11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4611 í B-deild Alþingistíðinda. (3977)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tel að það sé mjög tímabært að taka á því máli sem þetta frv. fjallar um og minni á að þessi mál hafa verið til umr. almennt í þjóðfélaginu og meðal hagsmunasamtaka í áraraðir. Á árunum 1974–75 var ég einmitt í nefnd til að endurskoða þetta mál. Þá var núv. hæstv. samgrh. einnig samgrh. Því miður tókst ekki að ljúka gerð þeirrar endurskoðunar þá og þeir sem á eftir honum komu höfðu ekki burði til að halda henni áfram eða flytja frv. um málið. Því fagna ég því að þetta er nú komið upp á borð hjá Alþingi og þakka það frumkvæði sem hér er á ferðinni.

Hitt er annað að ég hygg að vel þurfi að huga að því hvers vegna þessar undanþágur eru tilkomnar. Ég fel að það sé m. a. vegna þess að kjör manna á t. d. fiskiskipum hafi ekki verið svo eftirsóknarverð eða aðbúnaður annar. Ég mótmæli því sem kom fram hér hjá hv. síðasta ræðumanni að það séu tengsl á milli slysatíðni og undanþága.. Ég tel að það þurfi að rannsaka það frekar áður en fullyrðingar koma upp um það og tel óeðlilegt að setja fram getgátur um slíkt án þess að rannsókn hafi farið fram. Nauðsynlegt er að tryggja atvinnuréttindi skipstjórnarmanna af mörgum ástæðum og það verður að vera kappsmál Íslendinga að hafa sem hæfasta skipstjórnarmenn hverju sinni til að sinna þeim verkefnum sem fyrir eru á fiskiskipaflotanum og annars staðar.