09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (3920)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. í Nd. um frv. til l. um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum. Nái. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórnarandstaðan óskaði eindregið eftir því að Alþingi yrði kallað saman s. l. sumar til að fjalla um efnahagsmál. Því var ekki sinnt. Úr því að leið brbl. var farin var það lýðræðisleg skylda ríkisstj. að láta taka þau til umr. um leið og þing kom saman í okt. s. l. Nú eru liðnir rúmir tíu mánuðir síðan þessi lög tóku gildi. Það eru liðnir sex mánuðir síðan þingið kom saman og fjórir mánuðir síðan Ed. Alþingis lauk meðferð sinni á málinu. Alþm. sitja frammi fyrir löngu gerðum hlut. Þetta frv. fjallar m. a. um skattgreiðslur á árinu 1983 vegna tekna sem aflað var á árinu 1982. Þessi málsmeðferð er með öllu óverjandi.

Í fskj. með frv. stendur að brbl. hafi verið sett til að „vernda hag þeirra sem við lökust kjör búa“. Í minnihlutaáliti fjh.- og viðskn. Ed. frá 17. nóv. s. l. er bent á að skattalagabreyting frv. hafi áhrif á skattgreiðslur flestra annarra en þeirra sem við lökust kjör búa. Aðrar breytingar frv., svo sem á greiðslum almannatrygginga, eru ófullnægjandi með tilliti til þess hversu gífurleg kjaraskerðing hefur orðið síðan í júní.

Með hliðsjón af framansögðu um afgreiðslu og innihald þessa frv. mun minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. ekki taka þátt í afgreiðslu þess.

Guðrún Agnarsdóttir, þm. Samtaka um kvennalista, er samþykk þessu áliti minni hl. n.

Alþingi, 9. apríl 1984.“

Undir þetta rita Guðmundur Einarsson, Svavar Gestsson og Kjartan Jóhannsson.

Þetta er sem sagt gamall kunningi sem við sáum hérna á síðasta ári. Það er fróðlegt að rifja upp ýmislegt sem kom fram þá. Þá gerðu menn m. a. að umræðuefni þær breytingar á persónuafslætti sem frv. gerir ráð fyrir. Það eru hvorki meira né minna en 1400 kr. fyrir hvern mann. 1400 kr. á heilu ári eru 120 kr. tæpar á mánuði það ár. Ef við tökum fyrir þó ekki væri nema einungis þá mánuði ársins sem eftir lifðu þegar lögin voru sett eru þetta 200 kr. á mánuði til ársloka 1983. Miðað við 12 þús. kr. mánaðarlaun samsvarar þetta rúmlega 1% í lækkun mánaðarlauna á þeim tíma. Þetta gerist á sama tíma og það er óumdeilt að kjör fólks voru skert um líklega 25%.

Þetta er um persónuafsláttinn að segja. Í ofanálag er bent rækilega á það í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. að breytingin á persónuafslætti nær alls ekki til þeirra sem lökust höfðu kjörin. Um þetta voru sýnd dæmi í nál. og það er öllum kunnugt. Þetta voru nú herlegheitin sem fólki var boðið upp á á þessu herrans ári.

Það má líka líta á ýmsar þær breytingar sem lagðar voru til á tryggingabótum. Það er í raun sömu sögu að segja um þær, að þær hækkanir voru svo sáralitlar í ljósi hinnar stórkostlegu skerðingar lífskjara að það er spurning hvort menn geti borið höfuðið sæmilega hátt eftir að hafa staðið að því að bera fram svona mál og samþykkja það.

Hins vegar vekur nafn þessa frv., frv. til l. um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum, menn til umhugsunar um hvort það sé kannske ástæða til að fara að hyggja að einhverju svipuðu aftur. Þær lausafregnir sem okkur berast nú úr stjórnarherbúðum um aðferðir til „gatífyllingar“ benda til þess að menn ættu kannske að fara að huga að því annan umganginn að vernda lífskjör í þessu landi og reyna þá að finna til þess leiðir sem séu varanlegar og skipta einhverju máli. g held að það væri kannske öllu merkilegra verkefni fyrir þing og ríkisstj. að fjalla um verndun lífskjara í framtíðinni frekar en vera að tala hér um tíu mánaða gamalt mál.