02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal vissulega ekki vera langorður. Ég vil aðeins minna á það og ítreka það, sem ég sagði hér áðan, hversu skattheimta ríkissjóðs hefur aukist af bensíni, hvort sem menn kalla það nýjar álögur eða ekki. Það eru að vísu ekki ný gjöld, en vissulega eru það nýjar og hækkaðar álögur. En nú, þegar bensínlítrinn kostar 22,90, tekur ríkið 13,20 kr. Fyrir ári, þegar bensínlítrinn kostaði 12,20 kr., var hlutur ríkisins 6,44 kr. Ég veit ekki hvað menn kalla þetta ef ekki auknar álögur.

Ég vil, virðulegi forseti, aðeins vekja athygli á því, að ég spurði hæstv. fjmrh. að því áðan úr þessum ræðustól, hvort hann væri reiðubúinn að beita sér fyrir því að álagning olíufélaganna á bensíni yrði lækkuð, ef það mætti verða til að lækka bensínverð og draga þannig úr útgjöldum almennings. Þessari spurningu var ekki svarað og vonandi hefur hæstv. ráðh. bara gleymt að svara þessari spurningu. Hann var margspurður áðan og getur auðveldlega eitthvað hafa fallið þar niður. Ég vona að hann geti svarað þessari spurningu játandi, að hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að þessi álagningarprósenta verði lækkuð.