05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4500 í B-deild Alþingistíðinda. (3829)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel ekki nauðsynlegt að fara að endurtaka það sem ég sagði hér s. l. þriðjudag, hygg ég hafi verið, þegar þessar umr. hófust.

Ég vil upplýsa að það er ekki eins mikil ástæða til þeirrar bjartsýni sem fram hefur komið að undanförnu varðandi veiðar okkar á þessu ári, því miður, ef taka á mið af þeim bráðabirgðatölum sem við höfum um aflann fyrstu þrjá mánuði ársins. Það er alveg rétt að gert hefur verið mikið úr því að undanförnu að mikill afli væri víða um land. Ég hygg að fiskiríið hafi verið heldur betra í fjölmiðlunum oft og tíðum en á sjónum. Þær bráðabirgðatölur sem eru komnar fyrir fyrstu þrjá mánuðina, sem er að vísu ekki alveg búið að ganga frá, sýna að þorskaflinn fyrstu þrjá mánuði ársins er um 84 þús. tonn, en var fyrstu þrjá mánuðina í fyrra tæplega 97 þús. tonn.

Mér er alveg ljóst að hluti af þessum samdrætti er vegna þess að ekki hefur verið sótt eins stíft, minna er af netum í sjó og togararnir hafa eitthvað dregið úr sínum veiðum. Hins vegar er meginástæðan almennt aflaleysi víðast hvar, því miður. Það hefur að vísu verið gott fiskirí við Breiðafjörð, en útgerðarmaður sem ég hitti af Suðurnesjum í morgun, þar sem nokkuð hefur verið gert úr að mikið fiskirí væri, sagði að það mætti þakka fyrir ef þeir næðu upp í kvótann með sama áframhaldi. Það er því ekki jafngott hljóð í mönnum alls staðar að því er þetta varðar.

Botnfiskaflinn fyrstu þrjá mánuðina í fyrra var 172 þús. tonn, en eftir þeim bráðabirgðaupplýsingum sem ég fékk áðan er hann fyrstu þrjá mánuðina í ár 142 þús. tonn eða 30 þús. lestum minni. Þetta skýrist þannig, að togaraaflinn er u. þ. b. 19 þús. tonnum minni en í fyrra og bátaaflinn u. þ. b. 11–12 þús. tonnum minni en í fyrra. Þetta eru þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir að því er varðar veiðina í ár.

Jafnvel þó að þessi samdráttur hafi orðið tel ég að segja megi að ekki hafi orðið neitt alvarlegt atvinnuleysi enn þá, sem betur fer. Það á sér að sjálfsögðu sínar skýringar. Aðalskýringin er sú að loðnuaflinn hefur verið mjög góður. Það kom að vísu fram áðan að það væri dæmi um mistök í fiskveiðistjórnun að ekki hefði verið leyft að veiða nægilega mikið af loðnu á s. l. hausti. Ég vil minna á að við höfum búið við það í tvö ár að ekkert hefur verið hægt að veiða af loðnu. Þeir aðilar sem að þessum atvinnuvegi stóðu voru nánast orðnir gjaldþrota. Þótti það góð fiskveiðistjórnun að standa þannig að málum að veiða upp loðnuna, þannig að það yrði að stöðva veiðar í tvö ár? Ætli ekki hafi verið skynsamlegra að taka ekki allt of mikla áhættu í þeim efnum? Ætli geti ekki verið að það sé nokkuð gott að allmikið af loðnu fékk að hrygna á þessum vetri, því það tekur ekki langan tíma fyrir þennan stofn að vaxa upp? Og ætli það geti ekki verið í lagi, miðað við þau góðu vaxtarskilyrði sem nú eru orðin í sjónum, að það vaxi upp myndarlegur stofn sem við getum veitt eftir tvö ár?

Það er undarlegt, finnst mér, að hlusta á þessar umr. þar sem menn tala sitt á hvað. Hv. þm. Karvel Pálmason spyr um hvað eigi að gera og hvort verði nokkuð gert. Ætli hafi ekki einhvern tíma áður verið aflaleysi á Íslandi og við höfum ekki áður þurft að taka því? Það hefur verið okkar helsta ráð að veiða meira meðan við höfum ekki byggt upp aðra atvinnuvegi, sem við hefðum átt að gera meira af.

Hann sagði jafnframt að það væri umdeilanlegt að ætla sér að veiða svona mikla rækju. En ætli það sé ekki líka umdeilanlegt að veiða miklu meira af þorski?

Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það er umdeilanlegt að veiða miklu meiri rækju. Það hefur verið á það deilt og mjög harðlega að við í sjútvrn. skyldum beina svo miklum flota til rækjuveiða, t. d. með því að leigja eitt af okkar hafrannsóknaskipum til Vestfjarða, sem mér skilst að hafi veitt núna um 200 tonn af rækju. En það er nú þannig með rækjuna að það veit enginn hvað sá stofn er stór. Okkur ber að komast að því. Eina leiðin til þess er að senda allstóran flota til rækjuveiða. Það þýðir ekki að vera hræddur við allt. Ég er viss um að þessi rækjuveiði mun skapa mikla atvinnu, sérstaklega á Vestfjörðum og Norðurlandi og vonandi á Austurlandi á þessu ári, jafnvel þótt hv. þm. Karvel Pálmason segi að það sé umdeilanlegt að reyna að skapa atvinnu af því tagi fyrir fólkið á þeim stöðum. Það væri betra að stundum væri meira samhengi í málflutningnum. (KP: Hlustaði hæstv. ráðh. allan tímann?) Já, ég hlustaði allan tímann. Það má vel vera að ég hafi ekki skilið allt, en ég heyrði það a. m. k. nokkuð vel. Mér skildist að hvorki útvarp né sjónvarp hefði heyrt í þér s. l. þriðjudag. Ég skildi það þó.

Ég ætla mé ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það er algjörlega rangt að við í ríkisstj. höfum engar áhyggjur af þessum málum. Að sjálfsögðu höfum við miklar áhyggjur af þessum málum eins og allir í landinu. Mér dettur ekki til hugar að segja það um nokkurn mann að hann hafi ekki áhyggjur af því ástandi sem nú hefur skapast. Mig undrar að menn skuli leyfa sér að halda því fram um nokkurn mann í landinu, hvort sem það eru ráðh. eða þm., sjómenn, verkafólk eða aðrir. Að sjálfsögðu höfum við öll áhyggjur af þessu ástandi. Og við höfum mestar áhyggjur af því hvernig sagt er að þorskstofninn sé á sig kominn. Við skulum vona að það sé ekki rétt. Ég sagði við umr. á þriðjudag að það væri mjög vel fylgst með í því efni. Venjulega hefur það verið svo að fyrstu upplýsingar hafa borist frá fiskifræðingum á miðju ári. Nú hefur vinnu verið þannig hagað til að þær munu væntanlega koma í næstu viku. Það er að því stefnt. Og það hefur verið talað um það alveg síðan í fyrrahaust. Ég tel ekki rétt að fyllast örvæntingu hér á Alþingi, heldur bíða eftir því hvernig þessar upplýsingar líta út.

Ég held að það sé ástæðulaust að tala meira um það að sinni. En e. t. v. væri ástæða til að efna til umr. aftur hér á þingi þegar upplýsingarnar liggja fyrir.