. Skulu þeir innheimtir ef erfðafjárskattur er ekki greiddur innan tveggja vikna frá gjalddaga.

Í fjórða lagi er ákvæði um undanþágu maka og sambýlismanns frá skatti er gæti leitt til þess að bú kæmu fyrr til skipta og minna yrði um setu í óskiptu búi.

Þetta kemur fram með ýmsum fleiri upplýsingum frá fjárlaga- og hagsýslustofnun en mat stofnunarinnar er það að þessi breyting, sem frv. gerir ráð fyrir, muni leiða til skattlækkunar um allt að 11 millj. kr. miðað við upplýsingar um árið 1983. Á árinu 1983 innheimtist erfðafjárskattur á Reykjavíkursvæðinu að upphæð 23.5 millj. kr., en á öllu landinu 37 millj. kr. En skv. þessu frv., ef það er reiknað út miðað við sömu forsendur og skattheimtan 1983, skilaði þessi skattur sér upp á 26 millj. kr. sem er 11 millj. kr. tekjuminnkun.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að eyða meiri tíma nú að ræða þetta mál. Ég legg mikla áherslu á að þetta mál fái góða meðferð hér á þingi og helst að þingnefndir sem fá málið til meðferðar gætu gert ráðstafanir til þess a. m. k. að skoða það hvort hægt væri að koma því í gegn á yfirstandandi þingi þannig að það yrði að lögum því hér er um mikla réttarbót að ræða og leiðréttingu á meðferð þessa máls miðað við það hvernig það hefur legið fyrir. Eins og ég hef rakið er þetta mjög mikilvægt fyrir marga í þjóðfélaginu.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til félmn. og 2. umr.