06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (3879)

266. mál, sala ríkisjarðarinnar Selárdals í Suðureyrarhreppi

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Vestf. að flytja hér frv. til l. um sölu á ríkisjörðinni Selárdal í Súgandafirði. Þetta frv. er flutt að ósk Suðureyrarhrepps, en jörðin hefur verið leigð af hreppnum um nokkurt skeið og notuð sem útivistarsvæði fyrir íbúa sveitarfélagsins og jafnframt hefur Átthagafélag Súgfirðinga fengið að byggja þar tvo sumarbústaði og einnig einn annar brottfluttur Súgfirðingur. Nú er ætlun sveitarfélagsins að nýta jörðina á þennan hátt í vaxandi mæli og telur sig þurfa að leggja þar í kostnað af þeim sökum. Það leitar þess vegna eftir því að fá jörðina keypta þannig að það fái að ráðstafa þessum málum eins og það telur skynsamlegast, en þurfi ekki að eiga það undir öðrum.

Ég tel að þessi jörð verði ekki notuð undir almennan búskap. Ástæðan er sú að hún hefur sáralítið undirlendi eða ræktunarmöguleika. Landið er kjarri vaxið í fjallshlíð sem víðast hvar er þó það brött að snjóþungi kemur í veg fyrir að þar geti vaxið skógur í neina hæð.

Ég tel ekki nauðsynlegt að hafa hér fleiri orð að sinni, en legg til að þessu máli verði vísað til allshn. að lokinni umr.