10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4574 í B-deild Alþingistíðinda. (3939)

439. mál, innheimta tekjuskatts

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 426 ber hv. 2. landsk. þm. fram fsp. sem hún hefur þegar kynnt. Svör mín eru svohljóðandi:

Upplýsingar þær sem fyrirspyrjandi biður um í 1. lið eru ekki fyrir hendi sundurliðaðar með þeim hætti sem beðið er um og þeirra verður ekki aflað nema með mjög tímafrekum og kostnaðarsömum hætti. Ástæðan að baki því er sú, að í tekjubókhaldskerfi ríkisins er aðeins greint á milli greiðslna frá einstaklingum, þ. e. allra einstaklinga, hvort sem þeir stunda sjálfstæðan atvinnurekstur eða ekki, og lögaðila, þ. e. félaga, að því er innheimtu tekjuskatts varðar. Kerfið byggir m. ö. o. á . sundurliðun sem skattalögin gera ráð fyrir og skattkerfið notar við álagningu. Skv. þeirri sundurliðun skiptist innheimta tekjuskatts á s. l. ári þannig, að einstaklingar greiddu tæplega 2.1 milljarð kr. eða 2 milljarða 69 millj. í tekjuskatt, en lögaðilar hins vegar tæplega 469 millj. kr., þ. e. 467.9. Samtals nam innheimta tekjuskatts á s. l. ári rúmlega 2.5 milljörðum kr.

Á sama hátt er ekki hægt að lesa úr gögnum tekjubókhaldskerfisins hve margir, sundurliðað á sama hátt og í 1. lið, greiddu tekjuskatt á árinu 1983. Umrædd sundurliðun liggur, eins og áður segir, ekki fyrir, auk þess sem ríkisbókhaldið bókar fyrst og fremst fjárhæðir greiðslna en ekki fjölda þeirra.

Hins vegar er hægt að upplýsa að fjöldi skattskyldra einstaklinga á gjaldárinu 1983 var 168 þús. 171. Tekjuskattur skv. álagningarskrá 1983 var lagður á 88 þús. 350 einstaklinga. Nam álagningin þá tæpum 1.7 milljörðum kr. Af umræddum fjölda einstaklinga voru 21066 með reiknað endurgjald skv. álagningarskrá 1983. Þar af voru 6 þús. bændur, þá bæði hjón talin. Fjöldi einstaklinga sem fengu álagt aðstöðugjald var samtals 15 688.

Af þessum tölum má fara nærri um hve margir af ofangreindum einstaklingum stunda rekstur eða sjálfstæða starfsemi. Hins vegar verður ekki ráðið, eins og áður segir, af fyrirliggjandi gögnum hve hárri fjárhæð álagður tekjuskattur á þá nam á s. l. ári.

Skattskyldir lögaðilar á álagningarskrá 1983 eru 6551. U. þ. b. þúsund aðilar á álagningarskránni hafa ekki með höndum atvinnurekstur í lengri eða skemmri tíma. Af ofangreindum fjölda lögaðila var lagður tekjuskattur á 2435 á árinu 1983, samtals að fjárhæð 457 millj. kr.