10.04.1984
Sameinað þing: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4597 í B-deild Alþingistíðinda. (3967)

299. mál, stefnumörkun í skólamálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það heyrist stundum kvartað yfir því í bakherbergjum hér á hv. Alþingi að heldur mikið sjáist til varamanna í þingsölum. Ég get að vissu leyti undir það tekið að hóf ber að hafa í þeim efnum eins og ýmsu öðru og ástæður verði að vera fyrir því að varamenn komi inn á Alþingi. En ég tel að þær tvær ræður sem við höfum heyrt nú í Sþ. — og á ég þá við þá framsögu sem flutt var hér áðan af hv. 4. þm. Norðurl. e. Svanfríði Jónasdóttur um sjávarútvegsmál og ræðu og till. hv. 3. þm. Reykn. Kristínar H. Tryggvadóttur nú varðandi stefnumörkun í skólamálum — færi okkur heim sanninn um það að það getur verið gott að fá inn í sali Alþingis fólk sem ekki situr hér daglega en horfir til þingsins úr þeirri aðstöðu að vera varamenn, eiga kannske kost á því einhvern tíma að skreppa hér inn fyrir dyrnar og leggja eitthvað til málanna. Ég tel að þessir hv. þm., sem hér mæltu um þessi stóru mál, sjávarútveginn og skólamálin, hafi þegar unnið fyrir þingfararkaupi sínu sem þeir munu fá fyrir setuna hér þann stutta tíma sem varaþm. staldra hér við.

Á þessu vildi ég vekja athygli, því að mér finnst það ástæðulaust að sitja undir svo góðum tölum og finna að þar er verið að taka með ferskum hætti á ýmsum málum og bornar fram hugmyndir um endurbætur án þess að undir það sé tekið hér í þinginu. slíkar hugmyndir eru vel þegnar hér í þingsölum.

Varðandi það mál sem hér er til umr., till. til þál. um stefnumörkun í skólamálum, er þar vissulega tekið á afar stórum þætti ekki síður en gert'var í hinni fyrri till. um rekstrarvanda í íslenskum sjávarútvegi. Vissulega getur verið álitamál með hvaða hætti eigi að taka á svo víðtæku máli sem þessu hversu margir eigi þar um að fjalla og hverja eigi að kveðja til. Ég þykist vita að ýmsum finnist strax að mikið sé í ráðist að kveðja til 11 menn og setja í nefnd til að fjalla um þetta en það fer ekki alltaf eftir höfðatölunni hvernig vinnst. Mestu skiptir þegar verið er að taka á málum að leitað sé til aðila sem málið varðar og geta lagt eitthvað af mörkum í þeim efnum.

Ég held að það sé fyllilega tímabært fyrir Alþingi og framkvæmdavaldið að líta til stefnumörkunar í skólamálum til lengri tíma en gert hefur verið og er okkur nú eðlilega tamt að líta til aldamótanna því að það er ártal sem minnir á sig.

Það hefur dregist úr hömlu hjá hv. Alþingi að kveða upp úr um stefnumótun í mjög veigamiklum þáttum í skólamálum landsins. Um árabil hefur það dregist. Endurskoðun grunnskólalaganna er raunverulega tímabært verkefni í ljósi 10 ára reynslu. En það hefur kannske legið hjá garði vegna þess að Alþingi hefur verið að vænta þess að geta tekið á lagasetningu varðandi framhaldsskólann sem ekki hefur tekist þrátt fyrir það að hér hafa verið sýnd frumvörp eftir frumvörp þing eftir þing um þetta efni og menn hafa ekki unnið sig fram úr því að setja löggjöf um samræmdan framhaldsskóla. Það væri illa komið ef ekki kæmi til atorka þess fólks sem er að vinna í skólunum og glímir í rauninni oft við að leysa þar málin án þess að leiðbeining liggi fyrir frá löggjafar- og framkvæmdavaldinu. Vissulega er það góðra gjalda vert að hægt sé að taka á málum án þess að lagafyrirmæli liggi fyrir. En oft verður það nokkuð sundurvirkt og vanburða ef ekki er fjármagn til staðar og leiðbeiningar til staðar til þess að eðlilegs samræmis sé gætt, þó að engan veginn þurfi þar að steypa allt í sama mótið.

Ég minni á það að ógert er að kveða upp úr um lengd skólaskyldu í landinu. Þó að grunnskólalög hafi gert ráð fyrir því að þetta væri, gert fyrir allnokkru síðan — ég man ekki árið — þá hafa menn látið nægja að velta þessu máli á undan sér ár frá ári og framlengja gildandi lög árlega. Ég á von á því að ef ekki kemur til einhver forusta núverandi ríkisstj. í þessum efnum verði það eitt af verkefnum vorsins að bæta þar við einni framlengingunni enn. Svar við spurningunni um lengd skólaskyldu í 8 ár eða 9 ár er ókomið.

Litið til framhaldsskólans er af geysimörgu að taka. Ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega en minni aðeins á það, að það er nánast með ólíkindum að við skulum ekki hafa fengið frv. um það frá hæstv. ríkisstj. nú, eftir alla þá vinnu sem í þessi mál hefur verið lögð á undanförnum árum og í ljósi þess hversu málið er brýnt. Sama gildir um háskólastigið. Það er raunverulega löngu tímabært að taka það til meðferðar í heild sinni en það er ekki einu sinni farið að fitja upp á því máli að ég best veit.

Hins vegar vil ég undirstrika að ég tel að uppbygging í skólakerfinu þurfi að gerast í þeirri röð sem menn hafa verið er að fást við frá grunnskóla og upp úr, en ekki verði farið að móta afstöðu til háskólastigsins sérstaklega og ætta síðan að færa þau viðhorf niður í framhaldsskóla og niður í grunnskóla, viðhorf sem fyrir liggja á háskólastigi. En mér finnst raunar að þess gæti nokkuð nú, að þar sé verið að reisa kröfur sem síðan eigi að færa niður eftir skólastiganum og steypa hin lægri skólastig, sem svo eru kölluð, yngri nemendur í það mót sem menn á háskólastigi óska.

Sumir kunna að segja: Er nokkru að tapa þó að þetta hafi farist fyrir? Ég tel svo vera. Ég tel að t. d. sundurvirknin í ákvörðunum um lengd námsbrauta og krafna varðandi nám til einstakra starfa sé tilfinnanleg og skaði þjóðfélagið. Ég tel að gætt hafi of mikið þeirrar tilhneigingar, sem hafi verið látið undan, að færa nám ótímabært upp á háskólastig. Ekki það að ég telji ekki fyllilega ástæðu til þess að skóla fólk sem best til starfa, en það hefur komið niður á viðkomandi starfsgreinum og starfsstéttum í ýmiss konar togstreitu. Að baki liggja ekki alltaf fagleg viðhorf eða spurningin um hvaða menntunarkröfur eigi að gera heldur finnst viðkomandi hópum sem þeir fái betri stöðu til að leiðrétta kjör sín ef fyllri menntunar sé krafist. Hjúkrunarnámið er lýsandi dæmi um sundurvirkni í þessum efnum og skal ég þó ekki leggja neitt endanlegt mat á það hvaða kröfur beri að gera til einstakra þátta í því efni.

Herra forseti. Ég vildi svo að endingu vekja athygli á því að í skólamálum og aðbúnaði skóla sem og á öðrum sviðum í þjóðfélaginu er ólíku saman að jafna varðandi aðstöðu þessa stóra þéttbýlis hér á suðvesturhorni landsins og dreifbýlisins. Eitt af brýnum verkefnum í skólamálum er að leiðrétta og vinna gegn því misvægi sem er að finna í ýmsum greinum skólastarfs og aðbúnaðar skóla úti í hinum dreifðu byggðum.

Ég bendi t. d. á nauðsynlegar breytingar á grunnskólalögum sem þarf að ganga frá að mínu mati fyrr en seinna og varða stuðningsaðila við skólastarf úti í landshlutunum, m. a. sálfræðinga og félagsráðgjafa sem ráðnir hafa verið á grundvelli grunnskólalaga. Þar er það höfðatalan sem skammtar en ekki vinnusvæði viðkomandi aðila. Það er fáránlegt og fjarstæða að miða við sömu höfðatölu varðandi heimildir og réttindi til að ráða slíkt fólk til starfa, annars vegar hér í Reykjavík og hins vegar úti í hinum dreifðu byggðum landsins. Það er eitt af brýnum málum sem á þarf að taka.

Ég tek hins vegar undir það að lokum með hv. flm. þessarar till. að mikil nauðsyn er á að horft sé til heildarinnar þegar verið er að vinna að einstökum breytingum í skólastarfi og því þarf bæði löggjöf og framkvæmd í skólum að vera í endurskoðun, helst stöðugri endurskoðun. Við skulum minnast þess að það eru ekki síst þeir sem verkin vinna og þeir sem næst eru þeim sem skólana sækja, þ. e. kennararnir sem starfsmenn og foreldrarnir, sem geta lagt mikið af mörkum í þessum efnum. Því er það ofur eðlilegt sem hv. flm. leggur til að þeir verði kvaddir til verka í sambandi við stefnumörkun af því tagi sem till. gerir ráð fyrir.