10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4580 í B-deild Alþingistíðinda. (3944)

285. mál, mengun lofts og lagar

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar sem fram koma í svari hans. Þær bera í fyrsta lagi vott um að mengun geislavirkra efna og sýring sé ekki nálægt hættumörkum og er það vissulega ánægjuefni. Hitt er áhyggjuefni að um aukningu er að ræða á geislavirkum efnum á hafsvæðum sem tengjast straumakerfinu við Ísland. Við höfum lengi talið okkur í nokkrum sérflokki varðandi mengunarmál og hælst um af hreinu vatni og tæru lofti. Það eru vissulega gæði sem við þurfum að standa mjög fast vörð um, ekki síst sem matvælaframleiðsluland og einnig í ljósi þess að lífríki á norðlægum slóðum er viðkvæmara fyrir mengun en gerist á suðlægari slóðum, þar sem ýmsar aðstæður fyrir líf eru hagstæðari.

Ég tel að brýna nauðsyn beri til þess að samræma tök íslenskra stjórnvalda á þessum málum, því að eins og kom fram í svari hæstv. ráðh. þá eru það fleiri en ein og fleiri en tvær stofnanir sem sinna þessum málum. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að samvinna milli þeirra er engan veginn með þeim hætti sem æskilegast væri. Sumar þessara stofnana, eins og t. d. Veðurstofa Ístands, hafa sinnt þessum verkefnum, sumpart með tilstyrk erlendra aðila og fyrir hvatningu erlendis frá og hafa ekki fengið sérstakt fjármagn til þess að vinna að þessum málum. Það mun gilda að ég hygg um Veðurstofu Íslands.

Siglingamálastofnun, sem ber ábyrgð á eftirliti með mengun sjávar, hefur kvartað undan því að hafa ónóg ráð til þess að fylgjast með í þessum efnum enda verið leitast við að spara í rekstri stofnunarinnar að undanförnu að ég hygg.

Ég held að við þurfum að gæta þess, jafnframt því sem fullrar hagsýni er gætt, að þrengja ekki svo að þeim aðilum sem eiga að rækja eftirlit varðandi mengun lofts og lagar að ekki sé um fullkomna upplýsingasöfnun að ræða miðað við þau tæki og tækni sem við ráðum yfir í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. nefndi það, að nú væri búið að gera áætlun um athuganir á mengun í Norðurhöfum á vegum þeirra þjóða sem standa að Oslóar-samkomulaginu og Parísar-samkomulaginu um mengun sjávar og fyrirhugað sé að Íslendingar gerist aðilar að þessu starfi. Ég fagna því vissulega að svo er og vænti þess að þær athuganir verði með þeim hætti, að Íslendingar geti haft af þeim sem fyllst gagn.

Ég nefndi í inngangsorðum mínum umhverfismál og stjórnun þeirra og fyrirhugaða löggjöf. Fyrr í vetur var hæstv. félmrh. inntur eftir því hér á þingi hvenær mætti vænta frv. til laga um umhverfismál. Það mun hafa verið í öndverðum febrúarmánuði. Hæstv. ráðh. taldi þá líklegt að frv. um þetta efni kæmi fram á þingi snemma í mars eða í öllu falli í marsmánuði. Mars er nú liðinn og kominn apríl. Ég vek athygli á þessu vegna þess að með slíkri löggjöf þarf alveg sérstaklega að taka á þeim málum sem varða mengunarmálefni og fylla í þær eyður sem eru í okkar löggjöf.

Ég vil að endingu þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og treysti honum til þess að stuðla að endurbótum á þessu sviði varðandi mengunarrannsóknir, ekki síst rannsóknir til lengri tíma þannig að Ísland fái haldið stöðu sinni sem eitt af þeim tiltölulega fáu löndum jarðar, þar sem mengun er tiltölulega lítil og undir hættumörkum. Það þarf að vera okkar takmark.