09.04.1984
Efri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4542 í B-deild Alþingistíðinda. (3903)

261. mál, lyfjalög

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það er laukrétt sem fram kom hjá hæstv. ráðh. að frv. í líkri mynd hefur komið hér fram áður. Það er í sambandi við 2. gr. frv. sem ég vildi víkja að örfáum orðum. Fram hefur komið á undanförnum árum að nokkur ágreiningur er um það hvernig fara skuli með sölu á vítamínum. Ég hygg að það sé rétt að víðast hvar erlendis er miklu meira frjálsræði í meðferð þess varnings en er hér á landi. Nú er ég ekki með því að segja að nauðsynlegt sé að taka slíkt form óbreytt upp hér. En ég geri ráð fyrir því að ekki síst þessi grein komi mjög til skoðunar í heilbr.- og trn. og í því sambandi er hægt að vitna til þeirra umr. sem áður hafa orðið í umræddri nefnd.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að síðasti málsliðurinn verði felldur niður og er það að sjálfsögðu til bóta. sannleikurinn er sá að eins og frv. liggur fyrir, að vísu með þessum síðasta málslið inni, er nánast gefið undir fótinn með það að meira að segja blessað lýsið okkar fari inn í apótekin og þar verði það selt með 75% álagningu. En hér mun verða breyting á.

Það er annað sem ég vildi víkja að örfáum orðum. Það er varðandi lyfjanefndina. Því miður var ég ekki genginn í salinn þegar hæstv. ráðh. talaði um 12. gr. en þar er vikið að lyfjanefndinni. Það má vel vera að sá háttur sem hér er gert ráð fyrir að verði á hafður, þ. e. að ráðh. skipi formanninn, síðan verði aðrir nefndarmenn valdir af ráðh. nánast og formanninum, sé heppilegt fyrirkomulag. Ég skil það á þá lund að þessi háttur verði á hafður ekki síst til að reyna að stuðla að því að þessi nefnd verði miklu virkari í sínum störfum en hingað til hefur verið. En allt mun þetta koma til skoðunar í nefndinni og er í sjálfu sér ekki ástæða fyrir mig að hafa um það fleiri orð.

Ég hef ekki að sinni fleiri athugasemdir fram að færa við aðrar greinar. Ég tel frv. í heild sinni fremur til bóta og hef ekki um það fleiri orð.