05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4504 í B-deild Alþingistíðinda. (3831)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það var nú ekki meining mín að taka þátt í þessum umr. Við leysum ekki þessi vandamál hér í utandagskrárumræðum, svo mikilvæg eru þau og umfangsmikil. Og vonandi verður tækifæri síðar á þessu þingi til að ræða nánar um þessi mál þegar niðurstaða fiskifræðinganna liggur fyrir.

Ég vil þó standa hér upp í fyrsta lagi til þess að þakka hv. 3. þm. Vestf. og raunar einnig hv. 5. þm. Vestf. fyrir hinn mikla áhuga sem þeir hafa fyrir ástandi mála á Vesturlandi. Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur, þm. Vesturlands, að eiga svo rösklegan stuðning í okkar málum og vonandi á eftir að reyna á það.

Ég held að ekki þurfi að ræða hér nánar um hvers vegna kvótakerfið var sett á. Það vita allir. Það var rakið hér greinilega áðan af einum hv. þm. Vesturl. hvernig að þessu var staðið og hvers vegna þetta var gert og er ekki þörf á að rekja, það nánar. En auðvitað þurfum við að draga af þessu réttar ályktanir, draga af þessu lærdóm, sem við komum til með að þurfa að nota við áframhaldandi ákvarðanatöku um stjórnun fiskveiða, því að ljóst er að það þarf að gera í nánustu framtíð. Hér hefur nokkuð borið á góma þau ánægjulegu tíðindi að mikil fiskigengd hefur verið undanfarið á Breiðafjarðarmiðum og afli óvenjumikill. Sem dæmi get ég nefnt að í einni stærstu verstöðinni þar, Ólafsvík, var búið að landa um síðustu mánaðamót rúmlega 8 þús. tonnum af þorski. Þetta hefur hins vegar þær afleiðingar að flestir bátarnir eru búnir eða langt komnir með sinn kvóta og það skapar nýja stöðu á þessu svæði. Svipað er ástatt í öðrum verstöðvum á þessum slóðum og verður auðvitað að taka tillit til þess.

Ég held að engum blandist hugur um það að þegar svona staða kemur upp hlýtur hún að koma inn í þá endurskoðun sem fyrir dyrum stendur. Það kom fram hér í umr. s. l. þriðjudag, bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. skýrðu frá því, að ríkisstj. hefur áhyggjur af þessum málum og hún fylgist grannt með þeim. Ég vil upplýsa það hér að vinnumáladeild félmrn. hefur úti öll spjót til að afla upplýsinga um þessi mál, ekki aðeins á Breiðafjarðarsvæðinu heldur um allt land, og hefur sett fólk í það hlutverk að safna upplýsingum um atvinnuástandið, fylgjast með því frá viku til viku, þannig að ríkisstj. hafi í höndum nákvæmar upplýsingar um þessi mál nægjanlega samantekin til þess að geta gripið í taumana ef voði er fyrir dyrum. Ég fullvissa hv. þm. um það að félmrh. hefur miklar áhyggjur af ástandinu á Vesturl. sem og öðrum stöðum á landinu og það mun ekki standa á því að knýja fast á um skynsamlegar aðgerðir til þess að forða atvinnuleysisvofunni frá okkar dyrum. Og ég vænti þess að þær aðgerðir sem ríkisstj. grípur til, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, væntanlega í næstu viku, verði þess eðlis að þær leysi þennan vanda.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða þetta nánar hér. En ég fullvissa þá þm. sem hafa áhyggjur af þessum málum, ekki síst á því svæði sem þeir nefndu, að með þessu er fylgst daglega og við þessum vanda verður brugðist af festu.