05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (3820)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er greinilegt að sú ákvörðun hæstv. forseta að fresta umr. á síðasta fundi hefur haft tilætluð áhrif, þannig að menn virðast hafa guggnað æði margir á því að ræða þetta mikilvæga mál. Er í mínum huga furðulegt til þess að vita. Menn geta eytt tíma í umr. dag eftir dag um friðarfræðslu og álíka málefni en það er ekki svo að sjá að hv. þm. hafi áhuga á því að ræða það sem meginmáli skiptir fyrir allt líf þjóðarinnar, þ. e. atvinnumálin, sem nú eru hvað mest í brennidepli. Ég lýsi furðu minni á því ef þm. almennt telja ekki ástæðu til að ræða slíkt mál, eins og málum er nú háttað og allt bendir til að áfram verði á þeirri braut haldið.

Hæstv. forsrh. sagði hér í umr. fyrr að sér hefði fundist eðlilegra að ég hefði beint spurningum til hæstv. sjútvrh. vegna þessa máls. Það má vera að frekar hefði það átt að gerast. Ég tel þó eðlilegra í ljósi þess efnis sem hér er um að ræða, fyrst og fremst spurningu um atvinnumál og efnahagsmál, að spurningu sé beint til hæstv. forsrh. um það hvað hæstv. ríkisstj., sem hann veitir forstöðu, hyggst gera vegna þess ástands sem þegar er komið upp og sem greinilega heldur áfram og versnar verði ekkert að gert.

Það var ekki mín ætlan — og kom ekki fram í mínu máli á þriðjudaginn — að ræða fyrst og fremst spurninguna um kvótaskiptinguna. Ekki var síður ástæða, að mínu viti, til þess að gera tilraun til að fá um það vitneskju hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera til þess að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi á næstu vikum og mánuðum. Því verði haldið fast við það fyrirkomulag, sem nú er um kvótaskiptingu og það aflamagn sem þegar hefur verið leyft, er fyrirsjáanlegt fjöldaatvinnuleysi. Komi ekki önnur atvinnutækifæri til er greinilegt að stefnt er í fjöldaatvinnuleysi innan skamms tíma. Mér finnst eðlilegt að spurningum um slíkt sé beint til hæstv. forsrh. en ekki fagráðh., eins og í þessu tilfelli hæstv. sjútvrh.

Hæstv. forsrh. minnti á að ríkisstj. hefði sett á fót atvmn. Mér skildist að sú nefnd væri ekki enn tekin til starfa og þó mun vera nokkuð síðan hún var sett á laggir. Því er greinilegt að þeim sem þar ráða ferðinni virðist ekki þegar svo að sorfið í þessum efnum að ástæða sé til að fara að fjalla um málin, ræða þau og kynna sér og gera síðan till. til úrbóta.

Hæstv. forsrh. sagði eins og raunar miklu fleiri hv. þm. hafa sagt: Ég er einn af þeim sem vildi ekki kvóta. — Þeir eru fleiri sem hafa talað í þessum dúr, en endanlega samþykktu þó yfir sig þetta kerfi sem við nú búum við. Eftir því sem hv. þm. margir hverjir, sem greiddu þessu atkv. hér í desembermánuði, nú tala er engu líkara en hæstv. sjútvrh. hafi verið sá eini sem vildi þetta kerfi. Og hann hefur fengið því framgengt.

Af þeim hv. þm., sem léðu máls á því valdaafsali sem hér fór fram í desembermánuði til hæstv. sjútvrh. til einræðisákvörðunar um stjórnun fiskveiða og fiskvinnslu, fjölgar þeim nú stöðugt sem vilja vart við krógann kannast eða eru a. m. k. miklu linari og deigari í því að hér hafi verið staðið rétt og eðlilega að málum en var þegar þeir léðu máls á því með sínum stuðningi að úr varð.

Hæstv. forsrh. sagði að víðast hvar væri víðs fjarri því að kvóti hefði náðst og ekki skal ég della um það við hæstv. ráðh. Um þetta var ekki hægt að fá áreiðanlegar upplýsingar eða heimildir þegar ég leitaði eftir því á þeim tveimur opinberu stöðum sem ég taldi líklegast eða eðlilegast að slíkar upplýsingar fengjust, þ. e. í sjútvrn. og hjá Fiskifélagi Íslands. En vel má það vera rétt að það sé víðs fjarri því að kvóti hafi náðst á mörgum stöðum. Það breytir ekki því að sumir staðir hafa nú þegar náð því kvótamagni sem þeir mega veiða og þar er þegar komið atvinnuleysi. Það er of seint, að mínu viti, að ætla sér að fara að hugsa upp aðgerðir eftir að fjöldaatvinnuleysi hefur dunið yfir í landinu. Þess vegna er ástæða til þess að vekja um það umr. hvað menn hyggist fyrir til þess að koma í veg fyrir að hvert sjávarplássið á fætur öðru verði lagt undir það böl að búa við atvinnuleysi. En við því fást engin svör. Það er engu líkara en að hæstv. ríkisstj. eða þeim sem ferðinni ráða sé ekki enn ljóst til hvaða ráða eigi að grípa ef á annað borð þeir gera sér grein fyrir því hvaða vanda er þegar við að glíma á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi er þegar komið á.

Hæstv. forsrh. sagði í umr. á þriðjudaginn að sér fyndist of mikið gert úr þessum bráða vanda. Hann ætti að spyrja hæstv. félmrh., flokksbróður sinn, um það hvort of mikið sé gert úr þeim vanda sem þegar er kominn upp á Snæfellsnesi, í Vesturlandskjördæmi. Ætli hæstv. félmrh. sé sammála forsrh. um það að of mikið sé gert úr vanda sem menn kalla bráðan vanda? Það væri fróðlegt að fá um það vitneskju frá hæstv. félmrh. hvort hann telur að menn geri allt of mikið úr því sem gerst hefur á Snæfellsnesi.

Ég hygg nefnilega að menn sem svona tala hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaða böl það í raun og veru er og hvað það þýðir í sjávarplássunum þegar flotinn leggst í höfn. Þá er yfir 90% af öllu vinnandi fólki atvinnulaust. Um það ætti hæstv. forsrh. að vera kunnugt úr sínu eigin kjördæmi hvað slíkt þýðir í sjávarplássi.

Auðheyrt var á bæði hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. að enn liggur ekki fyrir hvort aukið verður við kvótann og þá hversu mikið ef það yrði gert. En báðir sögðu þeir þó að slíkrar ákvörðunar, hver sem hún yrði, mætti vænta undir lok næstu viku. En við skulum setja dæmið þannig upp að ekkert verði bætt við kvótann. Komi slík ákvörðun strax í næstu viku að engin aukning verði á kvótanum á þorskfiskveiðum í ár, hvað þýðir það? (Gripið fram í: Þið eruð góðir félagar.) Það þýðir að strax eftir slíka ákvörðun er stefnt að fjöldaatvinnuleysi. Ég vil a. m. k. fá að heyra frá hæstv. ráðherrum hvað þeir hyggjast gera ef slík ákvörðun verður tekin næstu viku að engin aukning fáist á kvóta. Hvað á þá að gera fyrir þá staði þar sem flotinn er þegar stöðvaður og þá staði sem augsýnilegast er að flotinn stöðvast næstu daga eða næstu vikur? Hvað skal þá gera?

Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherrar eða hv. þm. almennt geri sér ekki grein fyrir því hversu gífurlega stórt mál og afdrifaríkt getur hér verið um að ræða. Það er því nánast furðulegt að hver þm. á fætur öðrum skuli falla um sjálfan sig og gefast upp á að ræða málið.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði hér síðast. Það var ekki mín meining heldur að efna hér fyrst og fremst til umr. um stjórnun fiskveiða í ár. Þá ákvörðun er búið að taka. En það er skylda Alþingis og ekki síst hæstv. ríkisstj. að ræða og gera þinginu og þjóðinni grein fyrir því hvað hún ætlar til bragðs að taka til að bregðast við þeim afleiðingum sem sú ákvörðun um stjórnun fiskveiða hefur þegar haft og mun enn frekar leiða af sér ef ekki verður breytt um. Það er kannske það sem er fyrst og fremst um að ræða. Hvernig ætla menn að bregðast við? Ætla menn kannske að leggja megninu af flotanum eftir mitt ár og láta bæði sjómenn, fiskverkunarfólk, svo og annað launafólk mæla götur á sínum heimavígstöðvum það sem eftir er ársins á atvinnuleysisbótum? Það er það sem blasir við, verði ekkert að gert. En það er ekki, a. m. k. ekki enn sem komið er í þessum umr., hægt að fá nem svör við því.

Það er slæmt að hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl. og, það ég best veit, formaður hinnar margumtöluðu atvinnumálanefndar, skuli ekki vera viðstaddur umr. af þessu tagi þannig að menn geti fengið svör við því hvað fyrirhugað er að gera af hálfu þeirrar nefndar sem hæstv. ríkisstj. virðist treysta mest á í þessu efni. En líklega verður það svo um þetta, eins og mörg fleiri alvörumál sem hér eru til umr., að hæstv. ráðherrar eða stjórnarliðar almennt þegja þunnu hljóði um það hvað gera skuli og fást ekki til að ræða málin einu sinni.

Ég tek ekki undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði síðast, að of snemmt væri að örvænta. Nú þegar er fjöldi fólks, að vísu enn á takmörkuðu landssvæði, sem örvæntir um sinn hag. Það er því ekki að ástæðulausu að menn vilja fá svör við því hvað eigi að gera. Það er ástæða til þess að spyrja hv. þm. Vesturl., aðra en hæstv. félmrh.: Telja þeir að of snemmt sé að örvænta eins og ástandið er þegar orðið í þeirra eigin kjördæmi, að vísu á takmörkuðu svæði? Telja þeir að of mikið sé gert úr þessu máli hér? Við þessu væri gott að fá svör. Séu þetta bara hugarórar mínir er ekki alvörumál á ferðinni. En það skyldi nú ekki vera að a. m. k. sjómenn, fiskverkunarfólk og launafólk almennt talað hafi hvað mestar áhyggjur af þessu þessa dagana þó svo að hæstv. forsrh. og sjútvrh. virðist ekki hafa af því áhyggjur.

Hæstv. sjútvrh. sagði að að sínu viti skapaði kvótinn meira atvinnuöryggi. Ég er honum ekki sammála um það þó að ekki sé allt slæmt við það fyrirkomulag sem nú hefur verið tekið upp og á að gilda þetta ár a. m. k. Ég held t. d. að að því megi færa vissar röksemdir að afli sé yfirleitt betur með farinn. Ég hugsa að almennt talað megi líta svo á. En það eitt nægir ekki til þess að bjarga þeim svæðum sem fyrirsjáanlega koma til með að búa við atvinnuleysi langtímum saman á þessu ári. Það er enginn sem segir að ekki hefði mátt bæta gæði hráefnisins með öðrum leiðum en kvótaskiptingu.

Ég verð nú að viðurkenna að ég gat ekki fylgst með útreikningum hjá hv. þm. Árna Johnsen hér síðast. Ég hreinlega náði ekki þeirri línu sem hann var þar að leggja og lái mér hver sem vill, hafi menn hlustað. Ég heyrði ekki betur heldur en hann fullyrti að að óbreyttu ástandi yrðu hér veidd um 260–270 þús. tonn af þorski. Það er verst að hv. þm. er ekki við því að það væri fróðlegt að fá frekari útlistingu á þeirri reikningsformúlu sem á að koma því til leiðar að að óbreyttu ástandi verði veidd um 260–270 þús. tonn af þorski í ár. Að vísu heyrðist mér oft og tíðum að hv. þm. væri að tala um ígildi þorsks. Það er auðvitað hægt að reikna margt inn í sem ígildi þorsks — þyngd mannsins er hægt að reikna þar inn í meira að segja. (Gripið fram í.) Er nú væntanlegur sjútvrh. Alþb. genginn í salinn? Það spillir þá ekki umræðunni sjái hann sér fært að koma upp. Ég heyri að hann verður við því og þá þarf nú ekki að örvænta um útlistingar og gáfulegar umr. þegar sá hv. þm. er kominn hér í ræðustól til að tala um sjávarútvegsmál. Og þá auðvitað að eigin mati.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði undir lok sinnar ræðu að hann teldi að mjög fljótlega þyrfti að taka pólitíska ákvörðun um það hvort auka ætti það aflamagn af þorski sem á að veiða. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Arni Johnsen væri alger andstæðingur kvótans. Nú koma þeir hér hver á fætur öðrum sem greiddu honum atkv. fyrir áramótin og enginn þeirra þm. sem tekið hafa þátt í þessari umr. það sem af er annar en hæstv. sjútvrh. hefur verið meðmæltur kvótakerfinu. Allir aðrir hafa lýst því yfir að þeir væru ekki kvótamenn. Þeir eru að vísu ekki allir komnir upp, vænti ég, sem eru farnir að linast í trúnni, en það breytir ekki þessu máli.

Spurningin er og verður þessi: Verður það aflamagn af þorski sem veiða má aukið frá því sem þegar hefur verið ákveðið? Hvenær verður sú ákvörðun tekin og hversu miklu er hugsanlegt að bætt verði við, verði það gert? Og þó svo að þetta yrði gert með þessum hætti, þá er nauðsynlegt að fá um það vitneskju hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera til að bregðast við þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er og þegar er upp kominn í sjávarplássunum fyrst og fremst og leiðir auðvitað síðan af sér atvinnuleysi líka annars staðar. Þó að menn sleppi öllu tali um kvótann og þá stjórnun fiskveiða sem nú er í gildi geta menn ekki vikið sér undan því að ræða hvað á að taka við, hvernig á að bregðast við. Það er sú spurning sem brennur á vörum fólksins í landinu, ekki síst þess fólks sem þegar er farið að mæla göturnar vegna þeirrar stjórnunar og þess kerfis sem sett var á.

Hæstv. forsrh. vék að því að ekki væri allt svart í þessum efnum og vissulega er það rétt. Benti hann m. a. á að víðtæk leyfi hefðu verið veitt til rækjuveiða og það er úf af fyrir sig rétt. En ég hygg að það geti verið umdeilanleg ákvörðun hvernig að slíku er staðið. Nú er afskaplega lítið vitað um rækjustofninn og mér sýnist að hér sé enn eina ferðina verið að leggja út í slík fjárhagsævintýri að menn sjáist ekki fyrir. Ég óttast það a. m. k. (Gripið fram í: Að ráði fiskifræðinga.) Að menn sjáist ekki fyrir að ráði fiskifræðinga? Ekki voru það mín orð. Ég er á engan hátt að segja að ekki eigi að taka tillit til þess sem fiskifræðingar segja. En ég er heldur ekki að segja að það eigi algerlega að fara eftir því. Það hefur margsýnt sig að sú fræðigrein er þess eðlis að erfitt er þar á að byggja og er ekki við mennina að sakast sem þá fræðigrein hafa lagt fyrir sig og þau störf stunda. Það er margt annað sem þar kemur til og þess vegna verður oft að fara aðrar leiðir en fiskifræðingar vilja. Ég vil á þessari stundu ekki gagnrýna að aukin hafa verið leyfi til rækjuveiða, en ég held að menn þurfi að gá að sér í þeim efnum ef þeir ætla ekki að fara enn eina ferðina í vafasamt fjárfestingarævintýri.

Ég skal ekki, herra forseti, að sinni hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég heyri að einhverjir hv. þm. eru þegar búnir að biðja um orðið og ég vil gefa þeim tækifæri til að komast að. En í lokin vil ég aðeins vekja athygli á því sem ég kalla brenglað fréttamat þeirra aðila frá ríkisfjölmiðlum sem afla frétta úr þinginu. Það er furðulegt að hvorugur ríkisfjölmiðillinn, sjónvarp og eða útvarp, skuli sjá ástæðu til að gera grein fyrir umr. hér á Alþingi um atvinnumál, þá atvinnugrein sem allt snýst í raun og veru um í landinu. Kannske er það tilviljun að slíkt gerist á svipuðum tíma og menn eru hér að ræða ný útvarpslög og fleiri aðila inn í fréttamennskuna. Sú spurning hlýtur að vakna hvort þeir fulltrúar ríkisfjölmiðlanna sem hér fylgjast með og greina frá fréttum eru með slíku háttalagi að gefa vísbendingu um að þeir séu þeirrar skoðunar að það þurfi fleiri fréttamiðla en þá ríkisfjölmiðla sem við höfum nú. Þeir séu að létta róðurinn fyrir þá sem vilja útvíkka kerfið með því að halda á fréttaflutningi á þann hátt sem gert var hér s. l. þriðjudag frá þinginu.

Ég hélt að það væri ekki síst ástæða til þess fyrir fólkið í landinu að fylgjast með umr. á Alþingi, burt frá öllum pólitískum sjónarmiðum séð, um atvinnumálin, ekki síst í því ástandi sem þau eru þegar komin í og fer greinilega versnandi eftir því sem á liður árið. En fulltrúar ríkisfjölmiðlanna virðast ekki vera þeirrar skoðunar að fólkinu í landinu komi það neitt við hvernig hér er fjallað um atvinnumálin. Og sjálfsagt getum við ekkert við því gert. Þeir ráða þar ferðinni líklega, a. m. k. þangað til þá kemur önnur samkeppni um fréttaflutning. En ég hygg að fréttaflutningur eins og ríkisfjölmiðlarnir gerðu sig seka um hér s. l. þriðjudag sé ekki til þess fallinn að vekja tiltrú á ríkisfjölmiðlunum og veitti þó sannarlega ekki af að auka tiltrú almennings á því starfi sem ríkisfjölmiðlar eiga að vinna og sinna ef rétt er á haldið.