06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

266. mál, sala ríkisjarðarinnar Selárdals í Suðureyrarhreppi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa fyllsta stuðningi mínum við að ríkisjörðin Selárdalur í Suðureyrarhreppi verði seld, einkum ef sú sala gæti komið íbúum héraðsins til góða. En ég leyfi mér að spyrja, herra forseti, hvers vegna í ósköpunum hv. þm. Ólafur Þórðarson og hv. þm. Karvel Pálmason flytja frv. um þetta mál. Það yrði nú eitthvað skrýtið andlitið á hv. þm. ef við Reykjavíkurþm. færum að bera fram lagafrumvörp um að selja einhverjar húseignir hér í bænum sem ríkið á. Við erum búin að afgreiða nýlega fjárlög íslenska ríkisins með ótal heimildum fyrir ríkisstj. til að setja hitt og þetta. (KP: Þetta er ekki það.) Hvers vegna í lifandis ósköpum kom ekki heimild sú sem hér er farið fram á inn í þá afgreiðslu í stað þess að nú er eytt dýrmætum tíma í flutning frumvarpa um sölu einstakra jarða með tilheyrandi fallegum lýsingum á kjarrinu í hlíðunum. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þm., en það verður ljóta fordæmið ef þm. kjördæmanna ætla að fara að ræða hér einstaka sveitabæi sem stendur til að selja.

Það breytir ekki því að ég lýsi yfir fyllsta stuðningi við frv. og árna Suðureyrarhreppsbúum allra heilla í þessum hlíðum og vona að þeir eigi þar sem allra besta tíma. En ég vil beina þeirri spurningu til forseta, hvort þetta er eðlileg afgreiðsla máls.