02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er endalaust hægt að halda áfram. Hver punktur er umræðuefni út af fyrir sig og kannske stórmál út af fyrir sig.

Lækkun á álagningu til olíufélaganna. Ég skal ekki segja um það. Þetta heyrir nú undir viðskrh. En ég skal ræða það við hann og sjá hvort við getum ekki komið af stað könnun á því.

Ég vil taka það fram, af því að spurningin var tvíþætt, til þess að þurfa nú ekki að koma aftur og svara, að ég mun ekki standa að því að fækka olíufélögunum. Ég mundi standa að því að fjölga þeim, gera samkeppnina enn þá meiri og þau kæmu víðar við og íslenskir neytendur hefðu miklu meira úrval af brennsluefni á farartæki en þeir hafa núna. (EG: Hún er hörð, samkeppnin á milli olíufélaganna, hæstv. ráðh.) Þetta er mitt mat. Ég er spurður og ég svara. En ég vil bara benda á auknar kvaðir, ef hv. þm. er að hlusta, sem Alþingi samþykkti hér, ég held að það hafi verið á síðasta ári, á olíufélögin, þar sem samþykkt var að auka verulega eldsneytisbirgðir í landinu vegna þátttöku okkar í alþjóðasamskiptum út af neyðarbirgðahaldi. Þær samþykktir hafa líka lagt auknar kvaðir á olíufélögin, sem kosta aukin útgjöld, bæði í vaxtagreiðslum og á margan annan hátt, þannig að ég efast um að öll þessi hækkun, sem olíufélögin hafa nú fengið, sé eingöngu vegna umferðarinnar. Olíufélögin eru með á sínum herðum sömu kvaðir og hjá stórþjóðum, olíubirgðahaldið í heild í landinu vegna öryggisástæðna.