06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4522 í B-deild Alþingistíðinda. (3856)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 51 frá 20. apríl 1953, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Það er alkunna að orðið hafa miklir erfiðleikar í sjávarútvegi að undanförnu. Fyrir því eru margar ástæður sem ekki er hægt að rekja hér, en þær eru helstar fyrir utan almennan aflabrest að olía hefur hækkað mjög á heimsmörkuðum á síðasta áratug. Samhliða því hafa vextir og fjármagnskostnaður einnig hækkað mjög verulega alls staðar í heiminum. Einnig er vert að geta þess að það er ekki síst verðbólgan og á margan hátt óhagstæð gengisþróun fyrir útgerðina sem hefur valdið því að þessi vandamál hafa aukist stig af stigi.

Á s. l. vori var þessi vandi mjög mikill og þá voru gerðar ráðstafanir til þess að forða verstu áföllunum. Það sem fyrst og fremst var þá gert var að dregið var úr þessari miklu verðbólguþróun. Þessi verðbólga hefur trúlega verið mesti fjandi sjávarútvegsins að undanförnu. Jafnframt þessu hefur verið reynt að taka á vanda sjávarútvegsins eftir því sem tök hafa verið á, en hann er ekki aðeins fjárhagslegur heldur er hér einnig um skipulagsvanda að ræða.

Þegar birtar voru tölur um hugsanleg aflabrögð á árinu 1984 á s. l. hausti var þessi vandi enn meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Vissulega var úr vöndu að ráða hvernig fram úr því skyldi komist á árinu 1984. Í framhaldi af því var breytt um fiskveiðistefnu eins og kunnugt er og hér hefur verið rætt og ég skal ekki gera að umtalsefni við þessar umr. Fiskverð var ákveðið í byrjun febr. við mjög erfiðar aðstæður og svokallað kvótakerfi tekið upp fyrir árið 1984. Í þessu sambandi vil ég minna á að við fiskverðsákvörðun 10. febr. 1984 var gefin út fréttatilkynning frá sjútvrn. sem ég vildi vitna til, með leyfi hæstv. forseta, en hún er svohljóðandi:

„Í tengslum við ákvörðun fiskverðs fyrir tímabilið 1. febr. til 31. maí og samningu reglugerðar um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984 eru áformaðar ýmsar ráðstafanir til þess að bæta afkomu og fjárhagslegt skipulag sjávarútvegsins og stuðla að sanngjarnri og skynsamlegri tekjuskiptingu innan hans. Meginatriði eru þessi:

1. Skuldbreyting útgerðarskulda eftir almennum reglum þannig að áhvílandi skuldum, hvort sem þær eru í skilum eða vanskilum allt að 90% af vátryggingarverðmæti skipanna, verði breytt í lán sem hefur jafnlangan lánstíma og upphaflegu stofnlánin að viðbættu minnst einu en mest 7 árum og ræðst lengingin af hlutfalli áhvílandi skulda. Lánskjörum verði breytt þannig að greiðslubyrði lækki verulega á næstu árum og dreifist sem jafnast yfir lánstímann. Auk þess verði lausaskuldum útvegsins breytt í lengri lán innan vissra marka.

2. Kostnaðarhlutdeild utan skipta skv. brbl. nr. 55/1983 haldist óbreytt en til skipta komi 2% af henni í viðbót við fyrri skiptahlut áhafna.

3. Bætur úr hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs verði með sérstökum hætti árið 1984 þannig að vegna hins almenna og alvarlega aflabrests, sem fyrirsjáanlegur er 1984, verði greiddar sérstakar bætur af tekjum og eignum deildarinnar sem nemi 4% af öllu aflaverðmæti miðað við skiptaverð. Bætur þessar greiðist inn á reikning hvers skips hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, sbr. lög nr. 4/1976. Bæturnar komi í stað allra bótagreiðslna almennu deildar sjóðsins 1984 og komi ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna.“

Í fjórða lagi er í þessari fréttatilkynningu fjallað um áhafnadeild Aflatryggingasjóðs en þar er gert ráð fyrir að hann fái til ráðstöfunar á árinu 1984 ríkisframlagið til Aflatryggingasjóðs, sem er 18.6 millj. kr. auk síns venjulega tekjustofns af útflutningsgjaldi. Þetta verði gert til þess að deildin geti aukið greiðslur fæðispeninga og einnig til þess að hún geti greitt úr fjárhagsörðugleikum sjómanna sem upp kynnu að koma vegna þess að útgerð skipa stöðvast vegna aflabrests og hinna nýju reglna um stjórn botnfiskveiða á árinu 1984.

Í fimmta lagi er fjallað í fréttatilkynningunni um útflutningsgjald af saltfiski.

Frv. það sem hér er flutt kemur í beinu framhaldi af þeim fyrirheitum sem gefin voru við fiskverðsákvörðun í febrúarmánuði. Þar er gert ráð fyrir því að breyta greiðslum úr Aflatryggingasjóði á árinu 1984 meðan það sérstaka ástand, sem hér hefur skapast, varir. Hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða og ég vil leggja á það áherslu að hér er ekki verið að leggja til að farið verði með Aflatryggingasjóð með þessum hætti um alla framtíð heldur aðeins á árinu 1984.

Hitt vil ég hins vegar leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að breyta því fyrirkomulagi sem áður hefur verið þótt það fyrirkomulag, sem hér er tekið upp fyrir árið 1984, eigi ekki að gilda um alta framtíð. Í þessu sambandi vil ég vitna til álits ráðgjafarnefndar um sjávarútvegsmál. Þann 16. mars 1984 kom eftirfarandi fram í þeirri ráðgjafarnefnd um þetta tiltekna frv. og tel ég rétt að það komi hér fram. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skoðanir eru skiptar í n. um þetta mál. Fulltrúar sjómanna telja eðlilegt að sjómenn fái hlut í þeirri 4% greiðslu á skiptaverðmæti úr Aflatryggingasjóði sem ráðgerð er með frv. og eru því andvígir till. frv. eins og hún er nú. Hins vegar er ekki ágreiningur um það að sérstök ástæða sé nú til þess að beita Aflatryggingasjóði með öðrum hætti en verið hefur. Dregið verði úr þeirri millifærslu milli skipa og útgerðargreina sem starfsemi hans hefur valdið en aukin áhersla lögð á að jafna milli ára eftir aflabrögðum í heild.

Þá telja fulltrúar sjómanna orka tvímælis að tillögur frv. um starfsemi áhafnadeildar feli í sér verulega eflingu hennar er dugi til þess að gera meira en að hækka fæðispeningagreiðslur. Nm. eru sammála um að benda á að æskilegt sé að skipuð verði sérstök þriggja manna nefnd til þess að gera till. um reglur þær sem frv. gerir ráð fyrir að sjútvrn. setji með ráðstöfun fjár úr áhafnadeild bæði til fæðispeninga og ráðstafanir í þágu sjómanna. Nefnd þessi ætti að vera þannig skipuð að samtök sjómanna nefni einn mann, samtök útvegsmanna annan, ráðh. nefni formann án tilnefningar.

Þá er á það bent að meðal þeirra vandamála sem fylgt gætu þorskaflabresti og sóknarminnkun vegna nýrrar fiskveiðistjórnar sé að sjómannafrádráttur, sem miðast við úthaldsdagafjölda, rýrni á næsta ári og komi sú rýrnun ofan á rýrnun tekna sjómanna vegna aflamissis. Leita þarf leiða til þess að leysa úr þessum vanda og létta greiðslubyrði sjómanna af sköttum sem miðast við tekjur fyrra árs.“

Ég vil taka það fram vegna þess sem kemur m. a. fram í þessu áliti að því hefur verið mjög haldið á loft að sjómenn hafi fengið hlutdeild í greiðslum úr Aflatryggingasjóði. Að mínu mati er rangt að halda slíku fram vegna þess að bætur þessar hafa alfarið runnið til útgerðar, en útgerð hefur síðan greitt sjómönnum kauptryggingu, í það minnsta þegar um aflabrest er að ræða. Hins vegar má halda því fram að með því hafi verið meiri trygging fyrir því að sjómenn fengju laun sín greidd. Hins vegar er á engan hátt með þessari ráðstöfun breytt þeim skiptareglum sem þar eru í gildi.

Hins vegar er ein undantekning frá þessu. Það var þegar loðnubrestur varð hér mikill, þá fengu sjómenn hlutdeild í greiðslum frá Aflatryggingasjóði. Það ætti ekki að dyljast nemum að þessar ráðstafanir treysta í nokkru afkomu útgerðarinnar og þar með getu hennar til að greiða aflahluti og kauptryggingu. Það er því í þessu eins og öðru ekki eingöngu um hagsmunamál útgerðaraðila að ræða heldur er það að sjálfsögðu einnig mál fyrir sjómannastéttina að útvegurinn sé svo staddur fjárhagslega að hann geti bærilega staðið í skilum með aflahluti.

Hitt er svo allt annað mál að kjör sjómanna eru ekki sérlega góð og því er sjálfsagt að halda á loft. En mér finnst óþarft að gera það með þeim hætti að rangtúlka eðli Aflatryggingasjóðs og starfsemi hans eins og mér hefur þótt nokkuð bera á að undanförnu. Ég vil einnig að það komi fram að við þessar ráðstafanir var ákveðið að 2% af kostnaðarhlutdeild kæmu til skipta og var það ákveðið af stjórnvöldum án samþykkis útgerðaraðila með tilliti til þess að afkoma sjómanna hefur verið fremur bágborin.

Ég vil einnig að fram komi, án þess að ég ætti að fara að blanda því sérstaklega saman við þetta mál, að sjómenn hafa lagt á það sérstaka áherslu að undanförnu og reyndar gert lengi að lífeyrismál þeirra væru tekin til mikillar lagfæringar. Þannig háttar til að sjómenn greiða í lífeyrissjóð af kauptryggingu í flestum tilvikum. Þó á það ekki við um stóru togarana. Þetta verður þess valdandi hvað varðar menn sem eru til sjós t. d. 5–6 mánuði á ári, eins og þeir sem eru á loðnuveiðum og hafa e. t. v. tiltölulega litla atvinnu þess á milli, að einungis er greitt í lífeyrissjóð þann tíma sem lögskráð er á skipin. Þetta verður í flestum tilfellum til þess að þessir menn sem sjómennsku stunda hafa sáralítinn lífeyrisrétt að lokinni sinni starfsævi. Í framhaldi af því var samþykkt í ríkisstj. s. l. þriðjudag að skipuð verði nefnd til að endurskoða lög um lífeyrissjóði sjómanna. Var þar eftirfarandi bókað sem ég vil vitna til, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarið hafa farið fram allmiklar umr. um lífeyrismál sjómanna. Fulltrúar Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafa farið þess á leit við sjútvrh. að hann beitti sér fyrir lagasetningu í þá veru að stofn fyrir iðgjald til lífeyrissjóða sjómanna verði samræmdur og verði hinn sami fyrir alla sjóðfélaga sem stunda sjó þannig að iðgjald verði framvegis greitt af heildarlaunum allra sjómanna. Þessar hugmyndir hafa mætt andstöðu útgerðarmanna enda um talsverðan kostnaðarauka að ræða fyrir útgerðina ef til þessarar breytingar kæmi. Jafnframt því telja útgerðarmenn að mál þetta sé fyrst og fremst samningamál.

Að þessu athuguðu og með hliðsjón af stöðu annarra mála sem þessa aðila varða tel ég rétt að láta kanna þetta mál nánar og legg til að skipuð verði nefnd til að fjalla um og gera till. um málið. Nefndin verði skipuð af sjútvrh. Í henni ættu sæti tveir fulltrúar útvegsmanna, tveir fulltrúar sjómanna, þ. e. frá Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einn nm. tilnefndur af fjmrh. og einn nm. skipaður af sjútvrh. Nefndin skili af sér fyrir septemberlok og gert yrði ráð fyrir að till. hennar yrðu lagðar fyrir næsta Alþingi og við það miðað að þær gætu tekið gildi í upphafi næsta árs.“

Ég vil taka fram af þessu tilefni að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að algjört ófremdarástand ríkti í lífeyrismálum sjómanna. Það er engin leið að þeir eða aðrir sætti sig við að lífeyrissjóðir þeirra séu með allt öðrum hætti en lífeyrissjóðir annarra í landinu. Ekki er hægt að sættast á það að þessir menn, sem stunda sjómennsku alla sína ævi, búi við aðeins brot af þeim lífeyrisrétti sem gengur og gerist í landinu. Ég tel því að með því nefndarstarfi sem fyrirhugað er sé að því stefnt að hér verði gerðar verulegar lagfæringar. Ég tel í reynd allt annað fráleitt.

Ég vænti þess að fyrir þessu hafi skapast verulegur skilningur í þjóðfélaginu. Hins vegar þarf að standa að því með eðlilegum hætti og eiga þarf sér stað eðlilegur undirbúningur. Ég vænti þess að sú nefnd, sem skipuð verður næstu daga, komist að góðu samkomulagi um að koma þessum málum þannig fyrir að lífeyrisréttindi sjómanna verði sambærileg og ekki síðri en gengur og gerist í þjóðfélaginu. Sjómenn eiga sér almennt mun styttri starfsævi en aðrar stéttir og því er sérstök ástæða til að sinna þessu máli af alúð.

Ég vil að lokinni þessari umr., herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.