09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4572 í B-deild Alþingistíðinda. (3936)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki sett mig sérstaklega inn í það mál sem hér var mælt fyrir, sölu þessarar tilteknu kristfjárjarðar, Ytra-Vallholts í Seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu, en ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að vekja athygli á því að staða kristfjárjarða er að ég best veit með mjög sérstökum hætti hvað snertir umráð og tilgang með stofnun þeirra á sinni tíð. Ég er dálítið kunnugur þessu máli vegna lagafrv. sem afgreitt var sem lög vorið 1982 frá hv. Alþingi í tengslum við fyrirhugaða kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. En svo vill til að þær þrjár jarðir sem tengjast athafnasvæði fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju voru einmitt kristfjárjarðir sem var ánafnað í því skyni einhvern tíma fyrir árið 1367, en gjafabréf vegna þeirra jarða er nú glatað.

Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þingnefndar og hv. þingdeildar á því að um þetta mál var fjallað á þessum tíma, og er þó staða þessara jarða nokkuð önnur en þeirrar jarðar sem hér er lagt til að seld verði tilteknum aðila.

Munurinn er kannske sérstaklega sá að söluheimild var veitt skv. 4. gr. laga um kísilmálmverksmiðju frá árinu 1982, eins og segir í 4. gr. orðrétt, með leyfi forseta:

„Í sambandi við stofnun hlutafélags skv. 1. gr. er landbrh. fyrir hönd ríkissjóðs og hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps, hreppsnefnd Helgustaðahrepps og bæjarstjórn Eskifjarðarkaupstaðar sem umráða- og hagsmunaaðilum heimilt að selja ríkissjóði kristfjárjarðirnar Sómastaði, Sómastaðagerði og Framnes í Reyðarfjarðarhreppi. Andvirði hinna seldu jarða skal varið til félagslegra framkvæmda í Reyðarfjarðarhreppi, Helgustaðahreppi . og Eskifjarðarkaupstað. Ráðstöfun söluandvirðis skal háð samþykki félmrn. og ráðstöfun söluandvirðis skal vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa.“

Í athugasemdum við þessa frvgr., sem eru allítarlegar, er vikið að því sem vitað er um stofnun þessara jarða sem kristfjárjarða. En eins og ég gat um er gjafabréfið glatað og hið helsta sem vitað er um er að jarðirnar voru orðnar kristfjárjarðir fyrir árið 1367. Síðan segir um þetta í athugasemdunum:

„Umráð kristfjárjarðanna Sómastaða og Sómastaðagerðis höfðu frá ómunatíð verið í höndum prestsins á Hólmum við Reyðarfjörð. Með breyttri þjóðfélagsskipan færðust þessi umráð snemma á öldinni til ríkisins en fram til ársins 1960 var afgjaldinu skipt milli umræddra hreppa til að létta fátækraframfærsluna. Engin afgjöld hafa verið innheimt fyrir jarðirnar síðasta áratuginn. Stjórnarráðið, nánar tiltekið landbrn., hefur með hendi umsjá kirkjujarða annarra en prestssetra. Því er eðlilegt að líta svo á að umráðin, sem frá ómunatíð höfðu verið í hendi kirkjunnar, séu nú réttilega í höndum landbrn. Sveitarstjórnirnar hafa hins vegar ríkra hagsmuna að gæta af sölunni og því þykir eðlilegt að þær komi fram sem hagsmunaaðilar við söluna ásamt landbrh. sem seljanda. Samhliða því að heimild er veitt til sölunnar er fjmrh. veitt heimild til að kaupa jarðirnar. Ábúendur jarðanna eru eigendur mannvirkja og ræktunar. Þar sem nábýli við verksmiðjuna torveldar búskap á jörðunum er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs veitt heimild til að kaupa eignir ábúenda þannig að þeir geti komið sér fyrir á nýjum stað og verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna verksmiðjuframkvæmdanna.“

Síðan er gert ráð fyrir því í því framhaldi að ríkissjóður leigi hlutafélaginu Kísilmálmvinnslunni hf. nauðsynlegt jarðnæði fyrir verksmiðjureksturinn. Fyrirtækið verði ekki eigandi heldur ríkissjóður sem leigir verksmiðjunni aðstöðu.

Mikið var unnið á vegum iðnrn. að athugun þessa máls í samvinnu við sveitarstjórnirnar í umræddum þremur hreppum og liggja því fyrir í iðnrn. veruleg gögn varðandi stöðu kristfjárjarða og lögfræðileg skoðun þess máls unnin af Halldóri Kristjánssyni lögfræðingi ásamt fleirum sem hann leitaði til.

Ég tel að hér sé um mjög athyglisvert lögfræðilegt atriði að ræða fyrir utan almenna stöðu og tilurð kristfjárjarða og hvet eindregið til þess að vel sé farið ofan í þessi efni í tengslum við athugun á því frv. sem hér er til umr. Hér var einmitt vitnað til þess, eins og stendur í gjafabréfi Þórðar Þorlákssonar biskups, að jörðin sé gefin til að vera ævinlegt kristfé þaðan í frá. Menn vitna oft í sambandi við eignar- og umráðarétt til stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar sem ýmsir vilja túlka mjög þröngt. Ég er ekki í hópi þeirra, síst þegar um almannaheill og almannarétt er að ræða. En ég spyr: Hvar kemur inn réttur kristjarða og Kristsbónda í sambandi við ákvæði stjórnarskrárinnar? Er ekki vert að menn velti því fyrir sér og taki það til athugunar í sambandi við meðferð þessa máls?

Ég hef enga mótaða skoðun hér og nú varðandi afgreiðslu þessa fyrirliggjandi frv. Ég tel þetta fyrst og fremst vera mátefni sem þörf sé að fara ofan í með tilliti til fordæmis, þeirrar ráðstöfunar sem gerð hefur verið á kristfjárjörðum undanfarið eða það sem menn hafa heimildir til og hvernig menn meta stöðu kristfjárjarða með tilliti til þeirra, sem enn halda gildi sínu sem slíkar, varðandi afgjöld og ráðstöfun afgjalds, hvernig er staða þeirra m. a. með tilliti til viðhorfa manna til eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar.