02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

11. mál, launamál

Gunnar G. Schram:

Hæstv. forseti. Hér í deild hefur undanfarna daga staðið löng umr. um brbl. ríkisstj. um launamál sem hér liggja nú fyrir til staðfestingar. Það er orðin löng umr. eins og ég sagði og ég ætla mér ekki að lengja hana úr hófi fram en vildi þó segja nokkur orð um þau atriði þessa máls sem ég tel að mestu máli skipti.

Þegar núv. ríkisstj. tók við stjórnartaumunum í maílok var öllum ljóst að gera varð róttækar ráðstafanir í íslensku efnahagslífi. Um það voru allir flokkar sammála og á það lögðu þeir allir megináherslu í kosningabaráttunni. Einn flokkurinn sem nú er í stjórnarandstöðu gekk m.a.s. svo langt að lýsa því yfir að gera þyrfti sérstaka neyðaráætlun til fjögurra ára til þess að koma þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl. Sú till. olli nokkru fjaðrafoki og gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðunnar sem þá var, þegar hún kom fram, en ég held að hún hafi falið í sér raunhæft mat á því hvernig ástandið var orðið, enda sett fram af þeim mönnum sem einna best var kunnugt um ástand þjóðmála þá eftir langa, áralanga setu í ríkisstj.

Um markmiðin voru á þeim tíma, í kosningabaráttunni hér í vor, allir flokkar sammála. Deilan stendur hins vegar um það hvort þær ráðstafanir sem gripið var til í sumarbyrjun hafi reynst líklegar til þess að ná árangri og hvort lagt hafi verið í of mikinn fórnarkostnað við framkvæmd þeirra. Hér er meginspurningin sú hvort unnt hefði verið að vinna bug á verðbólgunni án þess að taka vísitöluna úr sambandi og skerða kjör launþega í landinu í verulegum mæli um nokkurt skeið.

Við þessari spurningu gaf ríkisstj. sitt svar og það svar þekkja menn. Hún taldi ekki annarra kosta völ en að fara þá leið sem þetta frv. ber með sér. Þar er um að ræða leið sem aðrar þjóðir hafa farið og þar hefur borið góðan árangur þótt við mun minni erfiðleika væri að etja en hér á landi. Má þar minna sérstaklega á aðgerðir Dana á síðasta ári og þær ráðstafanir sem ríkisstjórn Noregs og Hollands hafa einnig gripið til við svipaðar kringumstæður. Þegar þessi úrræði sæta nú harðri gagnrýni er ekki nema eðlilegt að spurt sé hvaða aðrar leiðir komu til greina sem árangri hefðu náð í sama mæli. Og þá er eðlilegt að spurt sé: Hvar voru úrræði og tillögur stjórnarandstöðunnar núv. um lausn þessa mikla vanda? Þau úrræði sáu aldrei dagsins ljós, engin samstaða var um lausn vandans, engar ábendingar um heildarlausn vanda íslensks efnahagslífs sem að gagni mættu koma. Ég vil taka það fram að það var ekki vegna þess að góðan vilja skorti, um hann held ég að þurfi ekki að efast, hann var fyrir hendi, en það var einfaldlega það að samstaða náðist ekki um aðgerðir. Og þar af leiðandi var það aðgerðaleysið sem uppi stóð.

Það er auðvelt verk að gagnrýna en sú gagnrýni verður ekki ýkja frúverðug þegar hún kemur frá þeim stjórnmálaflokkum sem sjálfir höfðu setið í þrjú ár við völd en enga lausn þó fundið út úr ógöngunum, eins og ég vék hér að. Þegar menn reyna að vega það og meta hvort ráðstafanir ríkisstj. nú í efnahagsmálum hafi verið skynsamlegar eða óskynsamlegar er óhjákvæmilegt í því sambandi að líta á það hvern árangur þær hafa borið. Að vísu eru ekki nema fimm mánuðir liðnir síðan þeim var fyrst ýtt úr vör og það er ekki langur tími til árangurs í jafnviðamiklum og erfiðum málum. Engu að síður er fróðlegt að sjá hverju hefur fengist áorkað á þessum stutta tíma sem liðinn er.

Lítið fyrst á verðbólguna sem er mál allra mála í þessum umr. og í stjórnmálaumræðu í þjóðfélaginu á liðnum mánuðum og reyndar misserum. Allir flokkar hafa lýst yfir því að meginmarkmið þeirra sé að koma verðbólgunni á kné þar sem hún sé óumdeilanlega mesti bölvaldurinn í íslensku efnahagslífi. Í upphafi sumars var, eins og öllum er kunnugt, árshraði hennar rúmlega 130%.Nú er sambærileg tala 100 prósentustigum lægri. Hér er um svo mikil umskipti að ræða að jafnvel áköfustu fylgismenn stjórnarflokkanna, ríkisstj., hefðu látið segja sér þau tvisvar á liðnu vori. Nokkru áður höfðu verkalýðssamtökin sent frá sér ályktun þar sem áhersla var lögð á að meginverkefnið væri að dr aga úr verðbólgunni. Ég minni í því sambandi á ályktun sambandsstjórnar Verkamannasambands Íslands, sem gerð var hér á síðasta vetri, 22. febr. Með leyfi herra forseta stendur þar orðrétt:

„Sambandsstjórn Verkamannasambands Íslands telur að sú mikla verðbólga sem geisar í íslensku þjóðfélagi ógni atvinnuöryggi allrar alþýðu í landinu og telur það augljósa hagsmuni alls verkafólks að með sameiginlegu átaki takist þjóðinni að færa verðbólguna niður þannig að hún verði ekki meiri en hjá öðrum nálægum þjóðum.“

Hér er mjög skynsamlega mælt. Og ekki mundi ég vilja mæla gegn einu einasta orði í þessari ályktun. Hér er tekið karlmannlega og viturlega á kjarna málsins. Þessa ályktun Verkamannasambandsins frá því í febr. í vetur túlkaði síðan forseti ASÍ, Ásmundur Stefánsson, í fjölmiðlum, m.a. í sjónvarpsumræðum á þá lund að fyrir hver tíu stig sem verðbólgan lækkaði mætti meta þann áfanga sem tveggja vísitölustiga kjarabót. Það var hans mat og ég hygg að hér sé kannske ekkert of í lagt þó vitanlega geti menn alltaf haft mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að meta árangurinn í baráttunni við verðbólguna í tölum. En tvö stig fyrir hverja tíu verðbólgustiga minnkun. Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða. En mér hefur heyrst í þessum umr., sem eru nú orðnar langar og kannske dálítið leiðinlegar, um þetta mál hér í deild að menn hafi sumir hverjir gleymt þessari ályktun og þeim merka boðskap sem í henni fólst og felst, því hún hefur ekki verið höfð hér mjög á oddi. En vitanlega er inntak hennar jafnrétt nú eins og á nýbyrjuðu vori, um það þarf enginn að efast.

Í öðru lagi voru menn almennt sammála um það fyrir hálfu ári að stórfellt atvinnuleysi vofði yfir, ef ekki væri gripið til nýrra ráðstafana í efnahagsmálum, og slíkar ráðstafanir voru gerðar. Afleiðing efnahagsráðstafananna er sú að tekist hefur — a.m.k. enn sem komið er, hvað sem verða mun síðar á vetrinum — að halda fullri atvinnu í þjóðfélaginu þrátt fyrir verulegan aflabrest og samdrátt á ýmsum sviðum. Efnahagsráðstafanir hafa því ekki leitt til atvinnuleysis, svo sem haldið var fram, heldur þvert á móti komið í veg fyrir það. Þær hafa styrkt íslenskt atvinnulíf, svo sem glögglega hefur verið undirstrikað af forustumönnum atvinnuveganna, nú síðast íslensks iðnaðar í ræðu formanns Landssambands ísi. iðnaðarmanna, en ársþing þess var haldið nú fyrir rúmlega viku. Og þá kom þetta mat formannsins glöggt fram. Þáttur í því dæmi er að um gengisfellingar hefur ekki verið að ræða á tímabilinu, fyrir utan þá sem framkvæmd var í upphafi, svo að hækkanir á verði innfluttrar vöru, sem áður voru daglegt brauð, eru nú að mestu úr sögunni.

Í þriðja lagi skulum við líta á vextina. Þeir hafa nú lækkað um 10% á einum mánuði, eða u.þ.b. um fjórðung. Þetta er ekki aðeins meginmál fyrir alla húsbyggjendur í landinu, heldur einnig fyrir atvinnureksturinn almennt, eins og alkunna er, sem undan vaxtabyrðunum var að sligast. Því verður ekki með rökum móti mælt að hér er um verulegan árangur að ræða á þessu stutta tímabili og í fyrsta sinn um langt árabil sem vextir lækka í stað þess að hækka óðfluga.

Í fjórða lagi eru það húsnæðismálin, sem nátengd eru vaxtamálunum, eins og öllum er ljóst. Allir flokkar landsins voru um það sammála að þar þyrfti að gera stórátak, eins og ástandið var þar orðið, svo grátt sem verðbólgan hafði leikið húsbyggjendur þessa lands og raunar alla þá, hvort sem þeir voru að byggja eða kaupa sér húsnæði. Það átak hefur nú þegar verið gert sem allir flokkar ræddu um fyrir kosningar. Það kemur til framkvæmda nú um áramótin þegar húsnæðislánin hækka um 50%. Og það er kannske rétt að undirstrika það hér að með því er framkvæmt meira í einum áfanga en Sjálfstfl. hafði lofað fyrir kosningar, og tala menn samt gjarnan um gylliboð og kosningaloforð. Sú hækkun lánanna auk vaxtalækkunarinnar gerir fjölmörgum húsbyggjendum nú loksins kleift að komast klakklaust út úr myrkviði húsnæðisskulda á sæmilega lygnan sjó.

Í fimmta lagi er rétt að líta á viðskiptahallann. Hann var 11 % á síðasta ári og hafði þá aldrei verið slíkur í allri sögu þjóðarinnar. Nú liggur fyrir að á þessu ári mun hann ekki verða nema um fjórðungur af þeirri tölu, eða 2–2.5%. Hér hefur því blaðinu algjörlega verið snúið við, þótt efnahagsráðstafanirnar taki ekki gildi fyrr en á miðju ári.

Í sjötta lagi má nefna hina erlendu skuldasöfnun sem að hluta til átti sér stað vegna hins gífurlega viðskiptahalla. Þær skuldir jafngilda nú 60% af þjóðarframleiðslunni, sem margoft hefur verið tekið fram hér í þessum umr. og eins í umr. um fjárlögin og þarf ekki að hafa mörg orð um hve þar er teflt á tæpasta vaðið. Hluti af efnahagsráðstöfunum ríkisstj. er að stöðva þessar erlendu skuldaaukningar svo sem fjárlagafrv. ber glöggt með sér. Blandast nokkrum hugur um það að það er rétt ákvörðun hjá fjmrh. og mönnum hans og ríkisstj.flokkunum og raunar óhjákvæmileg ef við eigum ekki að gerast bónbjargarþjóð? Ég held að sú stefna verði ekki gagnrýnd með nokkrum rökum þótt að kosti að hægja verður á fjárfestingarferðinni í bili.

Síðasta atriðið sem ég vildi hér nefna eru skattamálin. Ár frá ári hafa bæði beinir og óbeinir skattar hækkað hér á landi og ríkið tekið æ meira í sinn hlut úr vösum einstaklinga og fyrirtækja. Í fyrsta sinn um langt árabil er nú snúið við á þeirri braut. Á síðasta ári runnu 30.2% af þjóðartekjunum til ríkisins í formi skatta og annarra álaga, en á næsta ári lækkar sú tala og hún lækkar í fyrsta sinn um mjög langt árabil niður í 26.8%. Hér er því um mikil og tímabær umskipti að ræða. Þau umskipti eru í fullu samræmi við þá yfirlýsingu stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. að skattar og tollar, sem nú leggjast með miklum þunga á ýmsar nauðsynjavörur, verði lækkaðir. Á næsta ári munu því skatttekjur ríkisins lækka um 3.4% miðað við þjóðartekjur, en það er hlutfallslækkun sem svarar til 2.2 milljarða kr. frá fyrra ári, og er það engin smávegis upphæð eins og sjá má. Frá því að ríkisstj. tók við völdum hafa ýmsir skattar og tollar verið alls lækkaðir á því stutta tímabili um 600–700 millj. kr.

Af öllum sköttum fer það ekki milli mála að tekjuskatturinn er skatta ranglátastur. Hann er fyrst og fremst launamannaskattur. Tekjuskatturinn og aðrir beinir skattar voru í sumar lækkaðir með ráðstöfunum ríkisstj., m.a. með því að barnabætur og persónuafsláttur voru hækkuð. Þetta leiddi til þess að tekjuskattur einstaklinga hækkaði aðeins um 39.8% milli áranna 1982 og 1983, en á því tímabili hækkuðu laun hins vegar um 59% .

Svigrúm til algers afnáms tekjuskattsins á almennum launatekjum er hins vegar ekki fyrir hendi á þessu ári, en hann þarf að lækka verulega með auknum persónuafslætti. Jafnframt því er nú unnið að breytingum á skattstiganum sem tryggja eiga að verðbólguhjöðnunin, sem vonandi heldur áfram, leiði ekki sjálfkrafa til skattaukningar, og svipaðar breytingar þarf vitanlega að gera við álagningu útsvars. Þar dugar ekki lengur að beita 12% skalanum, það þarf að lækka það a.m.k. niður í 9% til þess að mæta minnkandi verðbólgu og verðmeiri krónum, og þá tiltölulega hærri skattaútgjöldum miðað við óbreytta krónutölu.

Herra forseti. Ég hef hér að framan reynt að draga saman hverjir hafi verið helstu ávinningarnir af þeim efnahagsráðstöfunum sem ríkisstj. framkvæmdi fyrir fimm mánuðum. Þótt tíminn sé ekki langur hafa þeir verið verulegir og batamerkin eru óræk. Á hinn bóginn væri fásinna að neita því að þessar ráðstafanir hafa haft í för með sér verulega kjaraskerðingu fyrir launþega þessa lands. Og það er sá vandi sem nú er við að glíma. sú skerðing ráðstöfunartekna nemur nú 13–18%. Í því sambandi er þó rétt að hafa í huga að á síðustu tveimur árum minnkuðu þjóðartekjurnar um 11% á mann. Öllum er ljóst að á milli kaupmáttar ráðstöfunartekna og þjóðartekna verður ekki til lengdar skilið og sú er líka hér raunin á.

En þótt almenn kjaraskerðing hafi verið óhjákvæmileg eins og málum var komið verða menn á næstunni að reyna þó að ná samstöðu um tvennt. Í fyrsta lagi að í kjölfar þessarar kjaraskerðingar hefjist uppbygging íslensks atvinnulífs á nýjum grunni og eftir nýjum leiðum, því að ný verðmætasköpun er forsenda bættra lífskjara. Það er hlutverk ríkisstj. að leiða þennan þátt efnahagsaðgerðanna sem ekki síður er mikilvægur en sá fyrsti. Ný fjárfestingarstefna, aðhald, sparnaður hjá ríkinu og uppstokkun núverandi kerfis skipta þar miklu, en ekki þó síður fullt samráð og samvinna við verkalýðshreyfinguna í landinu og samtök vinnuveitenda um nýja atvinnustefnu.

Hitt atriðið sem leysa þarf úr á næstunni er á hvern hátt unnt er að bæta kjör þeirra sem lægst eru launaðir í þjóðfétaginu og harðast hafa því orðið fyrir barðinu á kaupmáttarminnkuninni sem hér hefur átt sér stað. Undan því verkefni verður ekki vikist. En vandinn er þá sá að tryggja slíka lífskjarabót án þess að aðrir hópar fylgi þegar í stað í kjölfarið og ný verðbólguholskefla ríði yfir eins og dæmin hafa sýnt að átt hefur sér stað fyrr á árum. Í því efni gæti lækkun og afnám beinna skatta algjörlega á lágtekjum verið þungt á metunum.

Herra forseti. Í þessum umr. hefur það ekki farið fram hjá neinum að meginbroddur gagnrýninnar á efnahagsaðgerðir ríkisstj. hefur beinst að afnámi samningsréttarins um fimm mánaða skeið, frá 1. sept., þegar samningar voru lausir, eftir að þeim hafði verið sagt upp af launþegahreyfingunni frá þeim tíma til 1. febr. n.k. Aðrir þættir aðgerðanna hafa lítilli gagnrýni sætt miðað við þetta atriði. Ég vil taka undir það sjónarmið að afnám samningsréttarins var óyndisúrræði þótt sú aðgerð væri talin óhjákvæmileg meðan fyrstu áhrif efnahagsaðgerðanna voru að koma fram. Eins og ég sagði áðan hafa þær aðgerðir leitt nú þegar til mikils árangurs. Þess vegna eru viðhorfin í launa- og kjaramálum nú allt önnur en þau voru í upphafi tímabilsins. Það er skoðun mín þess vegna að það komi fyllilega til greina að afnema bannið við samningum við afgreiðslu þessara brbl. frá Alþingi.

Grundvallarreglan á að vera og hlýtur að vera sú að aðilar vinnumarkaðarins búi við frjálsan samningsrétt sín á milli. Í ljósi þess sýnist fyllilega koma til greina nú að heimila frjálsa samninga um kaup og kjör svo vinnuveitendur og launþegar geti þegar í stað sest niður við samningaborðið og hafið umfjöllun um þessi mál. Forsenda þess og grundvöllur er vitanlega sá að slíkir samningar verði ekki nýir sólstöðusamningar sem leiði nýja verðbólguholskeflu yfir þjóðfélagið. Sú hætta er að sjálfsögðu alltaf fyrir hendi. En ég hygg að launþegahreyfingunni í landinu sé nú ljóst að slíkir samningar þjóna engum tilgangi og fela ekki í sér neina kjarabót nema um örskamman tíma. Þessi breyting á brbl. mundi skapa grundvöll sátta og samvinnu við samtök launafólks í landinu við lausn þess mikla efnahagsvanda sem enn steðjar að. Eftir slíkum sáttum hefur verkalýðshreyfingin þegar óskað. Fram hjá því mikilvæga atriði er ekki skynsamlegt að líta við endanlega afgreiðslu þessa máls hér í deildinni. Og eru það mín lokaorð.