06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4519 í B-deild Alþingistíðinda. (3852)

269. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil mótmæla ummælum sem hv. þm. lætur hér falla. Ég hef aldrei sagt að það ætti að bæta ríkissjóði tekjutap. Ég gaf upplýsingar um það við framsögu málsins, upplýsingar sem komu frá hagsýslustofnun, að þessi breyting, sem frv. hefði í för með sér, gæti þýtt allt að 11 millj. tekjutap á þessum skatti, en ég upplýsti jafnframt hvernig hefur verið með þennan skatt farið. Það er engin ástæða til að vefengja að hægt sé að koma í veg fyrir að tekjur sem eiga að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra minnki í sambandi við meðferð þessa máls. Það verður séð um að svo verði ekki og það eru möguleikar til þess í frv. miðað við það tekjumagn sem það á að gefa.

Jafnframt vil ég benda hv. þm. á að ef hún les yfir frv. kemur fram í nokkuð mörgum greinum að félmrh. hefur með meðferð málsins að gera, bæði í sambandi við reglugerðir og annað, eins og er í sambandi við gildandi lög um erfðafjárskatt og erfðafjársjóð.