10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4581 í B-deild Alþingistíðinda. (3945)

285. mál, mengun lofts og lagar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég hef mikinn hug á því að þessi ráðuneyti bæði fylgist vel með í þessum efnum og við höfum í hyggju að eiga náið samstarf við erlend aðildarríki að þeim tveimur alþjóðasamningum sem fyrr er getið þannig að Ísland taki þátt í því verkefni sem ég ræddi um. Gera megi ráð fyrir að mælingar hér við land geti nokkuð endurspeglað hin náttúrlegu mörk mengunar í sjó. Við tökum þátt í þessu alþjóðasamstarfi. En það er hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þessar stofnanir sem hér eiga hlut að máli hafa ekki fengið nægilegt fjármagn á liðnum árum og ekki nú og eru illa settar til þess að auka starfsemi sína á þessu sviði. Við erum að vísu ólíkt betur settir í þessum efnum en þjóðir á meginlandi Evrópu en það breytir því ekki að okkur ber að halda vöku okkar og fylgjast með því sem er að gerast því að hættan er nálægt okkur þó að við séum ólíkt betur á vegi staddir en þessar þjóðir.