11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4612 í B-deild Alþingistíðinda. (3979)

302. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. á að leysa af hólmi gildandi lög frá 13. maí 1966, um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum. Frv. er unnið á vegum samgrn. í nefnd þar sem áttu sæti fulltrúar frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, vegna kaupskipaútgerðar, Landssambandi ísl. útgerðarmanna og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, en formaður var skipaður án tilnefningar.

Frv. er í eðli sínu náskylt frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, sem var lagt fyrir áðan.

Árið 1966 gengu í gildi lög um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum, sem höfðu í för með sér talsverðar breytingar frá þeim lagaákvæðum sem áður höfðu gilt um það efni. Stóð efni hinna nýju laga í nánu sambandi við efni nýrra laga um vélstjóranám, sem einnig tóku gildi um sama leyti. Um aðdraganda þeirra laga vísast til ítarlegra greinargerða sem fylgdu viðkomandi frv. á sínum tíma.

Á þeim tíma, sem liðinn er síðan framangreind lög voru sett, hafa orðið margvíslegar breytingar á því atvinnusviði, sem hér um ræðir, m. a. vegna örrar tækniþróunar, sem í reynd skapar nýjar eða breyttar kröfur um kunnáttu, hæfni og starfsemi þeirra manna sem bera eiga ábyrgð á vélum skipa.

Í því frv. um atvinnuréttindi, sem hér liggur fyrir, er leitast við að koma til móts við þessar breyttu þarfir, auk þess sem með frv. er ætlað að einfalda mjög gildandi reglur um þetta efni. Það var hins vegar ekki hlutverk þeirrar nefndar að gera tillögur um breytta tilhögun á vélstjóranámi almennt, en nefndin vill þó koma á framfæri þeim ábendingum að það verði gert hið fyrsta og þá þannig að haft verði mið af ákvæðum þessa frv., ef það verður að lögum.

Hvað varðar efni frv. skal einkum vísað til skýringa með einstökum greinum þess, en þó skulu hér áréttuð örfá meginatriði:

1. Ákvæði frv. eru að miklum mun einfaldari en er að gildandi lögum og efnisskipan þess jafnframt skýrari og aðgengilegri. Í frv. er m. a. almennt ekki gerður greinarmunur á tegundum skipa, svo sem hins vegar er gert í gildandi lögum.

2. Ákvæði frv. um fjölda vélstjóra og vélavarða fela í sér meðaltalsreglur, sem nefndin telur æskilegar og reyndar nauðsynlegar í flestum tilvikum. Ljóst er þó að í lögum verður að gæða þessar reglur nokkrum sveigjanleika vegna óhjákvæmilegra aðstæðna, enda örðugt eða jafnvel ógerlegt að setja reglur sem hentað geti jafn vel fyrir öll skip, hvort sem þau eru ný eða gömul, hvert sem verkefni þeirra er. Er því mönnunarnefnd ætlað að leyfa frávik frá meginreglunni, ef sérstakar ástæður krefjast þess eða réttlæta það.

3. Miðað er við að færri sérfróða menn þurfi til starfa í vélarrúmi nú miðað við það sem áður var. Þetta leiðir m. a. af tölvuvæðingu og hinni auknu sjálfvirkni sem orðið hefur í vélbúnaði á síðustu árum, auk þess sem stjórntök véla hafa í auknum mæli færst úr vélarrúmi yfir til stjórnpalls skips. Notkun svokallaðrar skiptiskrúfu í stærri skipum hefur einnig leitt til einföldunar á vélstjórn.

4. Með frv. er miðað að því að mjög verði dregið úr undanþágum frá lögmæltum kröfum til atvinnuréttinda vélstjóra. Nefndin telur að óæskilegt sé að mikið kveði að þess háttar undanþágum, en þær hafa verið mjög tíðkaðar, eins og ég sagði áðan, á mörgum undanförnum árum, einkum á fiskiskipaflotanum. Það er því lagt til að dregið verði nokkuð úr kröfum til hinna lægri réttinda með það að markmiði að tryggt verði að allir þeir, sem við vélstjórn fást, hafi fengið einhverja lágmarksnámsþjálfun og þarf þá að sjá til þess að námi og kennslu verði í framtíðinni hagað til samræmis við þetta.

Aðalbreytingarnar í þessu frv. frá gildandi lögum eru þessar í mjög stuttu máli:

1. Samkv. frv. eru reglur um útgáfu skírteina mjög einfaldaðar þar sem þeim er nú fækkað úr 18 í 6. Gildandi lög hafa reynst frekar flókin í framkvæmd og stefna þessi lög mjög til bóta.

2. Greinarmunur á fiskiskipum, farþegaskipum og flutningaskipum er felldur niður í sambandi við réttindamörk og reynslutíma.

3. Hjá skipum með 102–300 hestafla vél er ekki skylt að hafa vélstjóra, heldur vélavörð, sem þarf mun skemmri námstíma en vélstjóri.

4. Á skipum með 300–1019 hestafla vél þarf skv. frv. einn vélstjóra og einn vélavörð í stað tveggja vélstjóra.

5. Á skipum með 1020–2038 hestafla vél þarf skv. frv. tvo vélstjóra, en á farþega- og flutningaskipum með vél yfir 1766 hestöfl þarf auk þess vélavörð eða aðstoðarmann í stað þriggja til fjögurra vélstjóra skv. gildandi lögum.

6. Á skipum með stærri vél en 2038 hestöfl skal hafa þrjá vélstjóra og á farþega- og flutningaskipum auk þess vélavörð eða aðstoðarmann.

7. Í 5. gr. er nýmæli um sérstaka undanþágunefnd, sem veitir undanþágur ef ástæða þykir til, en synjunarúrskurðum hennar má skjóta til ráðherra. Í 2. mgr. er heimild fyrir ráðh. að ákveða með reglugerð gjald fyrir veittar undanþágur, sem renna skuli í sjóð til að veita lán eða styrki til undanþáguhafa sem fara í nám til öflunar starfsréttinda. Benda má á að skv. frv. hlýtur undanþáguveitingum að stórfækka, en fjöldi þeirra stafar af úreltum lagaákvæðum sem miðuð eru við allt aðrar aðstæður en nú eru með mikilli tækniþróun á þessu sviði.

8. Í 6. gr. frv. eru ákvæði um mönnunarnefnd, sem hefur heimild til að ákveða frávik um fjölda vélavarða og vélstjóra ef ástæða þykir til.

Um einstaka greinar frv. umfram það sem að framan greinir vísa ég til grg. sem fylgir frv.

Ég legg áherslu á að þetta frv., eins og hið fyrra sem ég mætti fyrir, fái afgreiðslu á þessu þingi vegna þess erfiða ástands sem er varðandi undanþágur. Hér er búið að vinna langan tíma, eins og að fyrra frv., til þess að reyna að ná sæmilegu eða nokkuð góðu samkomulagi. Vona ég að sú nefnd sem fær þetta frv. einnig til meðferðar geri sitt besta til að hraða sem kostur er afgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.