05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4516 í B-deild Alþingistíðinda. (3846)

235. mál, upplýsingamiðlun um húsnæðis- og byggingamál

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hérna fyrir till. til þál. um upplýsingamiðlun um húsnæðis- og byggingamál sem ég flyt ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni, Davíð Aðalsteinssyni, Kristínu Halldórsdóttur, Geir Gunnarssyni og Birgi Ísl. Gunnarssyni. Ég vil lesa ályktunina, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að skipa sjö manna nefnd til að skipuleggja og hrinda f framkvæmd því verkefni að efla upplýsingamiðlun um húsnæðis- og byggingamál til almennings og aðila í byggingariðnaði með eftirtöldum hætti:

1. Útgáfu handbóka.

2. Námskeiðahaldi.

3. Uppbyggingu tölvutækra gagna.

4. Öðrum aðferðum við söfnun og miðlun upplýsinga sem hentugar þykja.

Nefndarmenn verði tilnefndir af eftirtöldum aðilum:

1. Upplýsingaþjónustu Rannsóknaráðs.

2. Byggingarþjónustunni.

3. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

4. Reiknistofnun Háskóla Íslands.

5. Iðntæknistofnun.

6. Húsnæðisstofnun Íslands.

7. Landssambandi iðnaðarmanna.

Verkefnið njóti stuðnings ríkissjóðs í þrjú ár.“ Í grg. með till. segir m. a., með leyfi forseta:

„Eitt af einkennum nútímans er það gífurlega magn upplýsinga sem til eru á flestum sviðum. Tæknilegar framfarir hafa valdið því að möguleikar til öflunar, geymslu og dreifingar upplýsinga margfaldast næstum á hverju ári.

Ein meginforsenda þess að þjóðir haldi lífskjörum sínum á næstu árum er að þær nýti þær upplýsingar sem tiltækar eru í atvinnumálum, félagsmálum og á fleiri sviðum. Aldrei hefur verið dýrara að standa í stað. Það mun hafa úrslitaáhrif á þróun íslensks þjóðfélags og þeirra gæða, sem það mun geta boðið þegnum sínum, að hér verði sem fyrst mörkuð sú almenna upplýsingastefna sem þegar er farið að fylgja víða erlendis.

Húsbyggingar og húsnæðiskostnaður eru einn dýrasti liðurinn í útgjöldum yngri heimilanna í dag og mun verða svo um langa framtíð. Á undanförnum árum, og raunar enn, hefur athyglin einkum beinst að öflun lánsfjár til húsbygginga. Minni áhersla hefur verið lögð á að lækka byggingarkostnað sem að miklu leyti hefur dulist í verðbólgubáli og óverðtryggðum lánum. Hann verður hins vegar greinilegri þegar sífellt fleiri búa í húsnæði sem eingöngu er reist fyrir verðtryggt lánsfé. Gildir þar einu hver eignaraðild íbúanna er.

Á hérlendum markaði er fjölbreytt framboð á tækni, efni og þjónustu til húsbygginga og umfangsmiklar rannsóknir fara fram hjá ýmsum aðilum. Erlendis skýtur á hverju ári upp kollinum fjöldi nýjunga í þessum efnum. Ýmsar stofnanir hérlendis búa yfir mikilli reynslu og eiga upplýsingar sem mættu koma að meira gagni en þær gera í dag. Mikið skortir á að þessari vitneskju sé á virkan hátt komið áleiðis til íslenskra húseigenda og aðila í byggingariðnaði.“

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt mál. Ég hef kynnst þessu svolítið af eigin raun. Það er til mikið af upplýsingum í þessum málum hérlendis. Það eru upplýsingar sem hefur verið aflað á einstaka stofnunum. Hins vegar vantar verulega á í þeim efnum, eins og kemur fram í þessari grg., að á ákveðinn hátt sé starfað að því að dreifa þessum upplýsingum til þeirra sem eiga að vinna eftir þeim. Og það er ekkert vafamál að það er t. d. í dag verið að byggja húsnæði hér á landi sem er óhagkvæmt með tilliti til margra þátta. Það er óhagkvæmt með tilliti til orku og orkusparnaðar, það er óhagkvæmt með tilliti til byggingarkostnaðar. Það er jafnvel óhagkvæmt með tilliti til fjármögnunar til lengri tíma. Nú eru ný viðhorf, ef svo má segja, í þessum málum hérlendis. Það er að koma upp kynslóð sem fyrst allra kynslóða á Íslandi stendur frammi fyrir því verkefni að þurfa að fjármagna húsbyggingar sínar með rauntryggðum lánum, og það skiptir verulega miklu máli að það sé haldið svo á spilunum að fólk sé ekki að binda sér þá bagga sem sliga það þegar fram í sækir. Þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni áður að notaðar séu allar tiltækar leiðir til að halda byggingarkostnaði í skefjum.

Eins og segir í grg. hefur mikið starf verið unnið, bæði hérlendis og erlendis, núna lengi við að kanna nýjar leiðir og prófa nýja möguleika í byggingarmálum. Það er því miður raunin að fáar af þessum nýjungum hafa verið teknar í notkun hér á landi, enda hefur kannske ekki verið þrýstingur til hagkvæmni í byggingarmálum hérna. Hár byggingarkostnaður hefur verið leystur með niðurgreiddu lánsfé frekar en að reyna að lækka tilkostnaðinn.

Enn fremur segir í grg. með till.:

„Verkefnistill. þessi miðar að því að þeir aðilar, sem málið er skyldast, bindist samtökum um að skilgreina og hrinda í framkvæmd þeirri gagnasöfnun og útgáfustarfsemi sem nauðsynleg er í þessu skyni. M. a. er lagt til að vinna skólanemenda verði nýtt við vissa þætti þessara verkefna eftir því sem þeir eru færir um og það samrýmist námi þeirra. Í þessu skyni verði leitað eftir samvinnu við ýmsa skóla sem kenna greinar sem að gagni mættu koma. Með því að hagnýta vinnu nemendanna með þessum hætti vinnst það m. a. að þeir fá bein kynni af þessum viðfangsefnum og námsvinna þeirra nýtist við uppbyggingu gagnasafnana. Fyrirkomulag af þessari gerð mundi styrkja samband skóla og atvinnulífs, báðum þessum aðilum til góðs. Gert er ráð fyrir að allt skráð efni yrði ýmist þegar í byrjun sett á tölvutækt form eða auðvelt yrði að koma því á slíkt form síðar. Þannig mætti gera heildarverkefnið mun ódýrara og aðgengilegra en ella.“

1 grg. og till. er stungið upp á aðilum sem tilnefnt gætu menn í þessa nefnd. Þetta er alls ekkert heilög tala. Þarna gætu vafalaust fleiri aðilar komið við sögu. Ég vil t. d. nefna Fræðslumiðstöð iðnaðarins og ég vil nefna t. d. embætti borgarverkfræðings í Reykjavík, sem hefur mjög mikið með byggingarmál að gera. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessum aðilum væri gefið tækifæri til að tilnefna fólk í svona nefnd, þannig að ef þessi till. hlýtur náð fyrir augum þeirra, sem um hana fjalla, er sjálfsagt mál að athuga hvort þarna ættu ekki fleiri aðilar að koma við sögu.

Ég vil að lokum leggja til að þessari till. verði vísað til hv. atvmn.