02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta var ágæt ræða, sem hv. þm. Lárus Jónsson flutti okkur hér, eins og hans var von og vísa, og flest af því sem hann sagði var hverju orði sannara. Við getum verið alveg sammála um það, að auðvitað gat ekki haldið svo sem horfði, að við héldum áfram að lifa um efni fram. Auðvitað þurfti að grípa til ráðstafana. Um það var ekki nokkur minnsti ágreiningur.

Við Alþfl.-menn höfðum gagnrýnt allra manna harðast hvernig sú ríkisstjórn sem Sjálfstfl. átti aðild að að hluta til síðast tók hvert eyðslulánið á fætur öðru í óráðsíu og var þar „allt í sukki“, eins og sagði um búskap Hallgerðar með Þorvaldi á sínum tíma: „og hafði allt í sukki“. Það voru alveg hreinar línur. Um það var ekki nokkur minnsti ágreiningur milli okkar Alþfl.manna og hv. þm. Lárusar Jónssonar. Það voru hins vegar aðrir úr hans flokki sem voru annarrar skoðunar. Og auðvitað þurfti þarna að taka á og draga úr erlendum lántökum. Um það er ekki nokkur minnsti ágreiningur, ekki við okkur, og við munum halda óbreyttri stefnu frá því sem var og tala fyrir því áfram að það verði dregið úr erlendum lántökum, það verði hætt hallærisfjárfestingunni hinni óskynsamlegu, m.a. hallærisfjárfestingu í landbúnaði. Og ég þykist vita að við eigum ágæta stuðningsmenn um þau efni í Sjálfstfl., þó að hallærisfjárfestingarstefnan eigi sér vissulega líka sína talsmenn þar.

En það sem ég vildi leggja áherslu á hér er að ekki skal dregið úr því að afla þurfi fjár til vegamála. Það er einhver hagkvæmasta fjárfesting sem við getum lagt í. Það er engin hallærisfjárfesting. Það er skynsamleg fjárfesting og að því skulum við standa. En menn eiga ekki að segja öðrum þræði: „Það er ekki verið að auka skattana á almenning“ þegar er verið að gera það. sú hækkun sem orðið hefur á bensínverðinu frá því að þessi hæstv. ríkisstj. tók við er langtum meiri en sú raunbreyting sem átt hefur sér stað á verðgildi peninga á þessum tíma. Eitt atriði þar, sem ég vil sérstaklega minnast á, er að olíufélögin hafa fengið hækkaða álagningu. Það er alveg sama hvaða þjóðveg við ökum út frá Reykjavík. Þar er verið að byggja nýjar bensínhallir/olíuhallir, og er stutt á milli þeirra og hvergi til sparað. Ég vildi þess vegna beina því til hæstv. fjmrh., hvort það væri nú ekki leið í þessum efnum og lag að lækka svolítið álagningu olíufélaganna, reyna að koma meiri skynsemi í þann rekstur. Þá mætti kannske lækka bensínverðið lítið eitt einu sinni til tilbreytingar — eða gildir hin eilífa samtrygging um allt á þessu sviði, að það megi ekki hrófla við olíufélögunum?

Flokkur hv. þm. Ragnars Arnalds, fyrrv. fjmrh., hefur jafnan haft það á stefnuskrá sinni að koma eitthvað við olíufélögin og gera þeirra hlut minni, minnka þeirra hlut og sameina þau og ég veit ekki hvað og hvað. Nú sat þessi flokkur í ríkisstjórn í 5 ár og það gerðist ekki nokkur skapaður hlutur varðandi olíufélögin. Ég skal ekkert segja um á hverju strandaði. Við getum haft okkar hugmyndir um það hver fyrir sig, hv. þm. En allavega sat Alþb. í ríkisstjórn í 5 ár og það gerðist ekki nokkur skapaður hlutur í þessu máli.

En ég vil mælast til þess við hæstv. fjmrh. að hann láti nú sína embættismenn, sem eru margir og góðir sjálfsagt í hans rn., kanna þennan möguleika til hlítar, hvort þessi verðhækkun, hvort þessi álagningarhækkun, sem olíufélögin fengu, sé á nokkurn hátt réttlætanleg, hvort ekki mætti lækka bensínverð til almennings með því að draga aðeins úr hlut olíufélaganna og koma þar meiri skynsemi á. Það verður ekki séð að brýn þörf hafi verið á öllum þeim bensínhöllum sem eru að rísa í kringum höfuðborgina og víðs vegar út um land sjálfsagt líka. Ég endurtek að það virðist hvergi skorta fjármagn, enda borga neytendur brúsann og eru ekki spurðir hvort þeir vilji borga. Þar er bara skipað.