02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv., sem markar að mínu mati viss tímamót í fjármálum okkar.

Auðvitað er von að við hikum nokkuð í þessum efnum. Þetta má segja að sé tiltölulega óþekkt og á þarf að reyna hvernig getur farið. En ég tel, eins og hér kemur fram, að gefa eigi f6lki kost á því ef mögulegt er að ávaxta sína peninga á sem hagkvæmastan hátt. Það fer ekki milli mála og við erum öll sammála um að það eru verulega minnkandi peningar hjá öllum almenningi um þessar mundir og í umferð. En hinu má ekki gleyma, að það eru peningar til, eins og komið hefur fram, sem eru bundnir t.d. í verðtryggðum ríkisskuldabréfum og öðru slíku. Hvaða stefnu tekur fólk þegar þau bréf koma til innlausnar? Jú, auðvitað má kaupa ný bréf ef þau verða á markaðnum. En má ekki gefa kost á því að taka upp hina nýju einingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, SDR, sem talað er um, ef einhver vill velja þann kost, ef einhver á peninga, — við skulum segja: ef einhver á peninga, — að ávaxta sína peninga á þann hátt í stað þess að rígbinda sig við gamla formið? Ég man ekki hver upphæðin er, en ég held að það sé veruleg upphæð sem ríkissjóður á að inna af hendi er ríkistryggð skuldabréf verða innleyst eftir næstu áramót. Því ekki að reyna að halda í þá peninga? Fólkið getur keypt, eins og ég segi, ný skuldabréf af ríkinu, en ef það vill heldur fara hina leiðina, sem hér er lögð til, á að gefa því kost á því. Það er nákvæmlega sama með skyldusparnaðinn, þessar 300 millj. tæpar sem er gert ráð að verði að greiðast á næsta ári. Það má ætla að verulegur hluti af því fé gæti gengið til skuldabréfakaupa. Ég sé enga hættu felast í þessu, en ég sé vissa tryggingu. Við vitum ekkert hverjir eiga þessa peninga, það eru einstaklingar og sjálfsagt félög og ýmsir sjóðir, en fólk vill ávaxta sína peninga á sem bestan hátt og þetta stuðlar að sparnaði í þjóðfélaginu.

Ég vil aðeins benda á að mér finnst þetta leiða til aukins sparnaðar í þjóðfélaginu. Fólk vill fá þá ávöxtun á sínum peningum, ef þeir eru á annað borð til, sem hagkvæmasta er hægt að fá. Þess vegna er ég hlynntur því að þetta frv. fái jákvæða meðferð og við reynum að gera það að lögum.