10.04.1984
Sameinað þing: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4599 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. á þskj. 4, um gerð frv. um framkvæmd byggðastefnu. Till. þessi er flutt af hv. 8. þm. Reykv. Stefáni Benediktssyni og þremur öðrum hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna. Till. þessi felur það í sér að skipuð verði nefnd til að semja frv. til l. um framkvæmd byggðastefnu og síðan eru talin upp eftirtalin atriði sem eigi að vera meðal efnis í þessu frv.:

1. Byggða- og áætlanadeild núverandi Framkvæmdastofnunar ríkisins verði sjálfstæð stofnun undir umsjón félmrn.

2. Starf byggða- og áætlanadeildar verði tengt skipulagsstarfi á vegum Skipulags ríkisins og sveitarfélaga með löggjöf.

3. Starfssvið byggða- og áætlanadeildar verði skýrt afmarkað sem og gerð byggðaáætlana.

4. Lánadeild og stjórn Framkvæmdastofnunar hætti störfum.

5. Alþingi ákvarði, þegar eftir því er leitað, upphæðir á fjárlögum til einstakra byggðaáætlana.

Nefndin leitaði umsagna nokkurra aðila um þessa till. Ég vil geta niðurstöðu úr þessum umsögnum. Það er í fyrsta lagi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Þar var lagst gegn því að þáltill. þessi næði fram að ganga. Var talið rétt að bíða eftir niðurstöðum af starfi nefndar sem nú er að störfum á vegum ríkisstj. til að endurskoða tilvist og verksvið Framkvæmdastofnunar ríkisins. Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi taldi ekki tímabært að gefa umsögn um einstök frumvörp, eins og þar stendur, um framkvæmd byggðastefnu á meðan ekki væri lokið þeirri endurskoðun á Framkvæmdastofnun og þar með byggða- og áætlanadeild sem nú sé í gangi. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum taldi að framkvæmd byggðastefnu undanfarin ár hefði verulega raskað æskilegri dreifingu fjármagns um landsbyggðina til hins verra og taldi því æskilegt að gera breytingar á. Hins vegar var stjórnin ekki tilbúin að lýsa yfir stuðningi við einstök þmfrv., eins og það er þar orðað, um breytingar en telur að um málið verði að takast víðtækt samstarf með hagsmuni allra landsmanna fyrir augum.

Samband ísl. sveitarfélaga taldi þær hugmyndir sem fram koma í liðum 1–3 í tillögunni athyglisverðar og mælti með samþykkt tillögunar að því er þá töluliði varðar en benti á varðandi liði 4 og 5 að þá væru skiptar skoðanir innan stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og því ekki ályktað beint um þau efnisatriði.

Skipulag ríkisins var meðmælt því að umrædd þáltill. næði fram að ganga og taldi skynsamlegt að taka þessi þýðingarmiklu mál til endurskoðunar í heild en vildi ekki taka afstöðu til þess hvort hyggilegt væri að leggja Byggðasjóð og Framkvæmdastofnun niður í núverandi mynd.

Eins og fram kemur í sumum þessara umsagna hefur á vegum hæstv. ríkisstj. verið starfandi nefnd frá því í ágúst 1983 til að endurskoða lög um Framkvæmdastofnun ríkisins. Sú nefnd hefur verið að störfum og mun að sögn formanns nefndarinnar skila tillögum til ríkisstj. innan skamms.

Innan atvmn. voru skiptar skoðanir um efni þessarar till., þ. e. um þau efnisatriði sem áskilið var að yrðu felld inn í frv. Hins vegar var nefndin sammála því að efni þessarar till. kæmi til athugunar í sambandi við tillögugerð ríkisstj. um mál þetta og leggur nefndin því til að till. verði vísað til ríkisstj. Um þetta var samstaða í nefndinni. Einn nm., hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem ég sé að ekki er hér, skrifaði undir með fyrirvara. Hann tjáði mér að sá fyrirvari sinn byggðist á því að hann teldi óeðlilegt að nefndin væri skipuð á þann veg sem hún er, þ. e. að annar af framkvæmdastjórum Framkvæmdastofnunar ríkisins skyldi vera formaður þessarar nefndar. Mér þykir rétt að koma því hér á framfæri þar sem hann á væntanlega ekki kost á að gera grein fyrir þessum fyrirvara sínum þar sem hann er hér ekki staddur á þessu augnabliki.