06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Forseti (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Vegna þess sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, að æskilegt væri að ljúka ekki þessari umr. í dag vegna þess að svo margir þm. væru fjarverandi, vil ég taka fram að það er að vísu rétt að mjög margir þm. eru fjarverandi í dag, en margir þm. höfðu líka samband við forseta með beiðni um að ekki yrðu tekin til umr. allmörg mál sem eru á dagskrá. Þetta á við um ein tíu mál sem eru á dagskránni í dag. Forseti ákvað að verða við slíkum tilmælum. En það var enginn sem bar fram tilmæli um að fresta þessu máli. Því tel ég mjög æskilegt að ljúka þessari umr. í dag. (PS: Eru mínar óskir lakari eða eitthvað lélegri en Alþb. manna?) Ja, þeir óskuðu ekki eftir að þessu máli yrði frestað, en óskuðu eftir frestun á ýmsum öðrum málum. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að þetta mál fer sjálfsagt til nefndar og eftir eru tvær umr. enn í hv. Nd.