06.04.1984
Neðri deild: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4536 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

266. mál, sala ríkisjarðarinnar Selárdals í Suðureyrarhreppi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur nú upplýst síðasta ræðumann um eðli málsins og efni. Það er óheimilt, það ég best veit, að selja slíkar jarðir án þess að samþykki Alþingis liggi fyrir. Þess vegna er frv. flutt til að freista þess að fá það samþykki. Þetta var ekki komið til fyrir fjárlagaafgreiðslu. Hefði vitaskuld verið freistað að taka heimild inn í fjárlög hefði málið verið komið svo langt þá, en það var ekki og nú er þetta niðurstaðan. Ég sé ekki að við höfum eytt löngum dýrmætum tíma í þetta mál. Ég vænti þess að það renni í gegnum þingið með eðlilegum hætti með stuðningi hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og fyrirgreiðslu, eins og hún hefur hér þegar lýst. En ástæðan er þessi: Þingið verður að samþykkja slíka heimild.